mánudagur, janúar 15, 2007

Flugfiskar

Vakna við djöfulshávaða utan frá götunni. Veghefill að ryðja götuna, hugsa ég. Laugardagsmorgunn, svona rétt um níu. Það hefur þá snjóað meira í nótt. Það er gott. Snjór er góður, snjór er góð ástæða til að sofa lengur. En, nei, konan vill upp. - Kaffi, Kiddi, farðu og helltu upp á kaffi. Æi! Sný mér yfir á hina hliðina, frá óléttunni við hlið mér. Klemmi aftur augun og rembist við að sofna strax aftur. Man þá, andskotinn, ég er líka óléttur; þungaður af óloknum draumi. Ég er skáld!, Hildur, segi ég, og sný mér aftur að bumbunni. - Nei, segir hún, ég er ólétt og við erum svöng. Opnar munninn og mundar vísifingur upp í hann. Það þýðir víst: Gemmér að eta!

Ég var rétt í þessu að dreyma óvenju skýran draum. Ekkert svar, nema garnagaul langt innan úr óravíddum legsins við hlið mér. Ekki var það hefillinn; hann búinn að ryðja sér braut ofar í götuna. En nú átti ég orðið, hljóðið, þögnina. Jú, það var agnarvottur í augum hennar sem ég túlkaði sem svo að hana langaði til að heyra framhaldið. Og svo kaffi.

Mig dreymdi að ég væri niðrí bæ, Reykjavík, í Kvosinni, en samt var þetta ekki Kvosin. Gekk inn í húsasund og þar var fiskverkun. Þar inní húsi var verið að skera fiska úr neti - svona eins og úti á togara. Feitlaginn maður, sem líktist leikaranum bandaríska Jon Polito sem ég horfði á í sjónvarpinu kvöldið áður, var með kuta á lofti og skar stóra fiska úr þykku neti sem hékk niður úr loftinu. Ég tók eftir því að það var eins og fiskarnir væru hver og einn pakkaður inn í svart net. Fannst þetta skrýtið. Spurði manninn út í þetta og nokkrar konur sem voru þarna líka. Þau hlógu og spurðu á móti hvort ég sæi ekki að þetta væru flugfiskar. Jú, nú sá ég það; þetta voru risastórir og ófrýnilegir flugfiskar og það sem mér sýndist að væri eins og svart net um þá voru grófkenndir vængirnir sem höfðu lagst að búkum þeirra af því þeir voru dauðir.

Mér fannst þetta áhugavert og fór strax að hugsa um hvernig flugfiskar smökkuðust. - Jú, bara ágætlega, soldið eins og lúða; gott á pönnu, sagði fólkið. Spurði hvort ég mætti kaupa af þeim eins og einn fisk og sá það fyrir mér hversu Hildur yrði undrandi þegar ég kæmi heim með risastóran fisk, flugfisk. - Jú, jú, ekkert mál, sagði kallinn, farðu bara upp með stelpunum og borgaðu. Þær tóku debet. Þegar ég kom til baka var búið að pakka einum fiskinum inn og því miður afhausa hann og vængskera. Hafði jú séð hann fyrir mér á fiskbrettinu heima með vængjum og allt. En, ég hlakkaði engu að síður til að steikja skepnuna og ... svo veghefill og allt það.

Dauði, þetta táknar dauða, sagði Hildur.

... ... ...

Um kvöldið horfðum við hjónin á frábæra mynd Kusturica, Arisóna drauminn. Aftur, eftir mörg ár og þau virðast svo mörg liðin frá því við sáum hana í bíó. Merkileg mynd að mörgu leyti og það er draumur í heiti hennar og svo einn fljúgandi fiskur. Og svo dauði. En líka mikil ást.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home