miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Kærleikur

Sérarnir Bjarni og Bolli tókustu á um það í Kastljósi í kvöld hvort eða hvers vegna ekki samkynhneigðir eigi að njóta sömu réttinda og önnur Guðsbörn innan kirkjunnar. Annar vísaði til tilfinninga fólks og mannréttinda, hinn í kalda rökhyggju og kirkjuþing í Níkeu sem Konstantínus keisari kallaði til árið 325 (!).

Það er skiljanlegt að eðlislægt bákn eins og þjóðkirkja sé íhaldsamt og svifaseint í ályktunum eða samþykktum um mál sem ganga þvert gegn hefðinni. En, það er ekki eins og þetta sé glænýtt mál. Kirkjan hefur haft nægan tíima til að ígrunda spurninguna um hjónaband samkynhneigðra. Í það minnsta er ljóst orðið að þjóðin er komin langt fram úr kirkjunni í að akseptera þessi sjálfsögðu réttindi og því má segja að nú sé staðfest djúp millum þjóðar og kirkju. Það veit ekki á gott fyrir þá sem vilja öfluga Þjóð - kirkju.

Kirkjan þarf að reka af sér sliðruorðið og taka afstöðu sem allra fyrst. Samtímis því sem hún hummar þetta fram af sér hummumst við hin í burtu sem ekki nennum að bíða eftir því að hún taki sönsum. Karl Sigurbjörnsson virðist mér sem afar trúhneigður maður og grandvar. Og sem betur fer vantar ekki réttlætiskenndina í hann. Það hefur hann sýnt með predikum sínum um ólíðandi fátækt á Íslandi. Trúlega eiga réttlætiskenndin og kenningin nú í mikilli rökræðu hjá Karli.

Og takið eftir því, mér dettur ekki einu sinni í hug að eyða orðum í rök fyrir því að samkynhneigðir eigi að fá að giftast frammi fyrir Guði og mönnum. Segir það sig ekki alveg sjálft? Hvað skyldi Jesús segja við þessu?

Það vill nú svo til að ég svona nánast trúlaus maðurinn, heyri til efasemdarmanna, agnostics, frekar en trúleysingja. En, mér þykir vænt um kirkjuna og hver þau trúarbrögð sem boða kærleika, jöfnuð og umburðarlyndi. Því er það von mín að þjóðkirkjan taki á þessu þarfa máli strax og sýni þá djörfung, sem við Íslendingar eigum auðveldara með en aðrir í krafti smæðar okkar, að ganga á undan öðrum þjóðum með góðu fordæmi. Í nafni kærleikans, því á honum grundvallast kristin trú víst.

... ... ...

Egill Helga (þessi feiti með krullurnar) stimplar sig þessa dagana inn sem einn mesti íhaldsmaður landsins. Fyrst skrifar hann innblásinn pistil um það hvað allt var nú betra hér áður fyrr og svo biður hann fólk um að sýna íhaldsömum um málefni samkynhneigðra skilning, að þessu fólki finnist sumu bara þá alveg eins hægt að leyfa fjölkvæni. Eins og það sé það sama!?

Ég segi bara eins og félagsmálaráðherra: Hættum að líta á jafnréttisbaráttuna sem sem kvennabaráttu. Þetta er okkar mál, okkar barátta. Og líka málefni samkynhneigðra, fatlaðra, geðfatlaðra o.s.frv. Þessi málefni eru öll okkar málefni en ekki ÞEIRRA HINNA.

BÓKADÓMUR
Hef lesið lítillega í testamentinu gamla og nýja. Jú, jú, ágætt. Sama efni að finna Dabbanum og Fréttó daglega. Þrjár gúrkur fyrir þarna kallana sem lifa endalaust í Biflíunni.

E.s. Að gefnu tilefni skal það tekið fram að myndin af nafna mínum hér til hliðar er ekki samtímaljósmynd, heldur túlkun listamanns á öllu hörundsljósari Jesúsi en hann að líkindum var blessaður.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Hálflesnir Rússar

Jón Knútur vinur minn bloggar um Dostojevskí. Spjall hans leiddi huga minn að mínum eigin kynnum af Rússunum. Ég hef lesið í nokkrum bókum Dostojevskís en enga hef ég klárað, að mig minnir. Fyrstu bókina las ég sumarið eftir gaggó, þ.e. á sextánda ári, og þá var ekki ráðist á rússneska garðinn þar sem hann er lægstur: Glæpur og refsing.

Ég var norður í landi að leika í mynd sem Ríkissjónvarpið framleiddi og höfðum við bækistöðvar í svefnskálum Kröfluvirkjunnar. Hef trúlega tekið bókina með mér til að glíma við á kvöldin þegar lítið var við að vera. Og ég las og las, pældi og pældi en kláraði hana ekki. Hef oft hugsað um að taka upp þráðinn þar sem ég skildi við hann uppi við Kröflu því ég held ég muni ótrúlega mikið úr bókinni. Og afhverju skyldi það vera. Jú, ég þurfti nefnilega að endurlesa marga kaflana þar sem ég ruglaðist algjörlega í nafnahefðinni og vissi ekki hver var hvað. Og þá var ekkert annað að gera en fletta til baka og lesa upp á nýtt.

Ég kíkti í rússnesku hilluna mína. Þar eru nokkrar bækur eftir Dostojevskí og sumar enn með miða á þeirri blaðsíðu þar sem ég skildi við þær. Í V. kafla fjórðu bókar Glæps og refsingar er bréf utan af Siríussúkkulaði, í VIII. kafla annars hluta Fávitans er Lottómiði fyrir miðvikudaginn 9. nóvember 1994. Vinningstölurnar skrifaðar á miðann og sennilega hef ég ekkert unnið. Í 23. kafla Meistarans og Margarítu eftir Búlgakof er bara venjulegur gulur miði. Þessar og fleiri bækur voru mér allar ánægjuleg lesning sem ég þó af einhverjum ástæðum kláraði ekki. Núna hef ég tekið mig á og klára þær bækur sem eiga það skilið. Og ég þarf augljóslega að fara bókahillurnar mínar og tína fram ókláruðu bækurnar.

Nafnahefðina rússnesku útskýrði þýðandinn Ingibjörg Haraldsdóttir svo í þýðingu sinni á Karamazov bræðrunum. Tók hún Harald heitinn Blöndal sem dæmi, en hann bar ættarnafn en var svo auðvitað Lárusson og líka kallaður Halli af vinum sínum. Í Rússlandi hefðu öll þessi nöfn verið notuð, hvert og eitt þeirra á stundum eitt og sér, en stundum fornafn og föðurnafn saman o.s.frv. Allt eftir því hver ávarpaði hann eða um hann ræddi. Þessi nafnahefð gerir því óvanan lesanda rússneskra bókmennta mátulega ruglaðan. En, útskýring Ingibjargar hjálpar mikið.

BÓKADÓMUR
Mæli með því að allir lesi Dostojevskí, en það liggur ekkert á. Hef ekki séð neina umfjöllun um það til hvaða markhóps hann þóttist höfða. Fimm gúrkur fær Ingibjörg Haralds fyrir þýðingar sínar.

E.s. Að tilefni gefnu tek ég það fram að ég tók ekki myndina af honum Fjodor hér til hliðar og ber því enga ábyrgð á því að hann horfir ekki í myndavélina. Skil bara hreinlega ekki í manninum! Hefur trúlega fengið tvo ljósmyndara til að gera tilboð í mynd af sér og tekið tilboðinu frá þeim sem var ódýrari, þ.e. í hvers linsu sem hann horfði ekki.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Dæmi um góða latínu

Einhver gáfumaðurinn sagði að tónlist skiptist í tvo flokka: Góða tónlist og vonda. Ég hlusta á allt og helst minna á það síðarnefnda.

Ég hef lengi verið svag fyrir dægurtónlist sjötta og sjöunda áratugarins, þessari hjálfhallærislegu fiftís og sixtís tónlist. Þegar Björk og Guðmundur Ingólfsson slógu saman í hina frábæra hljómplötu Gling gló þá var ég mættur á tónleikana og keypti náttúrlega diskinn þegar hann kom út.

Á sjöunda áratugnum var latíntónlist áberandi. Einhver sú mesta latíndrottning sem ég þekki er Eydie Gormé, söngfugl frá Bronx með fjölþjóðlegan bakgrunn sem minnir mann á Ellý í ellefta veldi. Ég á einn disk með Eydísi þar sem hún syngur með hinum mexíkósku Los Panchos suður-ameríska standarda og hefur sú plata verið í miklu uppáháldi á heimilinu síðan Hildur kom með hana í hús alla leið úr Karíbahafi árið 1996.

Svo skrifar Sabrina "soyarra" frá Los Angeles árið 2004 á Amazon.com um plötuna Canta en Español með Eydie og Los Panchos frá árinu 1964:

„ Eydie Gorme is decended from Sephardic Jews, whose traditional language is a form of 15th century Spanish known as Ladino, so this foray into South American/Caribbean/Mexican Spanish songs is not entirely surprising. This was the soundtrack to most of my family's parties and dances, so it has special meaning for me. Gorme's voice is flawless in the typical 50's/60's Gogi Grant/Vikki Carr manner, her accent is pretty good, and Los Panchos provide an excellent backdrop to her singing. In all, this is a must for any Cuban/Mexican/Argentine summer party. “

Þetta með partíin geta börnin mín líka vel staðfest. Sumar plötur eru bara partíplötur og verða spilaðar aftur og aftur. Svo eigum við safndisk með Los Panchos og hann er sko ekki leiðinlegur. Fyrir stuttu eignaðist ég svo safndisk með Erlu Þorsteins og hann fór í nokkra jólapakka síðustu jól. Í þessum gömlu en sígildu lögum og flutningi þeirra er falinn einfaldleiki og einurð sem kannski er minna af þessa dagana.

PLÖTUDÓMUR
Canta en Español með Eydie og Los Panchos frá árinu 1964: Fimm safaríkar gúrkur af fimm mögulegum.

E.s. Að gefnu tilefni verð ég að segja það að ég hannaði ekki þetta ágæta umslag Eydie Gorme. Þið sem viljið hins vegar skoða umslagahönnun mína getið t.d. skoðað umslögin sem ég hannaði á sínum tíma fyrir strákana í Pink Floyd, þ.e. Dark Side of the Moon og svo Wish You Were Here. Bernskubrek, en samt flott.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Aðeins rúllugjald - Borð ekki frátekin.

Guðmundur Andri Thorsson, sá skarpi penni og stílisti, átti góðar setningar í pistli sínum í Fbl. í gær, mánudag. Umfjöllunarefni hans var Edduverðlaunahátíðin.

„ ... Sylvía Nótt ullaði svo mikið að engu var líkara en að þetta væri dagur íslenskrar tungu ... “

„ Þegar maður sat heima í stofu og gjóaði auga á þessa árshátíð þeirra sem fást við lifandi myndir á Íslandi þá skynjaði maður óvenju sterkt að eitthvað er að. Því að það sem var svo átakanlega fjarverandi á þessari uppskeruhátíð var sjálf uppskeran. “


Guðmundur er síður en svo að dissa listafólkið, heldur að gagnrýna þá ömurlegu menningarstefnu eða öllu heldur skortinn á slíku sem birtist svo nöturlega í hátíð sem þessari þegar meiningin er að fagna. Enda er yfirskrift pistilsins „Vannýtt auðlind“ og er þá átt við leikara og kvikmyndagerðarmenn íslenska.

... ... ...

Var að skoða nokkra vefi íslenskra tónlistarmanna. Bubbi.is virðist vera aðdáendavefur en ekki opinber vefur kóngsins; ekki margt í boði. Þó óborganlegar myndir af auglýsingum frá tímum Utangarðsmanna á Borginni. Birti hér eina til hliðar. Hvað margt hefur breyst á stuttum tíma!

Hörður Torfa tónlistarmaður er með hreint ágætan vef þar sem hann bloggar svolítið, hægt er að lesa sér til um feril hans og síðast en ekki síst, hann býður upp á vefverslun þar sem hægt er að kaupa plöturnar hans. Vefurinn er einkar látlaus í allri umgjörð og þar með stílhreinn og notendavænn. Hordurtorfa.com

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Góður smekkur

Ég á fallega Apple tölvu sem ég er afskaplega ánægður með. Og ég deili henni með börnunum mínum. Það eru svo sem engir leikir í tölvunni, en þau tefla við hana eða sín á milli og fara svo inn á vef Námsgagnastofnunar og leika uppbyggjandi leiki þar. Allt voða settlegt. Svo var ég með gamlan Impulse! disk í tölvunni með gömlum progdjassi og börnin vekja tölvuna af værum blundi og Journey in Sachidananda Alice Coltrane fer af stað; duldið víraður djass. Ég kem inn á kontorinn minn og býst við að veita börnunum mínum áfallahjálp, en þá segir dóttirin: Pabbi, þetta er falleg tónlist, eigum við ekki að hafa þetta á þegar mamma kemur. Ég kemst við en, nei það væri að æra östöðuga. Ég er fyrir löngu búinn að átta mig á að frídjass, sírudjass og allt það þarf ég að fara með sem mannsmorð hér í húsinu. En, það er gott að vera kominn með tvo vitorðsmenn og samherja. Í djassinum.

... ... ...

Guðrún Helgadóttir hlaut verðlaun í tilefni Dags íslenskrar tungu og gleður það mig mjög. Fáir eiga það eins vel skilið og Guðrún. Guðrún er nefnilega okkar Astrid; það hafa svo margir bent á að Guðrún er málsvari barnanna eins og Astrid Lindgren. Og það er alveg rétt. Ég er nýbúinn að lesa Palla fyrir börnin mín og þótt þau séu allt of ung fyrir bókina þá les ég hversu næm Guðrún er á bernskuna og húmor hennar. Svo varð ég þess heiðurs aðnjótandi að taka þátt í frumuppfærslu Þjóðleikhússins á leikritunu Óvitum eftir Guðrúnu á sínum tima, en þá var ég tíu ára. Frábær reynsla sem ég þyrfti að blogga soldið um.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Icelandic Group

Dagur íslenskrar tungu er í dag, 16. nóvember, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Allir sem eiga íslenskuna að móðurmáli og líka þeir sem hafa lagt það á sig að læra málið eru hluthafar í íslenskunni og geta með mæli sínu aukið við félagið eða ekki.

Gengi íslenskunnar er nú svona og svona; ég er sérstakur svartsýnismaður þegar kemur að íslenskunni. En, miðað við önnur tungumál þá má kannski vel við una. Sniðug auglýsing frá Mjólkursamsölunni í Fréttablaðinu í dag þar sem lögð er áhersla á öll þau nýyrði sem smíðuð hafa verið um og yfir nýja tækni, nýja hugsun. Mun minna gert af þessu annarstaðar. Danska og sænska, til dæmis, og ítalska og franska eru tungur útbíaðar í enskuslettum.

En, ég hef miklu minni áhyggjur af einstaka slettum heldur en þeirri stórkostlegri mengun sem felst í ísl-enskunni svo kölluðu, það er að mælt og rituð íslenska sé hugsuð út frá enskum málhætti en orðin íslensk. Líka því sem nú veður uppi í tali og skrifum yngra sem eldra fólks, því að „vera að“ gera eitthvað. Dæmi: Ég er ekki að skilja þetta, í stað Ég skil þetta ekki o.s.frv. Ég hef bara hreinlega af því stórar áhyggjur að þetta verði málið þegar börnin mín eru orðin fullorðin því þetta er íslenskan í dag, málið innan Icelandic Group. Ég verð bara að segja það og er bara að hafa af þessu stórar áhyggjur.

Annað sem ég tek eftir er að dagblöðin virðast hafa slegið af gæðakröfum sínum um gott mál. Helst er þetta áberandi í Fréttablaðinu; varla líður sá dagur núna að einhver fyrirsögnin eða undirfyrirsögnin hafi ekki að geyma meinlega málvillu. Svo ég tali nú ekki um almenna textann í blaðinu öllu. Ég veit að blaðamenn hafa mikið að gera, en útgefendur og ritstjórar hljóta að gera þá lágmarkskröfu til blaðamanna sinna að þér séu sæmilega ritfærir á íslensku. Skilst að í Blaðinu í dag, því gagnmerka riti, sé nafn fyrirbærisins Silvíu Nætur eignafallsbeygt sem Silvíu Nóttar.

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að myndin sem skreytir pistil þennan er af erlendri tungu.

RÚV: Hvað er í gangi?

Ég var einn þeirra sem beið allt Kastljósið á enda mánudagskvöldið síðasta að heyra og sjá boðað viðtal við Jón Ólafsson. Flýtti mér að koma börnunum í háttinn og sveik þau um lestur. Viðtalið kom aldrei og borið við tæknilegum örðugleikum. - Yes, sure! hugsaði ég, held meira segja að ég hafi sagt það upphátt. Veit ekki hvað var að en trúlega eitthvað lögfræðilegs eðlis. Horfði svo á viðtalið í gærkvöld og nú aftur óklippt á vef RÚV.

Jón virkar frekar stressaður í viðtalinu og það hjálpar ekki manni sem telur sig þurfa að verja sig. Og af hverju þarf maðurinn að verja sig? Hefur hann gert fólki eitthvað, stolið eins Árni Johnsen, verið dæmdur fyrir meiðyrði eins og Davíð Oddson? Nei, en hann sætir víst enn skattrannsókn og það mál á eftir að gera upp. Af hverju þarf þá maðurinn að verja sig? Jú, maður að nafni Davíð Oddson og varðhundar hans óðu hér uppi í samfélaginu á annan áratug og gerðu ýmsa menn tortryggilega sem þeim ekki líkaði við. Þess vegna þarf Jón að verja sig. Og trúlega er nýja bókin um Jón Ólafsson öðrum þræði varnarrit hans. En, því miður bregður Jón fyrir sig þeirri vörn sem orðin er allt of algeng að dylgja um að maður hafi sagt honum að annar maður hafi sagt að hann hafi heyrt á tal manna eða að enn annar maður hafi sagt honum eitthvað. Davíð hefur notað þetta og er honum líkt, en þetta er Jóni ekki sæmandi.

Jón er umtalaður maður, en það hefur farið lítið fyrir honum sjálfum í fjölmiðlum og því þekkir maður hann ósköp lítið - svona eins og hægt er að „þekkja“ fólk af því einu að sjá það og heyra í fjölmiðlum. En, að því gefnu að Jón vilji bæta ímynd sína, þá myndi ég ráðleggja honum að gera sig sýnilegri í fjölmiðlum og veita fleiri viðtöl. Það ætti að gera hann öllu mannlegri.

... ... ...

Hvað er eiginlega í gangi á RÚV? Hvers vegna í ósköpunum þarf nýráðinn útvarpsstjóri að lesa okkur fréttirnar í Ríkissjónvarpinu upp á hvert kvöld? Ég hefði nú haldið að Páll Magnússon hefði nóg með að vinna sína 9-5 vinnu sem útvarpsstjóri, plús fundi og annað, og ætti ekki að þurfa að lesa kvöldfréttirnar og seinni fréttir kvöld eftir kvöld. Nú spyr ég: Er skorturinn á hæfum fréttalesurum hjá Ríkissjónvarpinu slíkur að útvarpsstjóri verði viku eftir viku að hlaupa undir bagga. Eða, treystir útvarpsstjóri engum betur en sjálfum sér til að lesa fréttirnar?

Nú segir ef til vill einhver: Hvað er að því að útvarpsstjóri lesi fréttir af og til, maðurinn er jú þrautreyndur og þekkt andlit? Því svara ég: Ég held að flestir hafi staðið í þeirri meiningu þegar Páll var ráðinn útvarpsstjóri að honum hafi verið ætlað að helga sig stefnumótun og daglegum rekstri stofnunarinnar, en ekki íhlaupavinnu við dagskárkynningar, fréttalestur og hvað annað hjá RÚV sem hann telur sig geta betur en þeir starfsmenn sem fyrir eru. Hvað næst? Páll í helgarútvarpið á Rás 2? Sendillinn ekki nógu góður, Palli út í sjoppu eftir súkkulaði.

Mér finnst þetta algerlega óviðeigandi og í raun hættulegt fordæmi. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins hélt ég að ætti að vera sjálfstæð gagnvart yfirvaldinu, það er að ritstjórnarlegt vald sé í höndum fréttastjórans Elínar Hirst. Ég get hins vegar vel ímyndað mér að nærvera útvarpsstjóra í fréttasettinun dag eftir dag geti haft bælandi áhrif á þá fréttamenn sem þar vinna og þeir fari svona óafvitandi að ritskoða sjálfa sig og sína vinnu útfrá þeirri stefnu sem þeir ímynda sér að Páll Magnússon standi fyrir. Þess vegan finnst mér presens Páls á frettastofunni vera fullkomlega óæskilegur og að hann eigi að láta fréttastofuna í friði.

... ... ...

Ég hef aldrei haft aðgang að Stöð 2 og hef ekkert sérstaklega saknað þess, enda erfitt að sakna einhvers sem maður ekki þekkir. Hef alltaf verið soldill ríkisperri í mér, RÚV-maður ... Hef nú samt svona verið að pæla í því að prófa Stöð 2, en nú eru helstu stjörnur þeirrar stöðvar komnar yfir á RÚV ... svo til hvers? Og ekki fer ég að elta Loga þangað yfir. Enginn saknar hans. Ekki eftir að Bogi fékk sér eins klippingu. Pælið í því: Bogi og Logi; er eitthvað bogið við Loga eða logar í Boga?

föstudagur, nóvember 11, 2005

Tarantino rokkar

Kom heim úr vinnu um kl. átta í kvöld og missti því af viðtali við Tarantino í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Vefurinn kom þá í góðar þarfir sem oft áður og gat ég horft á langt og nokkuð gott viðtal þeirra Þóru og Kristjáns við snillinginn. Það getur varla verið hægt að klúðra viðtali við manninn, eins lifandi og skemmtilegur hann er. Spyrlarnir voru dulítið í kappi um að koma sér og sínum spurningum að og Kristján svolítið frekari. En, ekki að næði að skemma.

Það væri náttúrlega að bera í bakkafullan lækinn að fara að tíunda hér hina miklu og mörgu kosti Tarantinos sem kvikmyndahöfundar. Segi bara hreint og klárt að mér finnst það vera mikill heiður fyrir okkur Íslendinga að fá hann hingað í heimsókn og ég varð bara hrærður að sjá hann í settinu í Kastljósi. Því forljóta setti.

Það er hreint með ólíkindum hvað Ísland virðist vera orðið áberandi á heimskortinu; svona eins og mynd þess sé nú upphleypt, neonlituð og á stærð við Ástralíu en samt á sínum ágæta stað mitt á milli Ameríku og Evrópu. Við varla kippum okkur upp við það lengur þegar á fjörur okkar reka stórstjörnur úr lista- eða poppheimunum að gefa okkur af list sinni, vinna hér eða bara heimsækja okkar ágæta land. Það er svo stutt síðan að þetta var bara ekki svona.

Bara ef einhver spyrði þá er mín eftirlætis Tarantino mynd JACKIE BROWN sem er frábær í sínum niðurtónaða stíl versus Pulp Fiction: Fimm stinnar og íðilgrænar gúrkur af fimm mögulegum.

Til að sjá viðtalið er hægt að smella HÉR.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

„Every line should enchant“

Á vef Gurdian er að finna lista yfir þær tíu bækur sem Hallgrímur Helgason metur mest. Í fimmta sæti er Lolita eftir Nabokov. Það sem Hallgrímur segir um bókina get ég svo vel tekið undir og þó sérstaklega það sem hann segir um stíl:

„I'm the kind of writer who thinks style is just as important as the story being told. I believe in Martin Amis's beautiful phrase that "every line should enchant". (Well... except that time has taught me that every sixteenth line is quite enough.) Nabokov can be almost too delicate at times, but in Lolita he puts his aristocratic sensitivity to use in such a dark tale that it creates this great tension between the story being told and the style that it's written in. And it's just amazing that one of the best novels in English was written by a Russian. Here every word is enchanting, like a beautiful butterfly fluttering at the scene of the most horrendous act.“

Nick níundi

Kominn er níundi nóv og sá dagur á sér nokkra sögu. Haustið 1989 fór ég ásamt hljómsveit og mörgu öðru góðu fólki til Sovét. Þá hét þetta allt saman Sovét sem nú heitir Rússland og ég veit ekki hvað. Nema hvað, við, hljómsveitirnar Otto og nashyrningarnir og EX, byrjuðum í Pétursborg sem þá hét að sjálfsögðu Leníngrad og ... Heyrðu, ég ætlaði að tala um níunda nóv!, það er daginn sem allt hrundi. Múrinn þar eð, og þetta var allt einhvern vegin eins og rökrétt afleiðing af heimsókn okkar þarna austuryfir. Verð að skrifa um seinna.

Hitt sem tengir mig við daginn er minn frægi bróðir í Amríku; Nick Lachey. Hann á afmæli þenna dag og man ég það alltaf vegna hins fyrrnefnda, þ.e. hruns Berlínarmúrsins. En, það er gaman að nefna frægt fólk. Og var ég búinn að nefna það að hans kona er Jessica Simpson, dóttir Hómers og Marge?

Nick er frábær strákur, við deildum herbergi þetta ár sem ég dvaldi með þeim í Cincinnati. Hetjan hans var og er víst enn Bruce Willis. Þeir hafa nú vísast hist. Ég var nú hins vegar hrifnari af henni Cybillu hinni kindarlegu. Við Nick hittumst svo aftur 1992 þegar ég sigldi vestur og heimsótti fólkið mitt á Bjarkarstíg í Cincy. Við fengum bíl lánaðan og keyrðum norður. Nick var ekki nema útskrifaður úr High School og ég er í raun ofurundrandi yfir því að honum hafi verið hleypt í svona ferð. Verið greinilega treyst með sínum íslenska og margreynda bróður. Við keyrðum norður, sem sé. Gistum á ekta mótelum. Lentum í Toronto, Montreal, sáum Niagarafossa, stoppuðum í New York; þaðan keyrt í einum rikk til Cincinnati undir tunglmyrkva. Maí 1992. Svo flaug ég aftur til Boston í mitt skip og aftur vikusigling heim.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Rokk í Reykjavík

Mig langar í bíó. Mig langar að sjá íslenska mynd. Myndin á að gerast í Reykjavík, nánar tiltekið í Ó Reykjavík, ó Reykjavík, borg íslenska pönkrokksins árið 1981.

DAGUR OG NÓTT - INNI OG ÚTI - REYKJAVÍK
Það er allt að gerast. Úr hverjum einasta bílskúr og skemmu glymur rokk og ekkert helvítis progrokk hvað þá dauðans diskó. Það er sungið, gargað, öskrað - á íslensku. Þetta er ungt fólk og engir meikdraumar. Bara að komast upp á næsta svið, spila eins og maður eigi lífið að leysa og helst brjóta gítarinn sem þú fékkst lánaðan hjá vini pabba þíns sem einu sinni leysti af á gítar á sunnudögum með Dúmnbó og Steina. Helvítis fífl.

Það er sumar í Reykjavík. Rokk í Reykjavík. Melarokk. Hann er á kínaskóm, í snjáðum svörtum leðurbuxum og í slitinni svartri prjónapeysu af pabba. Pabbi var einu sinni flottur.

Það er sumar í Reykjavík. Rokk í Reykjavík. Melarokk. Hún á skalaskóm íklædd ullarsokkum þar undir. Sokkabuxur og pils og síð peysa þar yfir. Hálsmál vítt og breytt: Þér verður kalt, Dilla mín. - Æi, mamma, hættu þessu!

Þau hittast á Melarokki og hviss, bang, þau eru par, eins og Sid og Nancy, Lennon og Yoko. Nei, þau eru bara venjulegt reykvískt par á svörtum skóm á rauðum malarvellinum. Slitin peysa, tjásað hár. Mamma og pabbi eiga nýjan Saab, gengu í Hagaskóla og svo gera þessi. En, það er eitthvað að gerast. Og sumir eru klikk. Reykur í lofti, lím í pokum: Allt fyrir farmiðann burt úr þessum heimi í smá stund. Svo fjarkinn heim áður en mamma verður óróleg. Hún hoppar þegar hún er æst. Ég meina það. Jonee, Jonee: Ég fæddist af því að pabbi vildi það.

Rokk í Reykjavík og allt að gerast. Borgin, Hafnarbíó, Stúdentakjallarinn. Bubbi, Þeyr, Vonbrigði. Yndisleg borg. Hauslausar hænur flögra út um glugga Nýló. Löggan leggur hald á svín. Friðrik þór að mynda Rokk í Reykjavík: Náðirðu þessu? Fínt. Á morgun verðum við í Hafnarbíói og þurfum aðra kameru.

Það er allt að gerast og þú ert að missa af þessu öllu. Hættu í skóla, hann tefur. Farðu að spila, það gefur. Þetta er allt hvort sem er að fara til andskotans ef það springur þá ekki á undan. Killer boogie.

Ást í Reykjavík, meskalilmur. Ég er hrifinn af þér. - Ég líka. Koss. Kemurðu með mér á æfingu má morgun, ég er byrjaður í hljómsveit? Einar Örn: Það er ekki málið hvað þú getur heldur hvað þú gerir.

HLÉ

mánudagur, nóvember 07, 2005

Bjartsýni / svartsýni

Ragga Gísla er nýr handhafi Bjartsýnisverðlauna ... uh, ekki Bröstes, heldur Alcoa eða Alcan eða hvað þessi álfyrirtæki heita. Ég hef alltaf verið frekar jákvæður (bjartsýnn) í garð þessara óræðu verðlauna og sérstaklega þegar það var Dani að nafni Bröste sem veitti þau. Á þeim mæta manni veit ég eiginlega ekki meiri deili á hvað þá heldur hvers vegna hann hóf að útdeila verðlaunum til bjartsýnna Frónverja. Upphefðin kemur oft erlendis frá og sú er sæt.

Óræð verðlaun segi ég, því auðvitað er bjartsýnin óræð og verðlaunin sem ætlað er að styrkja hana, okkur og þá sem þau hljóta. Það sem gerir þessi verðlaun einstök er að í þeim er falinn möguleikinn á að hylla og verðlauna fólk sem hefur kannski ekki ennþá unnið sigra en hefur kannski með staðfestu sinni, einurð og BJARTSÝNI heillað samborgara sína. Þess vegna finnst mér að þessi verðlaun ættu umfram önnur að vera tileinkuð þeim sem fara hljótt en sem vert er að minna á, vekja á athygli og styrkja. Ragga, minn gamli tónlistarkennari úr Vesturbæjarskólanum, er trúlega vel að þessum verðlaunum komin, en fellur kannski ekki alveg undir þessa skilgreininga mína. En, hei, þetta eru ekki mín verðlaun. En, flott samt sem áður.

Svartsýnin verður trúlega hvað myrkust og dýpst hjá þeim sem kljást við þunglyndi og enn alvarlegri geðsjúkdóma. Sem betur fer er umræðan um geðsjúkdóma komin á það plan að við erum farin að tala um þá, en svo virðist mér sem sumir geðrænir kvillar séu flottari en aðrir. Það þykir til að mynda ekkert tiltökumá lengur fyrir þunglynda að gangast við sínum sjúkdómi, en lengra í land trúi ég að eigi þeir sem glíma við enn alvarlegri vandamál eins og geðklofa.

Fáa menn met ég í stíl og efni sem Þráin Bertelsson, kvikmyndaátör og rithöfund. Hann glímir við þunglyndi og hefur lýst því í bók og pistlum. Nú síðast í Fréttablaðinu laugardaginn 5. nóv. Þráinn er maður sem mér finnst falla vel að verðlaunum kennd við bjartsýni.

E.s. Ég vil bara taka það fram að Ragga er vel að verðlaununum komin, en guð minn almáttugur hvað ég er feginn að t.d. Gísli Örn hafi ekki fengið þau. Sá er jú duglegur en þeim manni er nú búið að hossa nóg!

föstudagur, nóvember 04, 2005

Woody Allen

Mikið rosalega sá ég vonda mynd eftir gamla goðið mitt Woody Allen í imbanum mínum hér heima á sunnudagskvöldið síðastliðna. Sú upplifun varð mér efni til eftirfarandi íhugunar og þess að líta yfir feril karlsins og setja kannski upp lista yfir mínar eftirlætis Woody Allen myndir.

Þrátt fyrir að Woody karlinn eigi nú rétt tæpan mánuð í sjötugt hefur hann lengi þráast við að leika í myndunum sínum sem venjulega fjalla um miðaldra efri miðstéttunga í Nýju Jórvík sem eru í sambandi eða á leiðinni í eða úr einu slíku og svo framhjáhaldið og allt það. Hefur hann nú í síðustu myndum sínum loksins gefið þetta upp á bátinn og eftirlátið rulluna yngri mönnum. En, það eru ekki svo góðar fréttir því leikararnir sem hann velur til að túlka sína rödd eru sumir svo vondir að það er skelfilegt á að horfa. Ég nefnilega get ekki annað en séð fyrir mér Woody þegar sú týpan er að tala í myndunum hans og því verður þetta allt saman enn raunalegra þegar viðkomandi leikari er einhvern veginn að reyna að vera Woody en er það náttúrlega ekki og svo órafjarri.

Gamla manninum væri nær að skrifa myndir um gamalt fólk sem hann gæti svo sjálfur leikið í. Þannig er hann bestur. Woody Allen hefur aldrei og mun seint fá leikstjóraverðlaun, kannske vegna þess að það sem einkennir hans frábæru myndir er hnyttinn texti sem hann túlkar sjálfur. Honum hefur oft í sínum eldri myndum lánast að velja með sér frábæra leikara (Keaton, Wiest, Alda, Cane, o.fl.) og kannski er góður leikur þeirra þeim sjálfum mest að þakka. Svo hefur Allen valið með sér afleita leikara eins og í þessari mynd, Melinda, Melinda. Leikaravalið er svo vont að það er eins og maðurinn hafið bara kastað (skipað í hlutverkin) beint upp úr þáttunum The O.C. Nú má hún Júlíetta mín Taylor bara fjúka ef hún ræður einhverju hérna um.

Woody Allen hefur verið ótrúlega afkastamikill listamaður og því verður maður líða honum það að gera eina og eina arfavitlausa og vonda mynd. En, hann á fleiri góðar og svo frábærar myndir en nokkur annar kvikmyndagerðarmaður sem ég man eftir. Hann á nokkur capolavoro þegar flestir aðrir mega prísa sig sæla með að hafa hitt á eitt meistarastykki.

KVIKMYNDAGAGNRÝNI
Melinda and Melinda (sjá umfjöllun hér að ofan): Ein útúrsúrsuð gúrka af fimm alheilbrigðum grænum og ferskum gúrkum sem gefnar eru.

10 bestu Woody Allen myndirnar

1 Annie Hall (1977) - Besta mynd Allens og ein besta mynd kvikmyndasögunnar.
2 Manhattan (1979) - Alger snilld. Allen trúlega einn þeirra fyrstu sem tæklar það vandamál þegar kona manns fer frá honum og til ... annarar konu. Mjög góð mynd með frábærum leikurum. Tekin í svart hvítu og í breiðmynd.
3 Broadway Danny Rose (1984) - Hér finnst mér að Woody komist hvað næst pathosi Chaplins. Frábærlega ljúfsár mynd.
4 Crimes and Misdemeanors (1989) - Ein allra besta mynd Allens: Frábært handrit, frábærir leikarar.
5 Hannah and Her Sisters (1986) - Mikið fín mynd með miklu leikaravali.
6 Play It Again, Sam (1972) - Týpísk góð Allen mynd. Það merkilega við þessa mynd er þó að Allen leikstýrir henni ekki heldur Herbert nokkur Ross sem leikstýrði ekki ómerkari myndum en t.d Pennies from Heaven og Sólskinsdrengjunum.
7 The Purple Rose of Cairo (1985) - Fín mynd eftir Óskarsverðlaunuðu handriti Allens.
8 Zelig (1983) Sérkennileg mynd, góðar pælingar og vel útfærðar.
9 Sleeper (1973) - Hér er Allen á þögla tímabilinu sem hann varð jú að eiga eins og Sjapplín og Kíton.
10 Bananas (1971) - Woody í bananastuði.