sunnudagur, desember 10, 2006

Brenndu piparkökurnar hennar mömmu

Jólakökurnar mínar eru dökkar og stökkar piparkökur ættaðar frá Skáni í Svíþjóð - piparkökur sem hún móðir mín bakaði fyrir jólin en voru svo ekki bruddar fyrr en eftir jól. Þá var nú gott að koma inn úr janúarkuldanum eftir skóla og gæða sér á seigstökkum piparkökunum með kaldri mjólk. Og ég borðaði venjulega miklu meira en góðu hófi gengdi.

Móðir mín blessunin hefur aldrei verið mikil elhúsfreyja, en fyrir jólin tók hún sig til og bakaði þrjár sortir. Það var svona lágmarksskammtur ef kona ætlaði að halda lágamarksstandardi. Ein sortin var piparkökur eftir skánskri uppskrift, en margir úr fjölskyldunni höfðu sótt í nám til Svíþjóðar og snúið til baka með uppskriftir að síldarsalati, piparkökum - og hinni góðu glögg sem Íslendingar hafa aldrei lært að drekka og eiginlega gefist upp á.

Hún bakaði stóra uppskrift að piparkökum sem var miklu meir en nóg fyrir okkur tvö í heimilinu. Kökurnar voru settar á margar plötur og ein af annarri í ofninn litla í súðareldhúsinu okkar í Vesturbæ Reykjarvíkur. Fyrir kom að kökurnar bökuðust um of. Þá hlakkaði í mér, því þær brenndu fóru í sérstakan stamp mér ætluðum sem ég mátti borða úr að vild þótt jólin og guðsfriðurinn væru ekki gengin í garð.

Það var nefnilega þannig með jólasmákökurnar að þær átti maður að borða um jólin en ekki fyrir, en það vita allir að yfir jólin er maður pakksaddur af kjöti, kartöflum, rauðkáli og jólaöli og hefur enga lyst á piparkökum. En á jólaföstunni, þegar allir eru á hlaupum og súrmjólk í hádeginu og seríos á kvöldin, þá er nú ekki amalegt að gæða sér á brenndum piparkökum í eftirmiðdaginn.

Þetta voru eftirlætiskökurnar mínar; svo stökkar og bragðmiklar að maður gat bara ekki hætt að borða þær þegar maður var einu sinni byrjaður. Þannig voru þær fljótar að klárast þessar brenndu, en því var bjargað með því að fá að láni handfylli hér og þar úr stálstömpunum og setja undir þær fáu sem ég átti eftir af þeim brenndu. Ungir menn bjarga sér.

... ... ...

Skánskar piparkökur (stór uppskrift)
- bragðmiklar og seigstökkar piparkökur ættaðar Skáni frá í Svíþjóð.

500 gr eða 7 dl púðursykur
3 1/2 dl sýróp (ein lítil dós)
400 gr smjör
1 msk engifer
1/2 msk negull
1 msk kanill
3 msk kakó
1 msk natrón
1 3/4 lítri hveiti

Hita púðursykur og sýróp í potti. Bæta smjörinu við og láta bráðna. Láta kólna. Hræra kryddinu, natróninu, kakóinu og hveitinu saman við. Færa degið yfir á fjöl og hnoða vel. Skipta deginu upp í lófastórar kúlur, rúlla þær í jafnar rúllur og fletja aðeins. Láta rúllurnar kólna í kæli smá stund. Skera svo í þunnar (5 mm) sneiðar og setja á plötu. Baka í ofni við 175 gráðu hita í 8-10 mínútur og láta kökurnar kólna á plötunni til að fá þær stökkar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home