þriðjudagur, apríl 25, 2006

Sjoppur - sætar minningar

Ég fór allt í einu að hugsa um sjoppur. Merkilegir staðir sjoppur. Sjoppulegir staðir sjoppur. Sætir staðir sjoppur. Allt morandi í sælgæti og fátt annað. Brjóstsykur, súkkulaði, lakkrís, gos og ís, sómahamborgarar, pylsur og samlokur, kók í dósum, gleri og plasti, stór, lítil, risastór, súper, kókosbollur, lindubuff og staurar ...

Sjoppan er sennilega sterk í minningunni hjá öllum Íslendingum. Öllum. Barn kemur inn í sjoppu og dýrðin blasir við því: Líkaminn og löngunin öskra á nammi, nammi, nammi! En, það er hár varnarmúr sem skilur barnið frá sælu góðgætisins. Gamall karl, kona eða unglingsstelpa hinum megin afgreiðsluborðsins. Handhafar og útdeilendur gæðanna. „Hvað ertu með mikinn pening væni?“

Það hefur ekki vantað sjoppur á Íslandi. Ekkert bæjarfélag er svo aumt að þar sé ekki sjoppa. Ef það er engin sjoppa flýttu þér þá í burtu. Engin sjoppa, engin menning. Engin sjoppumenning. Einu sinni hétu allar sjoppur eitthvað, það er í stærri bæjunum þar sem fólk er vel sjoppað. Og virðulegri sjoppurnar höfðu orðið „söluturn“ að e.k. fornafni, hétu þá t.d. Söluturninn Tvisturinn. Nú heita sjoppurnar bara Bónus vídeó.

Einu sinni vann ég í sjoppu. Það var leikhússjoppa - ekki í turni heldur bragga. Revíuleikhúsið sýndi farsann um Karlinn í kassanum í Hafnarbíói, hermannabragganum gamla sem stóð neðst við Barónstíginn og Reykvíkingar muna e.t.v. eftir úr Rokki í Reykjavík. Nema hvað, þarna var okkur Frissa, syni Sögu Jóns, falið að selja úr leikhússjoppunni fyrir sýningu og í hlénu að sjálfsögðu. Það var keypt Nizza, Pipp, lakkrís og leihúskonfekt, Ópal og svo auðvitað lítil og ísköld kók með röri fyrir varalituðu dömurnar. Pössuðum alltaf upp á það að kókið væri vel kælt og rörin rauð. Og við pössuðum líka upp á það að smakka vel á því sem við vorum að selja því það er eitt af lykilatriðum í sölumennsku að vita hvað maður er að selja. Þegar maður er ekki nema 13 ára er svo margt sem maður hefur ekki smakkað.

... karamellur, kúlur og möndlur, popp, kartöflupinnar og saltstangir, ópal, tópaz og nóa, appelsín, malt, pilsner og póló, appolo, sambó og krumma, sígarettur, vindlar og píputóbak, dagblaðið og vísir, sannar sögur og tígulgosinn.

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Páskaspjall

Nú ríkja dagar hinna löngu skugga. Tilveran er þýskur expressjónismi. Vor og haust eru mínar eftirlætis árstíðir. Sólin er þá örlát á geisla sína, en geislarnir fara lágt og efna til skuggasýninga inni sem úti.

Annnars hafa orðið hálfgerð pólskipti hér á landi síðustu misseri. Lítið er orðið vetrarlegt við veturinn, nei; fyrir mér nær haustið fram í desember og ef veturinn nær einhverjum tökum á láglendinu þá er það í mesta lagi í örfáar vikur. Svo er komið vor. En, sumrin? Ég veit ekki með sumrin. Eru þau betri eða verri en þau voru. Heitari eða kaldari og þá miðað við hvað?

Páskar. Á Spáni og Ítalíu og eflaust víðar er dymbilvikan kölluð helgivika, semana santa / settimana santa. Einhver mesti ferðatími ársins í Róm er um páskana. Helst eru það ítalskir ferðamenn sem streyma til höfuðborgar sinnar. Þá verður stappað í borginni. Svo allt rólegt aftur, þangað til sumarvertíðin hefst.

Hjá sannkristnu fólki eru páskar helgasta hátíð ársins. Þá er þess jú minnst að Kristur var krossfestur og að hann hafi síðan risið upp frá dauðum. Allt samkvæmt guðlegu plani. Hér á Íslandi tengjum við páska aðallega við súkkulaði. Þannig er það í minni minningu allavega. Mína eftirminnilegustu páska átti ég hins vegar í Malaga á Spáni og í Róm á Ítalíu sem áhorfandi helgihalds kaþólskra. Vorið 1994 bjuggum við Hildur í Andalúsíu. Helgivikuna vorum við í borginni okkar Malaga, en heimsóttum svo vinkonu okkar í Sevillu um helgina. Í báðum borgunum varð ég gagntekinn af helgisiðum innbyggjara; allri þeirri sjón- og tónrænu veislu sem boðið var uppá á götum úti. Blogga um það seinna. En, núna aðeins um ...

Róm, föstudagurinn langi 1999. Jóhannes Páll páfi leiðir táknræna passígöngu sem hefst innan í Kólosseum og endar uppi við kór Venusarhofsins þar fyrir ofan; byrjar sem sagt í fornu sláturhúsi kristinna manna sem nú hefur status helgrar kirkju og endar í heiðnu hofi. Þetta var afar hátíðleg athöfn tóna og texta í ljóma kyndla jafnt sem rafljósa, en það sem þó var áhrifaríkast var hægur gangur páfa og þögnin sem ríkti meðal mannfjöldans sem þátt tók í athöfninni í þessu magnaða umhverfi.

Langi frjádagur er ekki frídagur hjá Ítölum, en það er páskadagur hins vegar og annar í páskum. Natale con toi, pasqua con chi che voi! – segja Ítalir: jólin með þínum, páskana með þeim sem þú kýst. Einnig segja þeir: Jólin inni, páskana úti - enda komið vor. Á páskum gæða Ítalir sér á súkkulaðieggjum eins og Íslendingar þekkja.

Eitthvað það rómantískasta sem ég hef gert - og þótt ég segi sjálfur frá - er þegar ég fann súkkulaðibúð eina í Róm og fékk starfsfólk þess til að útbúa fyrir mig allsérstakt páskaegg að gefa Hildi minni. Súkkulaðibúð þessi er af gamla skólanum þar sem m.a. er hægt að velja sér páskaegg af öllum stærðum og gerðum, ráða innpökkun og því sem fer inn í eggið. Efnahagurinn leyfði ekki demantshring og stærð eggsins rúmaði ekki sportbíl, svo ég keypti lítið ilmvatnsglas og skrifaði eitthvað fallegt á kort og fékk starfsfólk súkkulaðibúllunnar til að setja þetta inn í sérvalið egg og loka. Og þetta hitti í mark, nema hvað!

mánudagur, apríl 03, 2006

Akrafjall

Gekk á Akrafjall laugardaginn 1. apríl í góðum félagskap vinar míns Jóns Knúts. Jón er göngugarpurinn í teyminu; hann drífur mig með sér að ganga á fjöll, ég fæ hann hins vegar með mér í hlaup. Þá er venjulega hlaupið frá Vesturbæjarlauginni góðu og gjarnan út í Nauthólsvík og kannski austur fyrir Öskjuhlíð.

Nema hvað, það var skjannasól og nokkuð vindsamt, Mýrarnar í ljósum logum norðan megin en lítill neisti suður á Kjalarnesi að myndast við að verða að miklu báli. Skraufþurrt landið freistar brennuvarga.

Akrafjall er magnað fjall og það verð ég að játa að ekki þekkti ég hið sanna andlit þess áður en ég flutti hingað upp á Skaga. Fjallið sýnir nefnilega ekki Reykvíkingum sitt rétta andlit. Og áður en ég flutti hingað var Akrafjall bara svona meira fjólublár draumur í fallegu lagi um Esjuna. Man ekki einu sinni eftir að hafa veitt fjallinu eftirtekt þau skiptin sem ég keyrði út um skut Akraborgarinnar og brunaði inn og strax út úr bænum á leið eitthvert norðar og vestar.

Fjallið er svipmikið þar sem það lúrir hérna á nesinu milli Hvalfjarðar sunnanmegin og Leirárvogs norðantil; eiginlega tvö fjöll sem taka höndum saman með Berjadal á milli sín. Við gengum á Suðurfjallið og upp á svipmikinn tind þess sem heitir Háihnjúkur sem er þó sá lægri tvegga tinda, þetta 555 metrar. Hæst rís fjallið því á Geirmundartindi norðanmegin í 643 metrum.

Útsýnið var blátt og áfram og sem ég stóð þarna uppi á Háahnjúk með Norðfjarðar-Knúti, tveimur hröfnum og helvítinu honum Kára þá sýndist mér ekki betur en það væri eitthvað bogið við sjóndeildarhringinn.

Svo töltum við niður og það þýðir ekkert að hringja í mig því fjallið hirti símann. Nú er ég bara í sambandi við náttúruna.

> Hér má lesa um Akrafjall á fróðlegum vef Akraneskaupstaðar. Myndin er af Háahnjúki.