miðvikudagur, desember 14, 2005

Stakir sokkar

Stakir sokkar hafa nú lagt undir sig heila skúffu í kommóðu minni. Hvar eru makar þeirra: Hvað verður um hina sokkana?

Ég er nú svo klikkaður að þegar ég þvæ þvott þá passa ég upp á það að sokkapörin fari saman í vélina. Það er örugglega svo miklu meira stuð hjá þeim að vera saman í vatni og vindu. Þessu er kona mín ekki sammála og nær undantekningarlaust fara sokkarnir stakir í þvottavélina. Gott og vel. En koma þá ekki eftirlegusokkarnir fast á hæla hinna í næstu vel? Nei, það er nú vandamálið, þeir bara ... hverfa, gufa upp eins kötturinn hennar Olgu Guðrúnar. Þetta er vandamál, verulegt vandamál.

Guðni landbúnaðarráðherra sagði einu sinni að staða konunnar væri á bak við eldavélina. Ég gæti lagt út af þessari lífsspeki ráðherrans og sagt að staða konu minnar ætti að vera á bak við þvottavélina - að leita að stökum sokkum.

Þetta er dularfullt mál þetta með stöku sokkana. Böslurum (sbr. e. bachelors) ráðlegg ég frá því að deila þvotti sínum með þeirri konu sem þeir kunna að falla fyrir eða gera skriflegan samning um að sokkapar skuli alltaf fara saman í þvott. Annars fyllist kærleiksheimilið af einmana stökum sokkum og kærleikurinn; hann víkur fyrir rifrildi um staka sokka.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home