laugardagur, desember 30, 2006

„Hefði betur haldið sig við smíðarnar“

- Höf.: Helgi Seljan: http://730.blog.is/blog/730

Asninn silaðist áfram og María stundi við hverja veltu. Asnar hafa ekki samhæfða fjörðun. Hún fann að litla lífið sem kveikt hafði verið innra með henni, þetta furðulega kvöld fyrir níu mánuðum, var orðið stórt. Of stórt fyrir móðurlíf Maríu að minnsta kosti. Samviskan nagaði hana líka, og það skyldi hún enn síður. Ekki bað hún um þessa heimsókn, ekki bað hún um þetta skæra ljós á rúmgaflinum og þennan sting í maganum. Ó, nei. Hún reyndi hvað hún gat að verjast ljósinu í litla herberginu í Nazaret. En hver getur sossum sagt nei við æðri mátt? Enn ein ókærða, órannsakaða og óútkljáða nauðgunin fyrir dómstólum í mannkynssögunni var staðreynd.

Jósef gekk við hlið hennar og asnans og hugsaði um kúluna framan á konunni sinni. Hugsaði þannig sem enginn maður í föstu sambandi við konu vill nokkru sinni hugsa. Átti hann barnið? Var ef til vill minni en engin möguleiki á því að hann ætti gen í þessari kúlu.

Ekki bara að Jósef hafði ekki enn sofið hjá Maríu - feimni var þar einn helsti orsakavaldurinn - heldur var tímasetning getnaðarins óhugsandi.

Jósef hafði unnið allt þetta ár enda uppgrip í smíðunum. Hann hafði ekki komið heim eitt einasta kvöld án þess að kona hans væri sofnuð á undan honum. Og jafnvel þó Jósef væri gagnkynhneigður maður með sama grunnáhugasvið og aðrir slíkir, svæðið milli háls og hnésbóta kvenmannslíkamans, þá gat hann ekki hugsað sér vekja Maríu eitt einasta kvöld. Jafnvel daganna þegar strákarnir í vinnunni höfðu klæmst allan daginn og rifjað upp eigin atvik í eigin rúmum, þá leyfði hann henni að sofa.

Þess vegna gat þetta bara ekki verið hans barn. Svo mikið vissi hann, smiðurinn.

Staðfestingu á þessu fékk hann svo í fjárhúsinu um kvöldið þegar andlegir frændur blóðföðurins heimsóttu strákinn og gáfu gjafir. Jósef fékk enga. Ekkert nema fyrirlitningaraugnarráð þessara uppskrúfuðu gaura með sínar stórskrýtnu gjafir.

Óþolandi mont í þessum blóðföður þarna fyrr um kvöldið, hefur Jósef hugsað. Þetta ljósasjó yfir fjárhúsinu. Rollurnar trylltar og hænurnar nærri búnar að gogga úr barninu augun. "Týpískt hann," hugsaði Jósef og hvítti hnúanna. Það er erfitt að reiðast yfir framhjáhaldi konu sem maður hefur aldrei sofið hjá.

En af því að Jósef var umburðarlyndur maður, ákvað hann að minnast aldrei á staðfestar efasemdir sínar um faðerni barnsins.

Hann einsetti sér þess í stað að kenna honum list sína; smíðarnar. Blóðfaðirinn hafði ekki afskipti af Jesú fyrr en löngu eftir að bleyjuskiptin, fermingu og útskrift úr smíðaskóla lauk. Ekki króna í meðlög. Ekki svo mikið sem stuttur stans í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Allt var þetta á herðum Jósefs. María sem enn var haldin þessari sérkennilegu sektarkennd fórnarlambs kynferðisofbeldis, gat þó huggað sig við að stoltið birgði ekki manni hennar sýn.

Biblíulæsir menn segja mér að sú bók sýni glögglega fram á hvernig Jósef gleymdist. Jesú uppgötvaði smám saman að hann var öðruvísi en hin börnin. Gat ekki farið í sund og fleira sem börn hafa svo gaman af. En af því að hann var alinn upp af fólki sem dæmdi ekki þá gat hann þroskað með sér diktúrurnar og nýtt seinna.

Afganginn þekkja svo flestir. Jesú varð heimsfrægur í Mið-austurlöndum fyrir predikanir sínar og kraftaverk. Umburðarlyndið var þó það sem lengst lifir af verkum hans, þó auðvitað hafi blindir fengið sýn og holdsveikir endurheimt löngu týnda limi.

Sagan um portkonuna óheppnu sem grýta átti fyrir greiðasemi sína er eflaust besta dæmið um hvernig uppeldið, en ekki genin, mótuðu persónuna Jesú. Hefði Jesú verið sami sjálfumglaði exhibitionistinn og blóðpabbinn hefði hann eflaust látið grýta stelpuna til dauða. Mátt sinn og megin hefði hann ekki sýnt fyrr en hann hefði lífgað hana við með miklum tilþrifum. Í staðinn fór hann að dæmi föður síns; fyrirgaf portstúlkunni yfirsjónir sínar og benti öðrum á að lítill munur væri á hóru og hórkarli eða vændiskaupanda eins og feministar kalla þá (orðrétt snerist þetta reyndar eitthvað um grjótkast og syndir).

Ég held að Jesú hafi snúið baki við Jósef þegar pabbi hans fór að láta svo lítið sem hafa samband við strákinn. Þess vegna grét Jesú á krossinum á Golgata. Hann hefði betur haldið sig við smíðarnar, þá væri kannski séns að klaufhamar hefði verið í beltinu hans. Það hefði komið sér vel.

Nútíma kristsmenn vilja aldrei ræða um krossferðir og galdrabrennur. Þeir benda þess í stað á kærleikann og umburðarlyndið - hér er rót þeirra og uppruni:

Hvort tveggja kemur frá Jósef.

Restin; hún er frá Guði. Í það minnsta hefur hann ekki sýnt vilja sinn í verki síðan í syndaflóðinu þarna um árið, blessaður.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home