fimmtudagur, janúar 12, 2006

DV

Ég man eftir Dagblaðinu þegar það byrjaði; var einn af guttunum sem bar það um bæinn í plastpokum og hrópaði: Daag-blað'ið, Daag-blað'ið. Svo var Vísir reyndar líka tekinn með og þá hrópað: Dagblaðið Vísir. Sem varð svo nafnið á sameinuðu blaði nokkru seinna og svo stytt í DV. Lyktin af nýprentuðum dagblöðunum er mér ógleymanleg og enn þann dag í dag grúfi ég mig stundum oní opinn Mogga eða Fréttablað til að svelgja í mig lyktina.

Man ekki hvort ég las Dagblaðið mikið á þessum árum; hef trúlega kíkt á myndasögurnar. Samt aldrei verið mikill myndasögumaður. En svo gerist eitthvað í þróun Dagblaðsins að farið er að líta á það sem sorprit á mínu uppeldisheimili. Lengi vel las ég það aldrei og tók það ekki einu sinni upp til að fletta því fyrir kurteisissakir yrði það á vegi mínum. Þetta var á mektardögum Jónasar á Dagblaðinu. Jú, ég ýki nú eitthvað. Ég held ég hafi reyndar flett því nokkrum sinnum og þótt það lítið til þess koma að ég var ekki mikið að bera mig eftir því.

Þetta var álit mitt á Dagblaðinu og DV lengi vel. Leit jafnvel niður á fólk sem keypti það og las eða undraðist um þá sem voru áskrifendur og ég hélt að vissu betur. Þar til að Illugi tók við hinu endurreista DV. Þá fór ég að hafa áhuga á blaðinu sem einn af mínum eftirlætis pennum átti að fara ritstýra. Þá fór ég að fylgjast með. Og jú, margt var gott gert í blaðinu en líka mörg vitleysan sem fyrr. Svo hættir Illugi og hver kemur í staðinn? Jú, auðvitað Jónas sannleikans.

Það sem er með mann eins og Jónas er að hann mun aldrei skilja hvað við hin eigum við með aðgát, tillitsemi og hófsemi í fréttafluttningi nema hann finni það á eigin skinni hvað það er að vera slegið upp á forsíðu fyrir litlar, hæpnar eða engar sakir.

Setjum sem svo að til væri annað blað sem svipaði til DV og berðist við það um lesendur. Setjum sem svo að Jónas væri eitthvert kvöldið staddur á veitingastað og fengi sér nokkrum glösum of mikið þannig að hann missti stjórn á sér og lemdi eitthvað til þjóns sem væri að reyna að koma honum út. Margt fólk er á staðnum og margir til frásagnar. Mánudaginn eftir er ritstjóranum alræmda slegið upp á forsíðu Kvöldblaðsins með flennimynd og stríðsfyrirsögn: Ritstjóri sannlekans sífullur - Jónas lemur þjón á veitingastað. Þetta er allt í anda Jónasar; hann er opinber persóna sem hefur auk þess gefið sig út fyrir að vera boðberi sannleikans og því væri Kvöldblaðið í fullum rétti til að birta slíka „frétt“. En, okkur hinum finnst þetta ekki vera frétt heldur frekar leiðinlegt atvik sem við erum viss um að Jónas sjái eftir og láti ekki endurtaka sig og við teljum að honum eigi að hlífa við svona umfjöllun þótt honum hafi orðið á alvarleg mistök; því hann er jú maður eins og við og okkur verður á að gera mistök.

Nú veit ég ekki hvort maðurinn fyrir vestan er sekur um það sem hann er sakaður um. Hitt veit ég þó að aldrei hef ég séð annan eins uppslátt á ódæmdum manni og er maður þó að verða ansi sjóaður af skeytingarleysi Jónasar og hirðar hans á DV gagnvart sálum þessa lands. Ekki þótti þeim nægja að birta flennistóra mynd af einhentum manninum sem náði yfir alla síðuna, heldur varð og að klifa á því í stríðsfyrirsögninni að maðurinn væri svo sannarlega einhentur þannig að lesendur myndu örugglega og ósjálfrátt stimpla hvern þann einhenta mann sem þeir mættu næstu misserin sem barnaníðing.

Það er svo sorglegt hvernig Jónas hefur hagað sér undanfarið (hefur kannski alltaf verið svona?) kallandi blaðamenn hórur og farísea og ég veit ekki hvað, því það er svo margt satt í því sem hann hefur fram að færa um blaðamennsku á Íslandi. Málið er bara það að hann er öfgamaður, þekkir ekki mörkin, veit ekki hvar skilin liggja milli þess sem segja á og ÞARF í nafni sannleikans og upplýsinga til almennings og þess sem MÁ kjurrt liggja í nafni tillitsemi og samúðar, a.m.k. þangað til nægar sannanir hafa fengist fyrir viðkomandi máli og það er sett fram á svona þokkalega smekklegan hátt.

Það er eins og það vanti mennskuna í Jónas - blaðamaður er hann samt af lífi og sál, það sjá allir - vanti blaða-mennskuna í hann. Þegar talað var við hann á Morgunvaktinni á Rás 1 stuttu eftir að viðfangsefni hans svipti sig lífi var ekki að heyra að honum væri minnsta brugðið. Og í Kastjósinu um kvöldið var ekki neina iðrun að sjá. Menn sem ekki finna til með öðrum, eða leyfa sér það ekki, láta svona.

Ef börnin mín væru komin á blaðasölualdur myndi ég fagna því frumkvæði ef þau vildu vinna sér inn pening með því að selja blöð. En, ég myndi ráða þeim frá því að sverta hendur sínar á DV. Að minnsta kosti á meðan þessi er blaðamennskan.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home