föstudagur, október 27, 2006

Mýrin

Sviðakjammar, loftmyndir af Reykjavík, beinagrindur og rotnuð lík, löggur og kleinuhringir, Lalli Johns og Lay Low, karlakórar, karlaórar, brim og saltur sjór, saltur húmor - íslenskur húmor.

Fór á Mýrina. Fín mynd. Flott mynd. Ekkert til að skammast sín fyrir. Ekki einu sinni hljóðið; nema kannski muldrið í Eyvindi Erlendssyni sem stappaði nærri Gísla á Uppsölum. Já, svo var líka soldið um uppsölur - nei, það var í Sopranos í kvöld. Smá rugl.

Myndatakan sérlega fín; án stæla en nostursamlega föndrað við mörg skotin þannig að við manni blöstu á breiðtjaldi Laugarásbíós fallega kompóneraðar myndir. Loftaði vel; yfirlitsmyndir hér og hvar sem staðsettu okkur í Reykjavík eða á Suðurnesjum. Líka aðdráttarmyndir sem þjappa viðfangi linsunnar saman og gefa nýja sýn. Fín mynd.

Leikur góður. Ingvar góður, nema hvað. Björn Hlynur einstaklega góður og natúral. Ólafía Hrönn ekki eins góð í litlu hlutverki; stundum eins og hún væri að lesa replikurnar beint af blaði. Daddi ansi flottur sem illmennið Elliði. Atli Rafn góður og alltaf minnir hann mig á Himma.

Framvindan samt ekki nógu þétt. Ekki meira um það að segja. Þarf að sjá aftur. Og vil. Og mun.

Mýrin að mörgu leyti dæmigerð íslensk kvikmynd sem ég er hálfhissa á að við séum enn að gera. Þá meina ég þessa áherslu á náttúruna, gamlar hefðir eins og svið og kjötsúpu, bláa mjólk en ekki léttmjólk. Skilaboðin: Við erum svo sérstök, svo spes, svo natúral, svo gamaldags. Svo íslensk. Alla Friðrik Þór.

Krimmi. Ekki vantaði blóðið, beinagrindurnar og hálfrotnuð lík. Og tilheyrandi: Kaldhæðinn líkkrufningarmann sem kjamsar á kjúlla og hlustar á klassík. Allt það. En ekkert kynlíf. Hins vegar föðurást, dætradrama.

Forvitnilegt að bera saman við nýlega þriggja þátta sakamálamynd sem RÚV keypti og sýndi og fór næstum á hausinn við það. Í þeirri mynd, Allir litir hafsins eru kaldir, birtist minnimáttarkennd okkar í því að reynt er að draga upp mynd af borginni Reykjavík sem einni af stórborgum Norðurlanda (í besta falli gott yfirlit yfir íslenskan samtímaarkitektúr). Mýrin gerir sér hins vegar far um að opinbera sveitamennsku okkar og það með stolti.

Rannsóknarlögreglan Erlendur finnst mér ekki alveg samsvara sér. Hann er sveitó en samt ofursvalur. En valið á Ingvari í hlutverkið er náttúrlega útpælt; hann þarf að geta sinnt þessu hlutverki næstu 10-20 árin. Við eigum hins vegar ekkert að bíða með þetta. Drífa í gang sex þátta sjónvarpsseríu með Erlendi upp úr sögum Arnaldar og selja út og suður. Okkar markaður er Norðurlönd og meginland Evrópu eins og það leggur sig þar sem engu skiptir á hvaða máli myndin er; það er hvort eð er allt talsett.

Hingað til hafa íslenskir kvikmyndagerðarmenn nefnilega þurft að fara alla leið til að koma efnilegri hugmynd í mynd. En það þurfa bara ekki öll handrit að verða að bíómyndum. Mörg eru nefnilega bara sjónvarpsefni. Og ekkert bara. Þessu þarf að breyta. Efla sjónvarpspródúksjón, efla mynd-list. Þannig myndu sparast miklir fjármunir ef verðugar hugmyndir fengju að fara í sjónvarp en ekki bara í bíó. Það er svo dýrt.

Mýrin, fjórar safaríkar gúrkur af fimm.

mánudagur, október 23, 2006

Lag úr útvarpsklukku

Tók fram gamlan hljómdisk úr safninu, einn af þeim fyrstu sem ég eignaðist, og rifjaðist þá upp fyrir mér hvar ég heyrði þessa tónlist fyrst sem diskurinn hefur að geyma.

(Sem minnir mig líka á kvöldrölt á milli bara með Jóa Nizza á fyrstu árum CD-diskanna. Vorum að færa okkur á milli staða; frá Hressó upp á Blúsbar. Duttum þá í pælingar um hvað þetta tiltölulega nýja fyrirbæri ætti að nú að heita því orðið „diskur“ fannst okkur alveg ómögulegt. Ég mælti með því að þetta yrði kallað skífa þar sem gömlu vínilplöturnar voru stundum kallaðar skífur og svo minntu þessir CD-diskar mig líka á slípirokksskífurnar sem ég notaði í byggingarvinnunni þá. Man ekki hvað Jói lagði til.)

Nema hvað, skífa þessi er Autumn eftir George Winston og flokkast víst undir nýaldartónlist. Ekki svona nýaldarkukls lyftutónlist heldur meira svona minimal. Falleg tónlist og seyðandi. Þetta var í Ohio veturinn 1987-8.

Við Francesco vorum AFS-skiptinemar og skólafélagar. Á tímabili þennan vetur gisti ég oft hjá honum um helgar. Hann bjó hjá huggulegri fjölskyldu í hinum enda bæjarins. Deildum áhuga á kvikmyndum og kvikmyndagerð. Fjölskylda hans átti forláta VHS-upptökuvél sem við fengum að nota í ýmsa tilraunastarfsemi. Við vorum oft að fram á kvöld og því varð það ósjáldan úr að ég fékk að gista.

Hann hafði rúmgott herbergi til afnota og aukarúm. Og þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgnum kallaðir í pönnukökur og síróp þá var það útvarpsklukkan hans Francesco sem vakti okkur fyrst og alltaf þessi sami nýaldarþáttur á einni stöðinni sem spilaði þessa fallegu tónlist sem féll mér svona vel í geð.

Vildi bara deila þessu með ykkur. Afsakið.

fimmtudagur, október 12, 2006

It was twenty years ago today ...

Fyrstu dagar Stöðvar tvö í loftinu gengu brösulega, margir héldu að innfluttur indverskur tæknimaður væri sérstakt útspil Jóns Óttars til höfuðs ríkisbákninu.

Bandaríkjaforseti og Sovétformaður funda í Reykjavík; hús eitt út við sjó sem helst var þekkt af reimleikum öðlaðist nýja merkingu meðal þjóðar og heims svo að nú er vart hægt að ganga um og við Hlemmtorg nema rekast á villuráfandi túrhesta leitandi að „Hofdi“.

Var á mínu öðru ári í MR; heimastofan í Þrúðvangi, fallegu húsi sem var eitt af nokkrum sem Einar Ben gisti um ævina - Höfði þar með talinn.

Var í tökum fyrir sjónvarpsmynd með forvarnarþema sem hét „Ekki ég, kannski þú“ og skartaði þáverandi og fyrrverandi nemum úr Hagaskóla og núverandi stórleikurum og stoðum og styttum þjóðarinnar.

Fékk bílprófið á afmælisdaginn og keypti mér af því tilefni einn forláta Trabant Deluxe Station, brúnan að lit beint úr kassanum. Gekk í félag Trabanteigenda, Skynsemin ræður, sem síðan lognaðist útaf eins og Austurþýska alþýðulýðveldið og skynsemi mín sjálf.

Þetta var fyrir tuttugu árum upp á dag, ég segi það víst satt.

miðvikudagur, október 11, 2006

Bíó

Skruppum í bæinn um helgina við börnin. Sáum nýja mynd úr smiðju Gunnars Karlssonar tölvugrafíkers og félaga hans í Caoz. Hún heitir Anna og skapsveiflurnar, um hálftíma mynd um draumadótturina sem vaknar upp einn daginn sem bólóttur unglingur með lund og hár í óreiðu. Myndin fór feikivel af stað, lífleg og launfyndin, en svo varð hún ruglingslegri og sagan leystist hreinlega upp. Í óreiðu. Grafíkinni hefur farið mikið fram frá því þeir gerðu fínu myndina um Litlu lirfuna ljótu, en sú mynd er heilsteyptari og ekki skemmir frábær sögulestur Benna Erlings. En, við erum auglóslega að koma okkur á kortið í gerð kvikaðra mynda. Hér má sjá kynningarmynd Skapsveiflu-Önnu.

Ykkar einlægur átti tvær myndir af fimm sem valdar voru í úrslit í samkeppni heimalagaðra heimildarmynda sem Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík efndi til. Engin fékk hann verðlaunin, en dómnefndin sá þó ástæðu til að „heiðra sérstaklega myndina FLUGDREKI“ sem verið hefur í sýningum á GúrkuTV síðustu mánuði.

Hér má lesa frétt um úrslit samkeppninnar á vef kvikmynda-hátíðarinnar.

Ný mynd hefur nú bæst í safnið og enn og aftur eru það börnin mín sæt og fín sem eru viðfangið. Það verður varla annað sagt um mig en að ég sé duglegur að mynda nærumhverfi mitt: kannski full nærsýnn, eða hvað? Myndin heitir SUNNUDAGUR og hana er sem fyrr hægt að horfa á í Gúrkuvarpinu og YouTube.com.

mánudagur, október 02, 2006

Það gerðist um daginn

Grasekkillinn spratt upp frá matarborðinu og stökk að útvarpinu í eldhúshorninu: Hækkaði. Whole lot of love Led Zeppelins flokksins ómaði um eldhúsið og pabbinn bara varð að taka luftgítar og lufttrommur á aðskornu hlaupabuxunum sem hann hafði ekki gefið sér tíma til að fara úr áður en hann vippaði sér úr líkamsræktinni í matseldina. Hann var í ham en börnin kipptu sér lítið upp við það, þökk sé finnsku skrímslahljómsveitinni Lordi úr Júróvisjón í vor; þeim að þakka að þau þekkja þungarokk og finnst bara normal að pabbinn bresti í luftgítar þetta upp úr miðvikudagsbleikjunni.

Áhlaup á Esjuna

Hittumst á miðri leið við Esjurætur svilarnir svölu, Halfdán og ég. Ætluðum að skokka á fjallið fríða og vera snöggir að því. Veðrið hefur gert vel við okkur síðustu vikurnar og ekki var þessi fyrsti dagur októbermánaðar síðri; heiður himinn, sólfar og hiti, nettur skýjabakki yfir Suðurnesjum svona upp á lúkkið.

Lögðum á brattann og skokkuðum stallana upp, upp, upp, eins og unglingar í leitum. Ekkert fé á fjalli en múgur og margmenni nýfrjálsra Íslendinga að viðra andann í herlausu landi.

Esjan er brattari en mig minnti og fljótt ég mæddist. Fljótt, fljótt, fljótt ég hratt frá mér hugsun um upp-gjöf, heldur skpti um gír og setti í þankagang. Útivera og hreyfing gefur tæra hugsun; það er því eins gott að vera með hugann við hugsunina. Hugsaði margt og lét svo móðan mása mæðinni að út blása.

Upp við komumst, kvittuðum í bók og settumst á stein: Fallegt er landið, fallegar er konurnar okkar og falleg eru börnin. Grétum. Tveir hrafnar sátu á hljóðskrafi á syllubrún. Hálfdan, sagði ég, þetta eru sömu hrafnarnir sem fylgdu okkur Jóni Knúti upp Akrafjall snemma í vor. Nú, hvernig sérðu það? Jú, svartir eru þeir og segja líka krúnk.

Eftir að upp er farið, fer maður niður. Það er jú siður.