sunnudagur, mars 11, 2007

Að þekkja sitt heimafólk

Drengurinn í öftustu röðinni t.h. er pabbi minn. Mynd tekin í Landakotsskóla í Reykjavík ca. 1958. Nunna og allt!

Ég veit ekki með ykkur, en ég hef lengi haft það á tilfinningunni að ég þekki lítið til fortíðar foreldra minna. Mömmu og pabba þekki ég að sjálfsögðu sem „mömmu“ og „pabba“, en svo vill til - rétt eins og með mig sem föður núna - að þetta fólk átti sér jú æsku og líf áður en ég bankaði uppá. Og um það veit ég harla lítið annað en brot og brot.

Svo ég segi ykkur eins og er þá hef ég oft hugsað þetta bloggstand mitt sem n.k. minningardrög fyrir börnin mín elskuleg að lesa síðar um föður sinn, ef þau þá nenna. Og pælið í því; nú eru tímar ofgnóttar upplýsinga. Fullorðin börn okkar kynslóðar munu - ólíkt mér - kveinka sér undan upplýsingamergðinni: Þetta fólk mun drukkna í þúsundum stafrænna ljósmynda af sjálfu sér, stafrænum vídjóum og hljóðupptökum. Og svo bloggfærslum um sig og foreldrana, vefsíðum sem segja meira um þau en þau kysu, o.s.frv.

En sama hvað börnin mín kunna að kveina undan offramboði upplýsinga um pabba sinn, þá þætti mér ekki leiðinlegt að vita meira um mína foreldra - og þeirra og svo videre. Vitanlega hef ég stundum náð þessu fólki mínu á minningarspjall, en ég er nú bara svo gleyminn eða trú mín á texta meiri að ég vil endilega fá þetta allt saman skjalfest. Mömmu hef ég hvatt til að skrifa niður valdar minningar fyrir mig og mína og þegar pabbi minn nefndi það við mig að hann langaði að skrásetja sínar minningar þá hvatti ég hann mjög til þess.

Þekki ég mitt heimafólk? Þegar foreldar mínir eru búnir að gera eins og ég segi þá er ég viss um að ég eigi eftir að efast um það.