miðvikudagur, janúar 11, 2006

Back to School

Ég er sestur á skólabekk. Enn og aftur. Saga náms míns er ein brunasaga út í gegn þar sem ég hef farið úr öskunni í eldinn í námsvali. Fyrst var það heimspeki. Úr heimspeki fór ég í kvikmyndagerð og beit síðan höfuðið af skömminni með því að eyða heilu ári í margmiðlunarskóla.

Come on! Margmiðlun árið 2001! Ha, ha, ha, ha, ha! (Eru þau ekki annars fimm ha-in í hahahahaha, ha?). Og hvað nú. Jú, jú, hann er kominn á kunnugar slóðir, sestur í gömlu grænu stólana úr byggingu húsameistara ríkisins ... Bambarambabamb: Háskóli Íslands er það og námið er kvikmyndafræði.

Námið legst vel í mig og mikið er gamli skólinn minn góður að setja mig í stofur sem ég þekki, það er í Aðalbyggingu, Árnagarði og Lögbergi. Áratugur hefur liðið síðan ég var þarna síðast og það skondna er að eitt af síðustu námskeiðunum sem ég tók þá, ef ekki bara það síðasta áður en ég stakk af úr öskunni í eldinn á Ítalíu, var kvikmyndarýni hjá Sigurði Pálssyni skáldi. Það hefur alltaf verið meiningin að klára þetta BA og skrifa þá um kvikmyndaheimspeki. Og nú er semsagt verið að spíta í lófa, bretta upp ermar, fletta bókum og upp í sjálfum sér. Þetta legst vel í mig, segi ég; námið nokkurs konar syntesa eða samþætting á því sem ég hef lært í minn koll hingað til. Og núna þegar maður er að læra með fullu starfi þá er skólabekkurinn bara hreinn sælustaður að sitja á.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home