miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Gamalt fólk

Var úti að hlaupa. Hvít jörð; snjór yfir öllu, logn og milt veður. Sé útundan mér mann á þramminu. Og er hann ekki með göngustafi. Við nálgumst hvorn annan, maðurinn og ég þarna á stígnum út við sjóinn, og kemur að því að við mætumst. Hægi á mér. Heyrðu, segi ég, hér ert þú á þramminu með staf í hvorri hendi en engin skíðin. Ha, segir sá gamli og kemur alveg skíðalaus af fjöllum. Hann heyrir kannski illa þessi, hugsa ég, endurorða spurningu mína svo hæfi gömlum manni og hækka mig um nokkur des.

Gleymdirðu nokkuð skíðunum? Manninum augljóslega hverft við og hörfar lítið eitt (eftiráaðhyggja var þetta sennilega líkara öskri en spurningu; eitthvað klikkað á fínstillingunni). Þegar maðurinn er búinn að ná áttum og stafa sig aftur upp á stíginn horfir hann til mín mildum augum: Já, þú segir það vinur minn. Ég er nú bara í stafagöngu. Nújá, hugsa ég: Þessi bara skíðalaus í „stafagöngu“. Gef honum kurteisisbros af því að ég er kurteis og stekk af stað. Ég er þó alltént úti að hlaupa í hlaupaskóm. Mikið hvað gamalt fólk getur verið ruglað.

Svo ætlar þetta lið í framboð. Er ekki nóg af gömlu og/eða rugluðu fólki á þingi? Sumt fólk ætti bara að sitja í sínum sófa, inni, og ekki vera fyrir ungu fólki á hraðferð. Á framabraut.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home