föstudagur, mars 31, 2006

Vefur

Er að skila af mér nýjum vef sem ég hannaði fyrir Sálfræðiráðgjöfina á Laugavegi 59 í henni Reykjavík. Það er satt að segja nokkuð um liðið síðan ég setti síðast upp vef, en þetta er alltaf jafn gaman.

Nú er það spurningin hvort notkun mín á ljósmyndum af lág- og höggmyndum af goðunum Psyche og Amor sé full menningarleg og síður alþýðleg. Nei, er það nokkuð, erum við alþýðan ekki upp til hópa, inn til sveita og gegnumsneitt menningarlega þenkjandi og fróðfús - svona almennt séð, heilt tekið?

> Vefur Sálfræðiráðgjafarinnar er á www.salfraedingar.is.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Garður

Trúlega fer margt í þessu bloggi mínu fyrir ofan garð og neðan hjá lesendum þess. Það er þó ekki minn stíll að ríða á garðinn þar sem hann er lægstur; frekar að ég velji mér verkefnin sem erfiðari eru heldur en hin sem eru kannski léttari og fljótunnari. Og allt skal vel úr garði gert. Ég er þó enginn utangarðsmaður þótt ég leyfi mér stundum að sitja hjá garði og hugsa mitt; er vel í húsum hæfur og í görðum græfur.

Í varnarmálum þykir oft gott að setja upp varnargarða. Kínamúrinn er eitt stórt dæmi um slíkan garð og er hann sennilega ríflega sauðheldur. Ekki veit ég þó hvort þessi garður hér á Breiðinni á Akranesi sjáist alla leið utan úr geimnum eins og sá kínverski, en sennilega má sjá hann ef vel er rýnt í Jarðarmyndirnar á Google. Hreint makalaus þjónusta sem þar er boðið uppá. Mér leiðist í Garðabæ, en tek vel á móti fólki þaðan og víðar að þá það ber að mínum garði.

[Myndin er semsagt af grjótgarði rétt við ströndina á hinni s.k. Breið syðst á Skaganum. Akrafjall er svo utangarðs.]

> Garðurinn kemur fyrir í skammmynd sem heitir Rok og horfa má á í vefvarpinu gúrkaTV.

föstudagur, mars 17, 2006

Alltaf að heyra eitthvað gamalt

Sat við tölvuna í gær að föndra við orð og myndir. Opið fyrir varpið eins og oftast; á Rás eitt konur tvær að spjalla saman um tónlist. Talið barst suður til Rómar og þá sperrtust mín eyru, hlustirnar víkkuðu út og tal þeirra var ekki lengur mal heldur upplýsingar sem þær numu og báru undir heilann.

Suður í Róm fyrir um einni öld síðan var nefnilega uppi geldingur einn sem var kórstjóri í Sixtínsku kapellunni í Páfagarði. Alessandro Moreschi var geldsöngvari og einn sá allra síðasti sem þá var uppi, en gullöld geldinganna var í barokki 18. aldar.

Það merkilega sem kom fram í spjalli kvennanna var að söngur Moreschis var hljóðritaður. Þetta var árið 1902 og fór upptakan fram við páfamessu í Vatíkaninu. Þetta hafði vakið athygli mína og ég fór að gúgla. Fann upplýsingar um geldinginn, myndir og hljóðritið góða. Setti því saman lítinn pistil að setja á Rómarvefinn og leyfi honum að vera hér líka.

Á vafri mínu um vefinn rakst ég inn á upplýsingavefinn Answers.com sem er mikil fróðleiksnáma orða og mynda.

Síðasti geldsöngvarinn

Geldingar (ít. castrati) sem söngvarar eru einstakt fyrirbæri í vestrænni tónlistarhefð, en tímabil þeirra varði frá síðari hluta 16. aldar til um miðja þá nítjándu. Gelding ungra drengja og þjálfun í sönglist var aldrei opinberlega leyfð af kirkjunni en var þó liðin. Það var ekki fyrr en við sameiningu Ítalíu og fall Páfaríkisins 1870 að gelding var með öllu bönnuð.

Alessandro Moreschi (1858-1922) hóf að syngja við páfahirðina árið 1883, en 1898 var hann orðinn stjórnandi kórs Sixtínsku kapellunnar. Hann er eini geldingurinn hvers söngur hefur verið hljóðritaður. Það var víst hending að þessi hljóðritun fór fram, á fyrstu árum þeirrar tækni, því markmið upptökumannanna var víst að taka upp messu páfa; tónlistin fylgdi með. Söngur Moreschi þykir ekki ýkja merkilegur sem slíkur, en heimildin er einstök og sú eina sem til er um geldingssöng.

Ekki skyldi líta á hljóðritið sem dæmi um castrati-söng 18. aldar því talið er að Moresci hafi verið langt frá sönghefð hins fræga Farinellis. Síðasti castrato-inn sem söng á sviði, Velutti, hafði látið af því um þrjátíu árum áður en Moreschi fæddist. Söngur þess síðarnefnda tilheyrir því söngheimi síðari hluta 19. aldar kirkjutónlistar en ekki barokkóperusöng eins Velutti flutti hann.

Hér getur þú hlustað á geldsöngvarann Moreschi syngja Ave Maria við messu í Páfagarði árið 1902.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Bank, bank!

Bankinn minn er búinn að taka upp nýtt nafn, kennimerki og dumbrauðan lit - heitir ekki lengur því gagnsæja nafni Íslandsbanki (þ.e. banki sem upprunnin er og starfar m.a. á Íslandi) heldur Glitnir. Nú ætlar gamli bankinn minn sameinaður fyrrum dótturfyrirtækjum í eina meiriháttar útrás til ... úha, haldið ykkur: Noregs.

Starfsvettvangur Glitnisbanka er því Ísland og Norge og því ekki nema von að sveitastrákurinn Bjarni bankastjóri Ármanns hafi talið fulla þörf á nafnbreytingunni þar sem Norðmenn skilja að sjálfsögðu ekki bofs í því hvað framandorðið Íslandsbanki þýðir.

Hef ekki lengi heyrt lélegri rök fyrir að því er virðist ónauðsynlegri nafnabreytingu með öllum þeim tilkostnaði og ruglingi sem fylgir. Nema - og takið nú eftir - nema þetta sé einmitt úthugsuð leið til að losna við Íslandstenginguna sem hingað til hefur þótt flott en stefnir nú í að verða útrásarvíkingunum fjötur um fót.

... ... ...

„Bank, bank, halló, er einhver heima?: Það er allt að fara helvítis til!“ - Nei, nei, ekki mín skoðun og svo sannarlega ekki stjórnvalda sem kóa og kóa með Alcoa og bönkunum.

En, þetta segja bankar og fjármálagreiningarfyrirtæki á Norðurlöndum og víðar. Og svartsýnisspárnar stigmagnast; verða svartari og svartari, súlurnar í súluritunum hafa skotist langt niður úr kortunum og eru leið til ... þið vitið hvert.

Slæmu fréttirnar:
Danski fjárfestingarbankinn Nykredit varar við íslenska hagkerfinu og ráðleggur fjárfestum að innleysa þegar skuldabréf sín í íslenskum bönkum. Áður en það verði of seint.

Yfirmaður greiningardeildar fjárfestingarbankans kveðst ekki geta ráðlagt neinum að lána peninga til KB Banka, hvorki til lengri né skemmri tíma.

Góðu fréttirnar:
Yfirmaður greiningardeildar First Securities í Noregi telur ekki að hrun sé yfirvofandi, heldur að smám saman taki að halla á ógæfuhliðina á íslenska fjármálamarkaðnum á næstu mánuðum.

... ... ...

Fiskar prýða myntina okkar, enda var sjávaraflinn lengi vel helsta tekjulind þjóðarinnar. Nú er banka- og fjármálastarfsemi ýmisleg orðin æði umsvifamikil og allir að landa miklum gengishagnaði. Setjum við þá peninga á peningana okkar? Man einhver eftir álkrónunni litlu og léttu sem flaut? Nú er sko tími til að taka hana aftur í gagnið: Fljótandi álgengi krónunnar.

sunnudagur, mars 12, 2006

Einkafundir

Valgerður Sverrisdóttir fer hörðum orðum um Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, á vef sínum og sakar hann svo að segja um einelti og kvenfyrirlitningu eftir að hún hafnaði frekari samræðum / samráði / samræði við hann. Ráðfrúareinelti.

Styrmir þessi er sami innmúraði ritstjórinn og var Jónínu Benediktsdóttur innan handar í því að safna saman liði til hjálpar einum hr. Sullenberger að ná fram hefndum gegn Bónusfeðgum.

Það er kynferðislegur undirtónn í skrifum Valgerðar, hvorki meira né minna; lesa má á milli línanna að Morgunblaðsritstjórinn hafi gefið henni undir fótinn með því að bjóða henni reglulega „einkafundi“ - og nota bene orðið einkafundur, það er afar kynlífshlaðið orð: „Ritstjórinn lagði áherslu á að við gætum átt reglulega einkafundi í framtíðinni. Ég hafði hins vegar ekki áhuga á því og höfum við ekki átt slíkan fund síðan.“

Jahá. Styrmir þessi er að sönnu valdamikill maður sökum starfa síns og innmúraðrar aðildar að Sjálfstæðisflokknum. Hann finnur til sín og á fundi með málsmetandi mönnum og líka einkafundi með myndarlegum konum. Innmúraður samráðsmaður hans er Kjartan Gunnarsson, erindismaður Sjálfstæðisflokksins. Fram hefur komið að hann og Elín Hirst, fréttastjóri Ríkissjónvarpsins eiga mánaðarlega einkafundi. Þykir sjálfsagt að einn innmúraður sjálfstæðismaður eigi reglulega fundi með fréttastjóra ríkismiðils til að fara yfir hlutina.

Ætli þetta sé svona, að vinstrimenn eigi samfundi en hægrimenn einkafundi?

fimmtudagur, mars 09, 2006

Af einu góðglöðu skáldi

Aldrei, aldrei ætti maður að blogga um það fyrir framan alheim að maður sé að skrifa bók, sína fyrstu svona alvöru skáldsögu. Nei, maður ætti frekar að drífa það af að skrifa hana og svo tjá sig um hana. Ekki „vera að skrifa bók“ í nokkur misseri og verða þannig merktur í huga fólks sem maðurinn sem er að skrifa bókina.

Nei, ég hef séð allt of margar amerískar bíómyndir um frústreraða og misskilda listamanninn sem er að skrifa bók. Bókina. Og hefur verið að skrifa bókina. Lengi. Og ekkert gengur.

En nú bregður svo við að maður nokkur íslenskur sem sennilega hefur aldrei í amerískt bíó komið hefur bloggað lengi um m.a. það að hann er að skrifa bókina sína. Og gengur svona og svona eins og svona og svona við er að búast, enda ekkert áhlaupaverk að skrifa bók - er mér sagt. Eitt bloggið hans er svona:

Ég er ekki að skrifa skáldsögu.
Ég er að skrifa bók.
Ég veit ekki hvenær hún kemur út.
Hún verður góð.

Þetta er þá kannski ljóðabók. Vinur minn, sem er (af annarlegum hvötum?) fastur lesandi bloggsins og benti mér á síðuna, segir skáldið áreiðanlega vera búið að tryggja sér útgáfu og pottþétta sölu með þessu bloggi sínu því hundruð lesenda fylgist með blogginu, ef ekki þúsundir.

Humm, ég ætti kannske að fara að huga að efni í bók, byrja að skrifa ... og skrifa um það ... á blogginu mínu. Eins og tíðarandinn er í dag er kannski jafngott að vera góðglatt skáld og góðskáld, í það minnsta ef lífið býður ekki upp á hvort tveggja.

> Bókarskrifari hinnar óskálduðu sögu bloggar á slóðinni agustborgthor.blogspot.com Svo má líka stækka myndina hér að ofan með því að smella á hana.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Góða nótt og vegni ykkur vel

Svart. Hvítt. Svart og hvítt. Þá var allt annað hvort svart eða hvítt. Eða var það rautt og blátt? Sígarettureykur. Kent sígaretttur. Jazz, blaðamenn, sjónvarp, kommúnismi, McCarthyismi. Og Alcoa. Allir kóa með Alcoa.

Sá semsagt kvikmyndina Góða nótt og vegni ykkur vel í Laugarásbíó á mánudagskvöldið.

Bandaríska álfyrirtækið kemur mjög við sögu í myndinni sem aðalauglýsandi í sjónvarpsþættinum sem hún fjallar um. Stórfyrirtækið er ekki sátt við gagnrýni þáttarstjórnandans á vinnubrögð McCarthys og allir kóa nema Edward R. Murrow eftir því sem þessi ágæta mynd segir okkur, mynd sem virðist fjalla svo miklu meira um samtíma okkar heldur en um McCarthy-hryllinginn á 6. áratugnum. Því þótt allt sé nú í lit og háskerpu, plasma og LCD, er allt samt sem áður litlaust og flatt. Svart eða hvítt vilja sumir hafa það. Við og þeir. Góðu og vondu. Trúaðir og trúleysingjar.

Það er sjaldfenginn unaðs munaður að sjá svarthvíta mynd í bíó og því var heimsóknin í Laugarásinn vel ferðarinnar virði. Myndin er svona lala, haganlega gerð með góðum leikurum en sagan ansi takmörkuð. Þetta er fyrst og fremst mynd sem ætlað er að koma á framfæri ákveðnum boðskap. Og til hverra? Jú, til Bandaríkjamanna. Fyrst og fremst þeirra. Þetta er ekki mynd um ógnartíma McCarthys og þau meðul sem þóttu á þeim tíma nauðsynleg og sjálfsögð til að hefta útbreiðslu hins illa kommúnisma. Nei, þetta er mynd um Bandaríkin í dag og stefnu þeirra og breytni í stríði þeirra gegn hryðjuverkum og þau meðul sem þau telja sig mega nota til að ná fram hinu göfuga markmiði.

Clooney lék og leikstýrði. Leikur líka í myndinni Syriana, en fyrir það hlutverk fékk hann einn gullsleginn Óskar. Átta prósentum færri Bandaríkjamenn horfðu á Óskarinn sl. sunnudagskvöld: Full margar myndir um homma og pólitík.

laugardagur, mars 04, 2006

Punktar

Það er vöxtur í Gúrkunni þessa dagana, eins og öðrum mikilsverðum fjölmiðlafyrirtækjum íslenskum. Gúrkan hefur nú sett á stofn vefsjónvarpið GúrkaTV - vefvarp alþýðunnar, hvar ætlunin er að út-varpa einhverskonarmyndum úr smiðju minni. Smá tæknileg vandamál hafa komið upp sem lúta að því að illa gengur að fá QuickTime til að virka í PC tölvum, en það eru nú bara 92,3% tölvunotenda sem nota það drasl. Svo ekkert liggur á. Slóðin á Gúrkuvarpið er:
www.romarvefurinn.is/gurkatv

... ... ...

Hjálmar Hjálmarsson leikari er með pistla í sjónvarpsmagasíninu Kastljósi; ekki kannski alveg hann sjálfur heldur svona meira í karakter. Nema hvað, Hjálmar er með eindæmum orðheppinn og fyndinn maður, hraðmæltur með afbrigðum. Og það sem mér líkar best: Hann lætur sumt flakka. Til dæmis að Ingvi Hrafn Jónsson sé vitlaus. Er hann það? Ég veit það ekki, svo langt síðan ég hef heyrt krúnkið í honum.

... ... ...

Íslensk hönnun verður sem betur fer meira og meira áberandi. Ef við viljum raunverulega skapa okkur nafn (eins og t.d. Finnar) sem landið sem fóstrar skapandi hugsun og framúrstefnuhönnuði þá verðum við að láta af áleinstefnunni og styðja þess í stað markvisst við hönnun og listir. Við getum ekki öllu lengur látið ráðamenn steypa okkur öll í sama álmótið. Þegar núríkjandi landsstjórn dagar uppi trúi ég því að hún verði að áli en ekki steini.

> Mæli með flottum dæmum um íslenska hönnun Hrafnkels Birgissonar á vefnum www.hrafnkell.com