föstudagur, desember 30, 2005

Fjöllottóamargmilljóner

Ég er svo ótrúlega heppinn maður. Núna í desember bárust mér alls þrjár tilkynningar um að ég hefði unnið margar, margar milljónir bandaríkjadala í svona netlottóum sem ég tók ekki einu sinni þátt í; ég var bara valinn af handahófi af því að ég er svo ótrúlega heppinn. Og vann ekki bara í einu lottói heldur þremur. Ótrúlegt! En satt.

Það eina sem ég þurfti að gera var að senda lóttóunum erlendu afrit af vegabréfinu mínu og upplýsingar um bankanúmer og þess háttar til að þau geti sannreint að ég er ég, þessi ótrúlega heppni maður. Auðvitað sagði ég ekki lottófólkinu frá því að ég hefði líka unnið í öðrum lóttóum. Og nú bíð ég bara sallarólegur eftir því að bankareikningarnir mínir fyllist af dollurum og mínus verði að stórum plús. Verst hvað gengið er lágt. Get að vísu geymt þá grænu þangað til að dalurinn hækkar úr sinni djúpu lægð. Það ætla ég að gera, en samt eyða smá til að byrja með. Og ég er búinn að segja upp í vinnunni; get nú loksins helgað mig blogginu og öðrum skrifum því að lesendur mínir og ég eiga það svo sannarlega skilið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home