laugardagur, janúar 20, 2007

Að taka móralska afstöðu

Á næstsíðasta degi ársins nýliðna var maður hengdur í Írak. Bara sísvona látinn hanga og þegar hann hafði hangið var hann látinn. Þetta var vondur maður sem var látinn hanga og átti það skilið. Það eru ýmsir sem eiga eitt og annað ógott skilið - eins og t.d. Davíð Oddson; hann mætti rassskella fyrir og eftir hádegi daglega fyrir mér. En við látum það bara ekki eftir okkur að flengja þá og hengja sem okkur sýnist því það er barasta ekki siðlegt. Augað fyrir augað og tönnin og það allt tilheyrir Biflíunni og Biflían en gamaldags.

En, ekki var nóg með að böðullin í Bagdað væri látinn hanga heldur var aftakan kvikmynduð og hefur síðan þá verið halað upp og niður um netið og sýnd í sjónvarpi. Gott ef hún er ekki sýnd í sumum kvikmyndahúsum á eftir kókauglýsingum og undan nýjustu amerísku ofbeldismyndinni. Það heitir afþreying.

Þetta er rangt, segi ég, og við eigum ekki að taka þátt í þessu. En, við tökum einmitt þátt í þessu með því að horfa á mann drepinn í nafni laganna í sjónvarpinu og með því að sækja þennan ófögnuð á netið og horfa á erum við orðin að einum þættinum í reipinu um háls Hússeins. Hann hét víst Hússein, fornafnið Saddam.

Nú gengur annað eins ljósum logum um nettengingar Íslendinga: kvikmynd sem sýnir víst syndasel nokkurn úr Byrginu í kynlífsleik. Það sem fullorðið fólk gerir sér til dægrastyttingar, tekur það jafnvel upp, er þeirra einkamál svo fremi sem sem allir aðilar hafi tekið þátt í þeim leik af fúsum vilja. Þangað til annað kemur í ljós er myndin og leikurinn þeirra og engra annarra. Og hafi einhver verið misnotaður, er þá ekki enn meiri ástæða til að sýna viðkomandi tillitsemi og bara sleppa því að vera eins og hinir og sækja þessa vitleysu inn á netið og horfa á í heilagri hneykslan?

Hvað er að fólki? Við erum að tala um tugþúsundir!

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Bloggbókarblogg

Við tökum okkur vel út í Fréttablaðinu í dag, Jón Knútur og ég; hvor á sinni örkinni í góðum félagskap dánartilkynninga, Boston-kyrkjarans, frunsukrema og hennar Sallyar Spectru úr þáttunum um þau Sköllóttu og sætu. Hún er víst dauð blessunin en við búnir að meikaða!

Á bls. 56 og 7 er viðtal við forleggjarann Kristin Pétursson um fyrirhugaða útgáfu bókar með bloggfærslum þorparans Jón Knúts Ásmundssonar; bókin sögð vera fyrsta bloggbókin ever á Íslandi. Ef ekki bara í heiminum öllum.

Blogg á bók! Hverjum dettur það hug? Kannski uppgjafa héraðsfréttaritara austan úr fjörðum sem finnst netið ekki nógu efnislegt fyrir sín miklu skrif. Hlýt að hafa verið fullur þegar ég samþykkti að hjálpa honum með að koma þessum pistlum hans á prent. Fyrst enginn annar nennti því. Öl er annar maður.

Nei, að öllu gamni slepptu þá er ritstjórinn á Gúrkunni að vinna í því þessa dagana að lesa yfir bloggpistla síns ágæta vinar úr Norðfirði með það að markmiði að velja úr þá áhugaverðustu og koma á bók. Vinnuheiti bókarinnar er NESK og vísar til æskustöðva höfundarins. Þetta er skemmtilegt verkefni og efnið vel þess virði að vera gefið út á föstu formi bókarinnar.

... ... ...

- Hér má sjá viðtalið/umfjöllunina í Fréttablaðinu: Á fullt erindi á pappír
- Myndin hér til hliðar er skissa að kápu bókarinnar. Einfalt.

mánudagur, janúar 15, 2007

Flugfiskar

Vakna við djöfulshávaða utan frá götunni. Veghefill að ryðja götuna, hugsa ég. Laugardagsmorgunn, svona rétt um níu. Það hefur þá snjóað meira í nótt. Það er gott. Snjór er góður, snjór er góð ástæða til að sofa lengur. En, nei, konan vill upp. - Kaffi, Kiddi, farðu og helltu upp á kaffi. Æi! Sný mér yfir á hina hliðina, frá óléttunni við hlið mér. Klemmi aftur augun og rembist við að sofna strax aftur. Man þá, andskotinn, ég er líka óléttur; þungaður af óloknum draumi. Ég er skáld!, Hildur, segi ég, og sný mér aftur að bumbunni. - Nei, segir hún, ég er ólétt og við erum svöng. Opnar munninn og mundar vísifingur upp í hann. Það þýðir víst: Gemmér að eta!

Ég var rétt í þessu að dreyma óvenju skýran draum. Ekkert svar, nema garnagaul langt innan úr óravíddum legsins við hlið mér. Ekki var það hefillinn; hann búinn að ryðja sér braut ofar í götuna. En nú átti ég orðið, hljóðið, þögnina. Jú, það var agnarvottur í augum hennar sem ég túlkaði sem svo að hana langaði til að heyra framhaldið. Og svo kaffi.

Mig dreymdi að ég væri niðrí bæ, Reykjavík, í Kvosinni, en samt var þetta ekki Kvosin. Gekk inn í húsasund og þar var fiskverkun. Þar inní húsi var verið að skera fiska úr neti - svona eins og úti á togara. Feitlaginn maður, sem líktist leikaranum bandaríska Jon Polito sem ég horfði á í sjónvarpinu kvöldið áður, var með kuta á lofti og skar stóra fiska úr þykku neti sem hékk niður úr loftinu. Ég tók eftir því að það var eins og fiskarnir væru hver og einn pakkaður inn í svart net. Fannst þetta skrýtið. Spurði manninn út í þetta og nokkrar konur sem voru þarna líka. Þau hlógu og spurðu á móti hvort ég sæi ekki að þetta væru flugfiskar. Jú, nú sá ég það; þetta voru risastórir og ófrýnilegir flugfiskar og það sem mér sýndist að væri eins og svart net um þá voru grófkenndir vængirnir sem höfðu lagst að búkum þeirra af því þeir voru dauðir.

Mér fannst þetta áhugavert og fór strax að hugsa um hvernig flugfiskar smökkuðust. - Jú, bara ágætlega, soldið eins og lúða; gott á pönnu, sagði fólkið. Spurði hvort ég mætti kaupa af þeim eins og einn fisk og sá það fyrir mér hversu Hildur yrði undrandi þegar ég kæmi heim með risastóran fisk, flugfisk. - Jú, jú, ekkert mál, sagði kallinn, farðu bara upp með stelpunum og borgaðu. Þær tóku debet. Þegar ég kom til baka var búið að pakka einum fiskinum inn og því miður afhausa hann og vængskera. Hafði jú séð hann fyrir mér á fiskbrettinu heima með vængjum og allt. En, ég hlakkaði engu að síður til að steikja skepnuna og ... svo veghefill og allt það.

Dauði, þetta táknar dauða, sagði Hildur.

... ... ...

Um kvöldið horfðum við hjónin á frábæra mynd Kusturica, Arisóna drauminn. Aftur, eftir mörg ár og þau virðast svo mörg liðin frá því við sáum hana í bíó. Merkileg mynd að mörgu leyti og það er draumur í heiti hennar og svo einn fljúgandi fiskur. Og svo dauði. En líka mikil ást.