þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Bolludagur, eða hvað?

Ég var flengdur í bak og fyrir í morgun; börnin mín, vopnuð ekta bolludagsvöndum úr Hagkaupum, ætluðu sko ekki að vera snuðuð um bollur dagsins. Engin miskun!

En, pistill dagsins er nú samt ekki innspíraður af rjóma og glassúr heldur sóttur tvö ár aftur í tímann og aðeins betur. Var að gramsa í tölvunni og þetta fann ég. Við erum stödd á Bjarnarstígnum í Reykjavík og það er ...

... ... ...

Þorláksmessa anno 2003

Þorláksmessa. Klukkan er farin að ganga tvö og forseti og biskup og Margrét og Jón á Hólum og Dúdda, Stanley og Harrý í Orrahólum, að ógleymdum landbúnaðarráðuneytinu og Kela á Hvoli, senda bændum og búaliði, elskulegum vinum og ættingjum um land allt hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þýðri rödd langþjálfaðra þula Ríkisútvarpsins.

Þorláksmessa. Ég sit við tölvuna að reyna bjarga því sem bjargað verður í mínum jólakveðjum. Frómar óskir um gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár til handa mínum kæru vinum. Sjáum hverju tölvupósturinn getur bjargað.

Þorláksmessa. „Umsóknin um helgi Þorláks var send páfa árið 1198. Svarið barst frá Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði í janúar árið 1984, 786 árum síðar. Og svarið var jákvætt: Þorlákur helgi var lýstur verndardýrlingur Íslands og jarteinin sem honum voru eignuð viðurkennd, að vandlega íhuguðu máli. En þá var lítið eftir af Þorláki annað en dánardægur hans - 23. desember - sem á Íslandi ber hans nafn og fyllist af skötuangan ár hvert, ásamt innkaupum til jólanna sem jaðra við kraftaverk.“ (Pétur Gunnarsson: Leiðin til Rómar).

Þorláksmessa. Hvað er ég að drolla við tölvuskrattann. Nóg er að gera á stóru heimili. Samt svo margt búið að gera. Réðumst í það nú á jólaföstunni að rífa allt út úr baðherberginu okkar litla allt að utanhúsklæðningunni og byggja okkur svo inn aftur. Flísar komnar á veggi og gólf en eftir að fúa, vaskurinn hálfur á, klósettið frammi á gangi og smiðurinn farinn heim í gubbupest.

Þorláksmessa. Börnin að springa úr spenningi. Hvenær koma þau þessi jól - og jólafríið maður? Foreldrarnir meira að hugsa um litinn á fúgunni en þolinmæðarlítil börnin. „Af hverju megum við ekki opna tvo glugga á dagatalinu í dag?“

Þorláksmessa. Bónaði gólf í nótt. Þá gafst loks færi fyrir henni Hildi minni sem þar áður hafði farið hamförum um heimilið í þrifum eftir flísalögnina; steinsag út um og yfir öllu. Ég get svo svarið fyrir það að hún fór á handahlaupum og flikk flakk, sveiflaði sér á milli ljósakróna, smaug undir sófa og inn og út úr myrkum hornum, hljóp um veggi og loft eins og Fred Astaire í Top hat.

Þorláksmessa. Það eru að koma jól og heimsumból. Þá er Kristsmessa um öll heimsins ból.

laugardagur, febrúar 25, 2006

Dreki yfir Langasandi

Þetta var sumarið sem leið. Ragna og Jón voru í heimsókn og við brugðum okkur með börnin niður á sand. Þrátt fyrir að það væri skýjað og nokkuð vindsamt. En, það viðraði vel fyrir drekaflug. Jón er hámenntaður drekaflugmaður og sá því um að stýra fluginu. Listflugi. Börnin óðu í sjóinn og það var kalt. Ég mundaði vélina.

> Horfðu á stuttmyndina Flugdreka í Gúrkuvarpinu.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Gamalt skip

Úti fyrir slippnum á Akranesi, á klöpp langt uppi á landi stendur gamalt tréskip. Fiskur á þurru landi. Viðarborðin í búknum orðin feyskin og grá, málningin víðast flögnuð af, en frá nöglum renna taumar riðs. Rauðryðið er nú liturinn á þessu aldna haffari. „Alveg brilljant!“

Þarna bíður það og klýfur austanáttina í stað aldnanna sem áður kitluðu kinnunga þess. Bíður þess að skipslæknar slippsins sinni því eða Skagastrákar kveiki í því. Illa er farið með aldraða. Þótt fjarað hafi undan fleyi þessu verður það ekki sagt um reisn þess: Enn er það tilkomumikið í sjón sem setur svip á nesið. Stolt siglir fleyið um öldur aldanna.

> Horfðu á kviku myndina Gamalt skip í GÚRKUVARPINU.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Evrópælingar

Hugsanir manns eru mismerkilegar. Viðföng vitundarinnar kúra oft lágt en krefjast þess samt að leggjast undir pálinn. Þetta á að vera háleitur inngangur að rislitlu efni: Nefnilega forkeppni Ríkissjónvarpsins fyrir Evróvisjón. Þetta er víst til, er í kringum mann og maður má til með að pæla og kommentera.

Söngvakeppnin er fyrir löngu orðin að kimafyrirbæri (e. cult) innan Evrópu sem fáir taka alvarlega nema nokkrar háhýrar karlnefnur og kannski Gísli Marteinn og Jónatan Garðarsson. En, við tökum þátt og þá finnst mér að við eigum að gera það af einlægni. Ekki með þessu vanþroskaða viðmóti þess sem hálf skammast sín fyrir þátttökuna og slær þess vegna öllu upp í grín og getur þá alltaf sagt: „Æ, ég var bara að djóka“.

Mér finnst sem sagt að við eigum að senda eitt af okkar góðu íslensku dægurlögum sem við eigum nóg af í stað þessara sérhönnuðu og sterílu laga sem eiga að passa við Evróvisjón mátið. Við eigum semsagt, ef við tökum þátt á annað borð, að vera einlæg, við sjálf og vera óhrædd við að syngja fyrir Evrólýð venjulegt íslenskt lag á íslensku. Og tapa með reisn og góðri samvisku.

„Venjulegt íslenskt lag“ er í mínum huga all teygjanlegt hugtak, en þó ekki lag af því taki sem leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir flytur í gerfi Silvíu Nætur. Það lag er hannað til þess að hæðast að keppni sem á það svo sannarlega skilið. En, það er samt eitthvað svo halló að hæðast að hinu augljósa og taka aukin heldur þátt í hallærinu í stað þess að reyna að rétta af „hallan“ með því að senda inn dægurlagsmíð sem endurspeglar að einhverju leyti íslenska dægurtónlist.

Þegar þetta er skrifað hefur úrsitakeppnin ekki farið fram, en frá því ég heyrði og aðallega sá lagið með Silvíu Nótt þá vissi ég að hinir keppendurnir eiga ekki séns. Því Silvía býður upp á sjó í keppni sem hefur þróast meira yfir í það að vera keppni í show-low en lögum. Verður okkur ómótt í nótt, Silvía? Þegar Evróvisjón er annars vegar verður lýðræðið að lúðræði.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Af ástarlífi Sykurmola

Hlustaði á Andreu Jónsdóttur útvarpskonu og poppfræðing á Rás 2 um daginn og nefndi hún þá tónlistarvefinn Allmusic.com. Mig hefur lengi vantað svona uppflettivef fyrir tónlist eins og ég nota IMDB.com fyrir kvikmyndir. Svo ég smellti mér á vefinn.

Nema hvað, svona til að kanna áreiðanleika vefjarins fletti ég upp Sykurmolunum. Það sem ég las fyrst virtist nærri lagi, en þegar kom að ástarlífi Molanna - sem var að vísu frekar flókið - þá birtist mér eitthvað alveg nýtt og djúsí:

„ In late 1987, the band signed to One Little Indian in the U.K., Elektra Records in the U.S. The Sugarcubes released their debut album, Life's Too Good, in 1988 to critical acclaim in both the U.K. and the U.S. "Birthday," the first single from the album, became an indie hit in Britain and a college radio hit in America. In particular, Björk received a heap of praise, which began tensions between her and Benediktsson. By the time the group recorded its second album, Thor had divorced Björk and married Magga Ornolfsdottir, who became the group's keyboardist after Einar Mellax left. Furthermore, Olafesson divorced his wife -- who happened to be the twin sister of Baldursson's wife -- and married Benediktsson, making their union the first openly gay marriage in pop music. “

Vissuð þið af þessu?

Morðin í Munkaborg

Bíóin hér á Íslandi hafa tekið til sýninga nýja mynd erftir Stefán Spielberg. Myndin heitir í höfuðið á þýsku borginni München í Bæjaralandi hvar palestínskir ribbaldar rændu og myrtu íþróttamenn úr liði Ísraels á Ólympíuleikum þar árið 1972.

Myndin heitir semsagt Munich upp á ensku, en hér á Íslandi er venjan að nota þýska heitið en stundum vísað í snörun Fjölnismanna á borgarnafninu yfir á okkar ylhýra; nefnilega Munkaborg. Það er því alveg hrikalega asnalegt að heyra kynningar á myndinni í fjölmiðlum sem „Munich - nýjasta myndin eftir Steven Spielberg“.

En, þetta er ekkkert nýtt og alveg í stíl við alla hina vitleysuna. Eins og t.d. nýju amerísku myndina um japönsku geisuna sem kínversk leikkona leikur. Myndin heitir upp á ensku Memoirs of a Geisha og ætti því - það segir sig einhern veginn sjálft - að útleggjast Minningar geisju. En, nei, upp á ensku skulu allar myndir heita og jafnvel líka þær sem gerðar eru á öðrum tungumálum, sbr. t.d. myndin um hinn unga Che Guevara, The Motorcycle Diaries (Diarios de motocicleta).

Árið 1999 var ég við nám í Róm og skrifaði þá eftirfarandi grein sem birtist í Mogganum og fékk víst nokkra umfjöllun í dægurmálaútvarpi Rásar 2. En, hún breytti svosem engu, því miður.

Íslenskan og kvikmyndirnar (anno 1999)

- íslenskt heiti erlendra kvikmynda á hverfanda hveli

Sem ég sit í rólegheitum með helgarmoggann í kjöltu minni og búinn að lesa mig aftur að bíóauglýsingunum, liggur við stórslysi er ég rek augun í auglýsingu Regnbogans á margverðlaunaðri kvikmynd Robertos Benigni, „La vita é bella“. Myndin, sem á íslensku gæti sem best kallast „Lífið er dásamlegt“, er þar auglýst sem „Life is Beautiful“. Er mönnum ekki sjálfrátt! Hvað í ósköpunum kemur ensk þýðing á nafni ítalskrar myndar íslenskum áhorfendum við?

Því er nú ver og miður að ekki kemur þetta þó svo mjög á óvart. Efnislega varð grein þessi til fyrir þremur sumrum þegar undirrituðum þótti eiginlega nóg um þá holskeflu kvikra ómynda sem flæddi inn í kvikmyndahúsin, en þó öllu verra að æ sjaldnar var haft fyrir að íslenska enskan titil þeirra. Í lok þessa sama sumars var greinilega fleirum ofboðið. Íslensk málnefnd ályktaði um málið og gerði opinbera hér á síðum Morgunblaðsins. Í ályktun hennar segir m.a.: Hví skyldi látið af þeirri venju sem svo sjálfsögð er og vel hefur gefist að íslenska heiti kvikmynda? „Goldrush“ Chaplins höfum við hingað til kallað „Gullæðið“, „Gone With the Wind“ „Á hverfanda hveli“ og „The Terminator“ „Tortímandann“. Síðan hefur ekkert heyrst meira um mál þetta frá þeirri ágætu nefnd, enda í mörg horn að líta.

Flottara á ensku, eða hvað?
Þetta var sumarið 1996. Nú er svo komið að algengast er að geta eingöngu um upprunalegt heiti (oftast enskt) erlendra kvikmynda í auglýsingum og umfjöllun þar um. Á þetta við um kvikmyndir sýndar í kvikmyndahúsum eða leigðar út á myndböndum. Það virðist ekki lengur nógu gott að nefna eða auglýsa myndir með íslensku heiti og láta hið upprunalega fylgja með, kvikmyndaáhugamönnum til glöggvunar. Nei, nú þykir fínna að flíka enskunni og með tilheyrandi ýktum framburði þegar færi gefst (Títanic kölluðu flestir skipið ósökkvandi, en nú dugar ekkert minna en Tætenic!!). Enskunni segi ég, því hingað til hafa auglýsendur oftar en ekki borið gæfu til að snara öðrum erlendum titlum yfir á íslensku og kemur kannski ekki til af góðu. Við erum nefnilega orðin svo sleip í enskunni að við þurfum ekki lengur að hafa fyrir því að þýða það sem lítið er, eins og heiti bíómynda, en erum ekki alveg eins örugg með okkur þegar kemur að þeim frönsku, sænsku, dönsku, spænsku eða ítölsku.

Ekki er nema gott eitt um það að segja að við Íslendingar séum orðnir vel heima í enskri tungu, en almenn enskukunnátta þjóðarinnar gefur þó enga ástæðu til þess að hætta að íslenska heiti bíómynda. Hjá öðrum Evrópuþjóðum tíðkast enn (eins og hér á landi lengst af) að snúa heiti bíómynda á viðkomandi tungumál og sama á raunar við um erlendan texta yfirleitt. Og eins og ekki sé nóg að gert, þá finnst flestum þessara þjóða ekkert eðlilegra en að hlýða einnig á talmál hinna erlendu mynda á eigin tungu, en svo langt ætla ég okkur nú ekki að ganga.

Sú venja að láta okkur nægja að texta erlendar myndir á íslensku hefur reynst vel og nægir að nefna hvað við getum lært af því að heyra hið erlenda mál en hafa þýðinguna með - svo framarlega sem við nennum að lesa og hlusta samtímis. Þar fyrir utan finnst okkur eðlilegast að heyra leikarana sjálfa tala sína eigin tungu, svo ekki sé minnst á að taltúlkun leikarans er auðvitað gildur listræn þáttur í hverri kvikmynd. Af framansögðu má sjá að það er langt í frá sérviska okkar Íslendinga að vilja þýða erlend kvikmyndaheiti á eigið tungumál. Það gera aðrar þjóðir og stærri og ganga jafnvel svo langt að setja lög um hvaða orð megi nota og hver ekki þegar okkur hefur dugað smekkvísin og málkenndin. Þegar við tölum um erlendar kvikmyndir eigum við að gera það á íslensku. Við eigum að halda okkur við eitt mál í einu og vanda okkur við það.

Hefðin kallar á íslensk heiti
Þegar litið er yfir íslensku bíóauglýsingarnar þessa dagana má sjá að einstaka myndir eru auglýstar með íslensku heiti þeirra smáletruðu. Þetta ber auðvitað að þakka en virðist gert svona meira til málamynda. Bókarheiti, heiti kvikmyndar, tónverks og hugverka almennt, gefur venjulega vísbendinu um innihald þess. Þannig er galdur tungumála að aldrei er hægt að þýða nákvæmlega allt frá einni tungu yfir á aðra. En innihaldinu, meiningunni, er alltaf hægt að koma til skila ef menn vilja svo við hafa.

Ætli fleiri hafi ekki gluggað í „Hús andanna" en „La casa de los espiritos“ eða lesið um „Hverjum klukkan glymur“ en „For Whom the Bell Tolls,“ kannist fremur við að hafa horft á „Í góðri trú“ í Ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum árum en „Den goda viljan“ (hvað þá „Good Intentions“ eins og ég heyrði þættina nefnda á annarri stöð), eða finnist „Óðurinn til gleðinnar“ hljóma betur en „An die Freude.“ Svo ég haldi mig við kvikmyndirnar þá tel ég að þýðendum hafi oftar en ekki tekist vel upp við að finna erlendum kvikmyndaheitum íslenskan búning (undantekningar eru „Ástfanginn Shakespeare“ og álíka). Góður titill er lýsandi fyrir efni myndar eða vekur í það minnsta athygli á henni, því ætti að vera sjálfsagt og áreiðanlega áhrifaríkast að hafa titilinn íslenskan.

Íslenskur texti og titill
Nú mætti ætla að kvikmyndahús hefðu tekið upp þá stefnu að láta myndirnar halda upprunalegum heitum sínum. En svo er ekki. Ríkjandi stefna virðist vera sú að allar erlendar myndir beri ensk heiti. Báðar stefnurnar tel ég rangar, þótt önnur sé sínu vitlausari en hin. Forráðamenn íslenskra kvikmyndahúsa ættu að hafa eftirfarandi í huga: Þær erlendu kvikmyndir sem auglýsa skal hér á landi eru væntanlega ætlaðar íslenskum almenningi og því er við hæfi að sýna honum þá virðingu og smekkvísi að hafa heiti myndanna á íslensku. Annað er metnaðarleysi. Mér er í fersku minni Stjörnustríðsævintýrið og hetjur þess: Logi geimgengill, Lilja prinsessa, Hans - Óli og fólið Svarthöfði. Nú er von á fleiri köflum úr þessum kvikmyndabálki Lúkasar í bíó bæjarins. Hvernig ætli nýjir og gamlir geimvinir verði kynntir nýrri kynslóð? Íslenskan er auðugt mál, verum ófeimin við að nota hana!

Skrifað í Róm en birt í Morgunblaðinu 7. maí 1999.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Vindmillur

Ég er stundum eins og Kíkóti að berjast við vindmillur, nema hvað í mínu tilfelli eru vindmillurnar raunverulegir risar (það fannst Don-inum reyndar líka). Risarnir mínir eru símafélög. Annað segir mig skulda því, hjá hinu á ég inni peninga.

Það er erfitt að eiga við risa, sérstaklega ef hann heitir Síminn og segir mig skulda honum pening þótt ég hafi síðustu tvö árin átt öll mín símaviðskipti við Og Vodafone. Hins vegar á ég inni peninga hjá Og Vodafone, eða öllu heldur Dagbrún sem á líka 365 prentmiðla og því Dagblaðið sem ég hef skrifað nokkra pistla fyrir. Nokkuð er um liðið síðan ég sendi inn reikning og mig farið að lengja eftir greiðslu. Hringdi því í 365 og bað um bókhaldið. Símamærin hefur augljóslega ratað á réttan staf í símaskránni sinni því ég fékk samband við Birtu - blaðið altso. Þar sagði mér ein hjálpleg kona að reynandi væri að hafa samband við Og Vodafone því fréttst hefði að þar á bæ væri haldið utan um reikninga þeirra félaga sem til fyrirtækisins heyra.

Jú, ég hringdi og þar gat önnur hjálpleg stúlka upplýst mig (hún sagðist vera nýbyrjuð og það e.t.v. skýringin á hjálpseminni) eftir stundarráðfæringar að erindi mitt ætti ég að reka við hana Láru gjaldkera á 365 ljósvakamiðlum(!). Nema hvað, Lára svaraði og var hin liðlegasta. Og auðvitað kom það í ljós að eitthvert klikk var á bókfærslunni þannig að eldri reikningur frá mér var bókaður sem ofgreiddur þannig að þessi var settur upp í meinta „skuld“ mína. Lára mín sagðist ætla að laga þetta og leggja inn á mig. Laggó.

(Það er svona pínu tilgerðarlegt svindl að vera vitna í bókmenntir sem maður hefur ekki einu sinni lesið, eins og ég geri hér að ofan, en það hefur lengi verið á dagskránni að lesa um ævintýri riddarans sjónumhrygga. Sem barn eða unglingur fylgdist ég með vönduðum framhaldsteiknimyndaflokki um Kíkóta sem gaf manni ákveðna tilfinningu fyrir sögunni. Hlakka mjög til að lesa þýðingu Guðbergs á Cervantes).

föstudagur, febrúar 03, 2006

Nýr ritstjóri Fréttablaðsins

Ég er áhugamaður um fjölmiðla. Ég les blöðin þegar ég get; stundum rétt einstaka fyrirsögn og útdrátt, stundum hvern einasta dálksentimetra. Ég les fréttir og umfjallanir vegna efnis þeirra, en pæli líka í því hvernig frá er sagt, í stíl og svo náttúrlega í því sem ósagt er látið og hugsanlegum ástæðum fyrir því. Fjölmiðlar eru máttugir í samfélaginu og þann mátt skyldi ekki vanmeta.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra úr liði sjálfstæðismanna, hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins, útbreiddasta dagblaðs á Íslandi. Mér líst illa á þessa ráðningu og ætla að reifa hér nokkrar ástæður fyrir því.

Fyrir það fyrsta þá er Þorsteinn fulltrúi kerfisins: Nú síðast sendiherra, þar á undan ráðherra og enn fyrr forsvarsmaður Vinnuveitendasambandsins. Er þetta kvalítetið sem dagblað á borð við Fréttablaðið leitar eftir í ritstjóra? Ég hefði haldið ekki. Ég hefði haldið að Fréttablaðið vildi frekar ferskari, róttækari og kannski yngri ritsjóra við hlið hins RÚV-uppalda og hálfsjötuga Kára Jónassonar, en ekki mann sem í áratugi hefur verið fulltrúi ákveðinna afla í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi á Fréttablaðið að vera í stjórnarandstöðu. Alltaf. Það er feykinóg að hafa hér eitt feitt blað sem er í besta falli gagnrýninn vinur Sjálfstæðisflokksins en í versta falli málpípa hans. En, það hefur verið augljóst markmið Fréttablaðsins um nokkurt skeið að keppa við Morgunblaðið í þykkt, efni og raunverulegum lestri og það virðist ætla að leiða til þess að stjórnendur blaðsins telji að það þurfi að láta af skoðunum og gagnrýni á valdhafa.

Í þriðja lagi: Hvernig verður ráðning Þorsteins túlkuð? Eflaust á ýmsa vegu, en eitt þykir mér liggja í augum uppi: Þorsteini er ætlað að auka nokkrum tonnum við vigt Fréttablaðsins, gera ballest þess stöðugri á siglingunni fram úr Morgunblaðinu. Nú á að friðmælast við Flokkinn, LÍÚ, VSÍ og öll þau hin hagsmunasamtök beturmegandi Íslendinga. Nú skal enga styggja en upp það tyggja sem betur hjómar. Og hvernig ber manni svo að túlka þessar ráðningar á kerfisköllum til fyrirtækja Baugsins: Ari Edwald, Þorsteinn Pálsson og þar áður Hreinn Loftsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson?

Í fjórða lagi er eitthvað skrýtið hvernig ráðning Þorsteins ber að. Kári Jónasson segist ekkert hafa vitað um málið og satt best að segja lítur hans staða innan blaðsins ekkert vel út. Hver verður t.d. verkaskiptingin?

Í fimmta lagi: Þorsteinn hefur vissulega reynslu af ritstjórn fjölmiðla, en hann var samt „óskýr minning í blaðamennsku þegar ég hóf störf fyrir aldarfjórðungi“, skrifar Egill Helgason blaðamaður.

Í sjötta lagi: Maður veit svo sem ekki við hverju má búast af Þorsteini. En, eitt er víst og það er að nú getur Fréttablaðið lagt 110% faglegt mat á dómsmál eins og Baugsmálið hafandi ritstjóra sem er löglærður fyrrverandi dómsmálaráðherra og í kaupbæti fyrrverandi forsætisráðherra og forsvarsmaður félags atvinnurekenda eins og Baugs. Maðurinn hefur tveggja heima sýn og ætti því að geta stýrt fullkomlega hlutlægri og málefnalegri umfjöllun um þetta flókna mál.

Þetta er mín skoðun og getur svo sannarlega verið kolvitlaus. En, sem áhugamanni um fjölmiðla í þessu landi, jöfnuð og réttar upplýsingar get ég ekki annað en haft áhyggjur af því að sterkasta blaði landsins muni fara aftur. En, blöð eru sjaldnast skrifuð af ritstjórum og í hópi blaðamanna Fréttablaðsins er margt ungt og dugandi fólk, þar á meðal færar stelpur.

MYNDSKÝRING Meðfylgjandi mynd er úr árumyndasafni Bubba Morthens. Eins og sjá má er ára Þorsteins tvískipt: Þorteinn er bleikur eins og Bónusgrísinn sem er hryggjarstykkið í Baugsveldinu, eiganda Dagsbrúnar sem er eigandi 365 miðla, eiganda Fréttablaðsins. Og Þorsteinn er blár eins og Sjálfstæðisflokkurinn, já, og líka eins og Fréttablaðið.