föstudagur, október 27, 2006

Mýrin

Sviðakjammar, loftmyndir af Reykjavík, beinagrindur og rotnuð lík, löggur og kleinuhringir, Lalli Johns og Lay Low, karlakórar, karlaórar, brim og saltur sjór, saltur húmor - íslenskur húmor.

Fór á Mýrina. Fín mynd. Flott mynd. Ekkert til að skammast sín fyrir. Ekki einu sinni hljóðið; nema kannski muldrið í Eyvindi Erlendssyni sem stappaði nærri Gísla á Uppsölum. Já, svo var líka soldið um uppsölur - nei, það var í Sopranos í kvöld. Smá rugl.

Myndatakan sérlega fín; án stæla en nostursamlega föndrað við mörg skotin þannig að við manni blöstu á breiðtjaldi Laugarásbíós fallega kompóneraðar myndir. Loftaði vel; yfirlitsmyndir hér og hvar sem staðsettu okkur í Reykjavík eða á Suðurnesjum. Líka aðdráttarmyndir sem þjappa viðfangi linsunnar saman og gefa nýja sýn. Fín mynd.

Leikur góður. Ingvar góður, nema hvað. Björn Hlynur einstaklega góður og natúral. Ólafía Hrönn ekki eins góð í litlu hlutverki; stundum eins og hún væri að lesa replikurnar beint af blaði. Daddi ansi flottur sem illmennið Elliði. Atli Rafn góður og alltaf minnir hann mig á Himma.

Framvindan samt ekki nógu þétt. Ekki meira um það að segja. Þarf að sjá aftur. Og vil. Og mun.

Mýrin að mörgu leyti dæmigerð íslensk kvikmynd sem ég er hálfhissa á að við séum enn að gera. Þá meina ég þessa áherslu á náttúruna, gamlar hefðir eins og svið og kjötsúpu, bláa mjólk en ekki léttmjólk. Skilaboðin: Við erum svo sérstök, svo spes, svo natúral, svo gamaldags. Svo íslensk. Alla Friðrik Þór.

Krimmi. Ekki vantaði blóðið, beinagrindurnar og hálfrotnuð lík. Og tilheyrandi: Kaldhæðinn líkkrufningarmann sem kjamsar á kjúlla og hlustar á klassík. Allt það. En ekkert kynlíf. Hins vegar föðurást, dætradrama.

Forvitnilegt að bera saman við nýlega þriggja þátta sakamálamynd sem RÚV keypti og sýndi og fór næstum á hausinn við það. Í þeirri mynd, Allir litir hafsins eru kaldir, birtist minnimáttarkennd okkar í því að reynt er að draga upp mynd af borginni Reykjavík sem einni af stórborgum Norðurlanda (í besta falli gott yfirlit yfir íslenskan samtímaarkitektúr). Mýrin gerir sér hins vegar far um að opinbera sveitamennsku okkar og það með stolti.

Rannsóknarlögreglan Erlendur finnst mér ekki alveg samsvara sér. Hann er sveitó en samt ofursvalur. En valið á Ingvari í hlutverkið er náttúrlega útpælt; hann þarf að geta sinnt þessu hlutverki næstu 10-20 árin. Við eigum hins vegar ekkert að bíða með þetta. Drífa í gang sex þátta sjónvarpsseríu með Erlendi upp úr sögum Arnaldar og selja út og suður. Okkar markaður er Norðurlönd og meginland Evrópu eins og það leggur sig þar sem engu skiptir á hvaða máli myndin er; það er hvort eð er allt talsett.

Hingað til hafa íslenskir kvikmyndagerðarmenn nefnilega þurft að fara alla leið til að koma efnilegri hugmynd í mynd. En það þurfa bara ekki öll handrit að verða að bíómyndum. Mörg eru nefnilega bara sjónvarpsefni. Og ekkert bara. Þessu þarf að breyta. Efla sjónvarpspródúksjón, efla mynd-list. Þannig myndu sparast miklir fjármunir ef verðugar hugmyndir fengju að fara í sjónvarp en ekki bara í bíó. Það er svo dýrt.

Mýrin, fjórar safaríkar gúrkur af fimm.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home