mánudagur, janúar 09, 2006

Ást í Nýju Jórvík

Starfsmenn jarðlesta, strætisvagna og annarra almenningssamgöngutækja í Nýju Jórvík gerðu þriggja daga verkfall síðustu dagana fyrir jólin. Hafði þetta ekki gerst í áratugi í borginni sem aldrei sefur, enda starfsfólki þessa geira einfaldlega bannað að stræka. En, því hefur trúlega verið meira en nóg boðið fólkinu af bágum kjörum. Og hvað gerðist? Jú, allt varð víst stopp, borgarbúar voru marga klukktíma að koma sér í og úr vinnu og leigubílar borgarinnar voru um- og ásetnir sem aldrei fyrr. Settar voru reglur um að ekki skyldi hleypa færri en tveggja farþega bílum inn á Manhattaneyju og leigubílstjórum var heimilað að taka marga óskylda farþega uppí á sömu leið.

Af hverju er ég að tala um þetta? Verkföll hafa ekki þótt neitt tiltökumál hér í Evrópu, þótt við Íslendingar séum orðnir ansi latir við þau. Á Ítalíu þykir það t.d. hluti af jólunum að komast illa leiðar sinnar dagana fyrir jól þar sem lesta- og strætisvagnastarfsmenn eiga það gjarnan til að drýgja jólafríið með skyndiverkföllum. Já, þykir bara notalegt. En, af hverju er ég að tala um verkfall lestarstjóra og miðasala í jólaös New York borgar?

Jú, þegar ég hlustaði á lýsingu fréttaritara Ríkisútvarpsins á því þegar hann tók leigubíl inn á Manhattan og þurfti að deila honum með nokkrum öðrum Jórvíkingum og jafnvel tala við þá þá bara gat ég ekki annað en séð þetta fallega og ljóðræna sem stundum felst í óvelkomnu en tiltölulega saklausu raski á daglegu lífi fólks. Sjáiði til, þarna er fólk neytt til að sitja saman í þröngum leigubíl á stuttri leið um stræti stórborgarinnar sem getur verið svo askoti köld í desember. Og haldiði ekki að fólkið fari að tala saman, a.m.k. um verkfallið, kuldann, jólastressið og þetta allt hitt, t.d. hvort Bin Laden standi nú ekki barrasta á bak við þetta allt. En, semsé, fegurðin felst í því að í hinni köldu borg New York þar sem flestir eru að flýta sér og maður á helst ekki horfa of mikið á náungann skuli ókunnugt fólk neyðast til að sitja nokkur saman í leigubíl og taka upp á því að tala saman, deila sameiginlegri reynslu. Og sem ég hlustaði á sögu fréttaritara sá ég fyrir mér ótal atriði og sögur sem munu fæðast af þessu þriggja daga stoppi á almenningssamgöngum í New York og birtast okkur í amerískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum næstu misserin. Ef þetta er ekki efni í rómantískar myndir þá þekki ég ekki amerískar kvikmyndir. Svona verður í stuttu máli t.d. efni einnar myndarinnar:

Strákur og stelpa hittast í leigubíl ásamt tveimur öðrum farþegum. Strákur og stelpa taka tal saman. Allir fara svo út á sínum stað á Manhattan. Strákurinn fer til vinnu sinnar en getur ekki hætt að hugsa um stelpuna. Vill hitta hana en veit ekkert um hana. Man þá að einn farþeginn virtist vera kunningi stelpunnar og sá vann á ákveðnu kaffihúsi. Stráksi fer á hans fund og grefur upp nafn stelpunnar og hefur uppi á henni. Þau fella hugi saman, þakka verkfallinu fyrir að hafa leitt þau saman og að sjálfsögðu endar brúðkaupið með því að þau gifta sig, samfarþegarnir tveir eru svaramenn og leigubílstjórinn veislustjóri. Myndin mun heita Love on Strike.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home