þriðjudagur, desember 12, 2006

Stekkjarstaur

Börnin mín tvö eiga sér lifandi trú á jólasveinana þrettán og fjölskyldu þeirra; Grýlu og Leppalúða, Láp, Skráp, Leiðindaskjóðu og hvað sem þetta lið nú allt saman heitir - að ógleymdu skaðræðinu jólakettinum. Barnatrúin er fallegust af öllu; hrein og tær. Á barnaheimilinu þessu sem öðrum hefur ríkt mikil eftirvænting eftir komu þeirra bræðra til byggða. „Stekkjarstaur kom fyrstur, stinnur eins og tré, ...“

Það var tekið vel á móti Stekkjarstaur. Systkinin voru búin að safna saman skeljum og steinum sem þau hafa tínt úr fjörunni hér fyrir neðan og settu í poka út í glugga. Líka voru þau búin að skrifa kort til Jóla þar sem hann var boðinn velkominn til byggða. Og ekki bara þetta, heldur beið hans líka grautarsletta í skál og mjólkurglas. Sveinki kann nú gott að meta og þakkaði fyrir sig með því að skilja eftir jólapezkall og mandarínu í spariskóm barnanna.

Við foreldrarnir vorum hvattir til að setja okkar skó líka út í glugga þrátt fyrir að við reyndum að segja börnunum að fullorðnir fengju venjulega ekki neitt. Og sjá, mamma fékk mandarínu en pabbi ekki neitt því hann fór svo seint að sofa.

Anna mín trúir þrátt fyrir að vera orðin fullra sjö vetra. Kannski hún sé ómeðvitað búin að taka pragmatíska afstöðu til jólasveinanna, álíka þeirri sem William James tók til Guðs og hans fjölskyldu. Röksemdarfærslan er einhvern veginn svona: Ef ég trúi á jólasveininn og hann er ekki til þá fæ ég ekkert í skóinn, ekki frekar en ef ég trúi ekki á hann og hann er ekki til. En ef ég trúi ekki á jólasveininn og hann er til þá fæ ég ekkert heldur. Hins vegar, trúi ég á jólasveininn og hann er til þá fæ ég gott í skóinn. Því hef ég engu að tapa og allt að vinna. Ergo, ég trúi á jólasveininn.

(Sjálfur gekk ég hins vegar af trúnni fimm ára þegar pabbi minn reyndi að leika hlutverk jólasveins með nærbuxur á höfði sem jólahúfu og hlýrabol hangandi á eyrunum sem skegg. Held ég sé ekki enn búinn að ná mér eftir þennan performans og síðan þá lagt mikið upp úr gerfum leikara.)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home