miðvikudagur, desember 06, 2006

Fabúla

Var að ljúka við gerð tónlistarvídjós fyrir hana Möggu Stínu vinkonu mína sem kallar sig Fabúlu þegar og hún syngur og spilar. Fabúla gaf út disk núna í lok september sl. sem inniheldur þessa líka fínu tónlist; lágstemmda og fallega.

Möggu Stínu er það gefið að geta samið fallegar melódíur og svo velur hún sér gott fólk til að vinna með. Söngur hennar er þessi viðkvæmnislegi skandinavíski, þó ekkert hálfhvísl. Enda sótti hún manninn sinn Noregs til og bjó með frændum okkar um skeið. Um þarsíðustu helgi héldu þau Magga Stína, Birkir Rafn gítarleikari og Jökull bassi stórfína útgáfutónleika sem ég myndaði. Þar sannaðist hversu fín söngkona stelpan er og ekki skemmdi að Sigtryggur Baldurs barði bumbur og bjöllur.

Plata Möggu Stínu heitir Dusk og er þægileg og falleg skammdegismúsíkk. Eini ljóðurinn á hennar list er sú að hún skuli syngja á ensku. Ég myndskreytti lagið Pink sky og krafðist þess að sjálfsögðu að liðið kæmi hingað upp á Skaga því hér vantar sko hvorki leikmynd né náttúrufegurð.

Tókum upp í og við gamla vitann hér úti á Breiðinni sem er syðsti oddi skagans og steinsnar frá setrinu. Á Breiðinni er líka að finna stóran komplex fiskvinnsluhúsa og þar mynduðum við í elsta húsinu á svæðinu, húsi sem Thor Jensen lét reisa seint á þarsíðustu öld. Þetta er nú skemma sem geymir veiðafæri og annað slíkt. Fannst þetta einhvern veginn viðeigandi og passa við hráleikann sem við vildum ná fram. Þegar ég svo sýndi einum unglingnum í fjölskyldunni vídjóið um helgina þá spurði hann mig hissa hvað ég hefði verið að pæla að taka upp á þessum asnalega lager!

Fabúlu og Co má sjá og heyra á GúrkuTV, en hlustið líka endilega á nokkur laga þeirra á www.myspace.com/fabulaband - sérstaklega á lagið Calm, en það fallega og mellankólíska lag langar mig að myndgera næst.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home