laugardagur, janúar 20, 2007

Að taka móralska afstöðu

Á næstsíðasta degi ársins nýliðna var maður hengdur í Írak. Bara sísvona látinn hanga og þegar hann hafði hangið var hann látinn. Þetta var vondur maður sem var látinn hanga og átti það skilið. Það eru ýmsir sem eiga eitt og annað ógott skilið - eins og t.d. Davíð Oddson; hann mætti rassskella fyrir og eftir hádegi daglega fyrir mér. En við látum það bara ekki eftir okkur að flengja þá og hengja sem okkur sýnist því það er barasta ekki siðlegt. Augað fyrir augað og tönnin og það allt tilheyrir Biflíunni og Biflían en gamaldags.

En, ekki var nóg með að böðullin í Bagdað væri látinn hanga heldur var aftakan kvikmynduð og hefur síðan þá verið halað upp og niður um netið og sýnd í sjónvarpi. Gott ef hún er ekki sýnd í sumum kvikmyndahúsum á eftir kókauglýsingum og undan nýjustu amerísku ofbeldismyndinni. Það heitir afþreying.

Þetta er rangt, segi ég, og við eigum ekki að taka þátt í þessu. En, við tökum einmitt þátt í þessu með því að horfa á mann drepinn í nafni laganna í sjónvarpinu og með því að sækja þennan ófögnuð á netið og horfa á erum við orðin að einum þættinum í reipinu um háls Hússeins. Hann hét víst Hússein, fornafnið Saddam.

Nú gengur annað eins ljósum logum um nettengingar Íslendinga: kvikmynd sem sýnir víst syndasel nokkurn úr Byrginu í kynlífsleik. Það sem fullorðið fólk gerir sér til dægrastyttingar, tekur það jafnvel upp, er þeirra einkamál svo fremi sem sem allir aðilar hafi tekið þátt í þeim leik af fúsum vilja. Þangað til annað kemur í ljós er myndin og leikurinn þeirra og engra annarra. Og hafi einhver verið misnotaður, er þá ekki enn meiri ástæða til að sýna viðkomandi tillitsemi og bara sleppa því að vera eins og hinir og sækja þessa vitleysu inn á netið og horfa á í heilagri hneykslan?

Hvað er að fólki? Við erum að tala um tugþúsundir!

1 Comments:

At laugardagur, 20 janúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Nema það er ekki einkamál þar sem viðkomandi í skjóli starfa síns og á vinnustað misnotaði aðstöðu sína. Hitt er annað mál að fólk á auðvitað að nota frítímann sinn í annað en að velta sér uppúr óþverra annarra...

 

Skrifa ummæli

<< Home