mánudagur, maí 29, 2006

Rómarvefurinn 5 ára

Ferða-, menningar- og söguvefurinn RÓMARVEFURINN fagnar fimm ára starfsafmæli um þessar mundir. Vefurinn er, eins og nafnið gefur til kynna, helgaður menningu og sögu Ítalíu með sérstaka áherslu á borgina þangað sem „allir vegir liggja“.

RÓMARVEFURINN er yfirgripsmikill vefur og sá eini sinnar tegundar á Íslandi. Vefurinn hefur það að markmiði sínu að miðla vönduðum upplýsingum um sögu og menningu Ítalíu í nútíð og fortíð ásamt greinargóðum upplýsingum fyrir íslenska ferðamenn. RÓMARVEFURINN leggur mikið upp úr því að upplýsingar séu miðaðar við íslenska ferðamenn, að allt efni sé á íslensku og að birta efni sem segir frá kynnum Íslendinga af Ítalíu.

RÓMARVEFURINN er uppfærður reglulega og oft fjallað um málefni líðandi stundar á Ítalíu. Stöðugt bætist við efni vefjarins. Meðal efnis í vefnum eru ferðaupplýsingar um Róm, greinar um páfa og Páfagarð, stjórnkerfi Ítalíu, samskipti Íslands og Rómar fyrr á tímum, óperu og myndlist, matarumfjöllun og uppskriftir - auk ýmissa pistla og greina annarra um aðskiljanlegustu efni.

RÓMARVEFURINN er vel sóttur af fólki á öllum aldri, ekki síst þeim sem eru að hugleiða ferð til Ítalíu. Vefurinn er einnig töluvert notaður af nemendum grunn- og framhaldsskóla og svo þeim sem hafa áhuga á sögu Rómar. RÓMARVEFURINN hefur fengið góða umsögn, jafnt hjá almenningi sem fagmönnum, og er t.a.m. skilgreindur sem námsefni á vef Menntamálaráðuneytisins, Menntagátt.is.

RÓMARVEFURINN er framtak Kristins Péturssonar. Hönnun vefjarins og mest allt efni er á hans könnu, en nokkrir höfundar aðrir hafa lagt vefnum til efni. Kristinn bjó um tveggja ára skeið í Rómaborg og heillaðist svo af sögu og menningu borgarinnar að hann mátti til með að gera þessu skil í máli og myndum; og vefurinn varð fyrir valinu.

... ... ...

E.s Eins sumir vita er kært með Gúrkunni og Rómarvefnum og því fékk þessi ágæti vefur hér inni með fréttatilkynningu þessa. Lengi lifi Rómarvefurinn! Húrra, húrra, o.s.frv.

föstudagur, maí 19, 2006

Silvia Night er alveg allright.

Silvía okkar Nótt tróð upp í Aþenuborg í forkeppni Evrópsku söngvakeppninnar í gærkveldi. Hún var gorgeous, silly og sæt, en allt kom fyrir ekki; það var púað á hana áður en hún byrjaði að syngja og það var púað þegar hún hætti. Hún hefur trúlega troðið fullmörgum grískum um tær. Vakti athygli mína að kóreograferingin og látbragð Silvíu var mun ýktara en áður og svo sennilega til þess að undirstrika enn frekar að þetta framlag okkar átti að vera GRÍN.

Get ekki annað en dáðst að leikkonunni að hreinlega nenna að standa í því að vera í karakter í heila viku; byrja dag hvern á því að koma sér í gerfið og svo leika hlutverkið daginn á enda. Silvía varð grófari eftir því sem frægðarsól hennar reis. Það finnst mér alveg rökrétt. Það var kannski ekki alveg pólitískt rétt að gefa skít í Grikkina, en einhvern veginn passaði það týpunni alveg og því finnst mér leikkonan hafa sýnt dirfsku og dug. Fór alla leið án málamiðlana (fokk, jú, sleppti því að vísu).

Ekki sammála kerlingunum sem kvarta undan því að Silvía Nótt sé slæm fyrirmynd barnanna. Kommon, var þessi fígúra einhvern tímann góð fyrirmynd. Það þarf að útskýra karakterinn Silvíu Nótt fyrir börnum. Börn hrífast jafnt af táknum hins slæma sem hins góða. Glanni gæpur er ekki beint fyrirmyndar drengur. En, það vita börnin og finnst hann samt flottur, a.m.k. pínu spennandi (karakterinn serm gerir þættina um Latabæ þess virði að horfa á þá).

Ég er ekki viss um að leikkonan Ágústa Eva hafi sett markið á sigur í Aþenu. Þá hefði hún tæklað þetta öðruvísi. Öllu heldur virðist hún hafa sett sér það að fanga athygli fjölmiðlunga og tókst það all rækilega. Ég er svona nokkurn veginn viss um að Silvía Nótt fái fjölmörg tilboð um framkomu í sjónvarpsþáttum og fríksjóvum álfunnar og geti haft meira en nóg að gera næstu misserin. Ef leikkonan nennir þá að standa í því.

Evróvisjón er fríksjóv. RÚV gæti nú aldeilis sparað sér peninginn sem það tímir hvort eð er ekki að eyða með því að fá fjöllistamanninn Ladda til að flytja fram-lag okkar næst. Þá væri hægt að halda undankeppni þar sem Laddi flytti sama lagið í svona sirka tíu gerfum og pöpullinn veldi úr; hvort við sendum Elsu Lund, Eirík Fjalar, Skúla rafvirkja, Þórð eða einhern annan úr persónugalleríi meistarans. Laddi er líka lagasmiður góður svo hann færi eflaust létt með að setja saman eitt lag. Svo verður Laddi sextugur á næsta ári.

En, í guðanna bænum ekki Geir Ólafs. Það væri of fríkað.

Breyskir menn

Svona til að bera í bakkafullan lækinn ...

Eyþór Arnalds, nýbúi og oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg, fór í sextugsafmæli á laugardaginn var og fékk sér neðan í því. Það væri svosem ekki í þetta blogg færandi nema fyrir þær sakir að frambjóðandinn settist að svo búnu upp í jeppabíl sinn ásamt spúsu og keyrði af stað áleiðis austur fyrir fjall. Vildi þá ekki betur til en svo að á vegi Ökuþórs var staur einn - ekki beint á veginum heldur utan vegar eins og reglur gera ráð fyrir. Frambjóðandinn keyrði semsagt út af veginum og á staurinn. Staurinn bognaði og bíll, en ökumaður og farþegi ekki meira en svo að þau ákváðu að halda áfram leið sinni en skipta þó um hlutverk í bílnum. Spúsa settist undir stýri en oddviti braut odd af oflæti sínu og gerðist farþegi. Þau náðu þó ekki lengra en í Ártúnsbrekkuna. Þar stöðvaði þau pólitíið, handtók utanbæjarfólkið og kom þeim fyrir bak við lás og slá.

Eyþór Arnalds gerði stór mistök þetta kvöldið og tilviljun ein hefur væntanlega ráðið því að það var staur sem hann keyrði á en ekki maður eða menn. En, ég á bágt með að dæma hann, breyskur maðurinn sem ég er. Hef þó haldið þá reglu í heiðri að láta bíla alveg eiga sig eftir að ég hef neytt áfengis. Það er skelfilega algengt hér á landi að fólk keyri ölvað; ölvunarakstur er stór meinsemd í íslensku samfélagi. Einn meiriháttar dómgreindarskortur hjá stórum hópi fólks. Talandi um þetta; almennt fyllerí og misnotkun áfengis er eitt stórt vandamál hér á landi. Þetta er spurning um mentalítet: Mentalítetið líður fyllerí og líður líka fyrir það. Allir inn á Vog!

En, hver er þessi Ökuþór Arnalds? Gúrkan er hér með stutta upprifjun.

Eyþór Arnalds er fertugur fýr á framabraut. Ól sinn listræna mann í Vesturbænum í Reykjavík, gekk í Hagaskóla og svo MH held ég. Lærði lengi á bumbufiðlu og spilaði klassík, en safnaði svo hári, horggrannur strákurinn, og fór að spila popp með Björku og „hafði aldrei séð aðra eins frystikistu“. Tók þátt í leiklistarstarfi og var drífandi í fjöllistahópnum Veit mamma hvað ég vil? Svo var Todmobile sett á stað og skröltir víst enn. Svo gerði strákur hlé á poppstandinu, smellti sér í jakkaföt, kom sér upp alvöru bumbu og fór í forstjóraleik með galdrastrákunum í Oz. Þegar það ævintýri allt var úti fór okkar maður bara að braska með kaffi og timbur í austurlöndum og hellti sér út í borgarpólitík.

Stútur undir stýri, er úti framboðsævintýri? Nei, það held ég ekki. Fólk kann að meta breyska menn og sérstaklega þá sem kunnna að skammast sín. Frá því að Ökuþór steytti á staur og rankaði við sér hefur hann, að því er virðist, haldið rétt á sínum spilum, unnið vel úr krísunni, valið orð sín vel; bæði þau sem verður að segja og hin sem gott er að sleppa - og umfram allt verið auðmjúkur og sýnt það að hann kann að skammast sín.

Sá magnaði félagsskapur SÁÁ stendur fyrir árlegri sölu sinni á álfinum þessa helgina. Ég veit um einn vænlegan kandídat í sölumennskuna í Árborgarskýri.

föstudagur, maí 12, 2006

Frambjóðendurnir og börnin

Ég þekkti einu sinni mann sem nú er látinn. Hann var svona duldið spes. Var ungur maður vinstrisinnaður en lét síðan heillast af styrk og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Var Davíðsmaður. En, hann var líka soldið skotinn í Hitler og Mússolíní. Trúlega ekki því sem þeir gerðu, heldur valdinu, styrknum, samheldninni. Hann komst yfir gamat póstkort úr Þýskalandi nasismans sem hafði að geyma mynda af Hitler að vísitera einhvern söfnuðinn úti á hinni þýsku landsbyggð. Foringinn hefur tekið barn upp á arminn og bæði brosa breitt, brjálæðingurinn og barnið. Þessari ógeðfelldu mynd stillti minn maður upp við rúmstæði sitt - og af engri annarri ástæðu en til þess að ögra hneikslunargjörnum manni eins og mér.

Goddur, Guðmundur Oddur myndrýnir og prófessor við LHÍ, kom inn á þetta þema í Kastljósþætti fimmtudagskvöldsins 11. maí sl., þ.e. þetta með leiðtogana og börnin, í tengslum við auglýsingar flokkanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar núna. Hann sýndi myndir sem ég hef tekið upp, raðað saman, bætt við og birti hér að ofan.

> Myndina má stækka með því að smella á hana.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Exbévítans bolaskítur

Er maðurinnn skítugur í framan, svaf hann yfir sig í ljósum eða missti hann sólkrem yfir sig? Pælið í auglýsingum þessa fólks. Er verið að bjóða það fram til þess að stjórna borginni eða er þetta nýr söngflokkur á vegum nælonsokksins Einars Bárðar? Ég er hreinlega ekki viss.

En, bíðið við, fylgi Framsóknar í borginni er á mörkum þess að vera mælanlegt. Hvaðan koma þá allir þessir peningar í auglýsingarnar? Fann Steingrímur Hemm Hemm loksins gullið sem hann leitaði? Nei, varla, og þótt svo væri þá er hann fyrir löngu orðinn afhuga Framsókn ... eða var það öfugt, varð sóknarliðið viðskila við Frammið?

XB er Hummer. Og hvað er Hummer? Hummer er tákngerfingur þeirrar gerfiveraldar sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir síðustu árin; hann er allt of stór, eyðir allt of miklu og er ljótur. Það er því meira en táknrænt að Framsókn í Reykjavík, sem þó kýs að bjóða fram undir öðrum merkjum, auglýsir offramboð sitt á einum svörtum, feitum, mengandi Hummer. Hvað bjóða þau næst: XB ætlar að tryggja öllum (lán fyrir) Hummer í heimreiðina!

Ex bé nihil fit = Úr engu verður ekkert.