miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Langisandur

Æru-Árni

Árni Johnsen, dæmdur þjófur, lygari, mútuþegi og umboðssvikari, er sagður róa að því árum öllum að hann nái ærunni sinni til baka svo Sunnlendingar og Eyjamenn geti kosið hann aftur á þing. Hann þarf semsagt að fá æru sína formlega uppreista til að svo geti orðið og það vald hefur víst forseti vor. En, hvernig má það vera að það sem horfið er og existerar ekki lengur verði allt í einu endurreist?

Í mínum huga og sennilega fleiri er Árni Johnsen í besta falli sauður sem sumir hafa gaman að hlægja að, en í versta falli þjófur, lygari og ofurþröngsýnn mannhatari sem mun halda áfram að stela, ljúga og hata. Í mínum huga og sennilega fleiri er æran Árna fyrir löngu horfin veg allrar veraldar og því ekki hægt að finna, hvað þá endurreisa, það sem ekki er lengur til. Því eru meiri líkur til þess að Hvíti-Kristur snúi aftur en að Æru-Árni fái sína til baka úr þvottinum. Árni ærir hvern mann ærlegan, æ, æ, æ.

Og finnist einhverjum ég vera vondur við Æru-Árna þá bið ég þann hinn sama að íhuga það af hverju í andskotanum veita eigi þjófi og lygara fyrirgefningu, manni sem ekki í eitt skipti hefur sýnt eina iðrunarögn og ekki einu sinni látið svo lítið að gera sér hana upp.

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstýr deyr aldregi ... altso, hveim er sér góðan getur.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

YouTube.com

Alltaf er ég að átta mig betur og betur á því hversu óendanlega ótrúlegt fyrirbæri netið er. Veraldarvefurinn. Ég er nýbúinn að uppgötva stærsta vefvarpið á netinu sem heitir YouTube.com. Þar er sko hægt að spæna upp nokkrum klukkutímum á nótæm. Nótæm. You Tube er ókeypis geymslu- og miðlunarvefur fyrir myndefni; allt frá nokkurra sekúndna myndskeiðum upp í heilu sjónvarpsþættina, bíómyndirnar.

Þarna er semsagt hægt að geyma kvikmyndirnar sínar og deila með öðrum ef vill. En, myndefnið þarf ekki endilega að vera hreyfimyndir því myndskjölin geta innihaldið slædsmyndasýningar og þess háttar eða bara hljóð/tónlist og myndlausan skjá.

Þetta er svosem engin splunkunýjung, en einfalt viðmót vefjarins og notagildi er það sem gerir YouTube staðinn til að hanga á. Þarna er auðvelt að upplóda myndum og fylgjast svo með því hvort einhver hafi gefið sér tíma til að skoða efnið og jafnvel skilja eftir komment. Vefurinn þessi er orðinn að samfélagi fólks víða um hnöttinn sem segir frá lífi sínu (skálduðu eða sönnu) í myndum, sem kallaðar eru vefblogg, stuttmyndum og öðrum skringilegheitum. Þessar myndir kalla síðan á viðbrögð annarra í vefsamfélaginu, misjafnlega mikil að sjálfsögðu og misvönduð.

YouTube vefurinn auðveldar fólki þetta samtal með því að bjóða því upp á að upplóda mynd sem andsvar/viðbrögð við myndinni (e. response). Dæmi: A setur inn mynd sem heitir „Hundurinn minn Kátur“. B er ekki alveg að fíla þessa mynd, gerir eina sjálfur og setur hana inn á vefinn sem andsvar. Myndin hans heitir þá „Re: Hundurinn minn Kátur“. Og svo koll af kolli. (Þetta, fyrir utan það að fólk getur gefið viðkomandi mynd einkunn, skrifað umsögn o.fl.)

Þarna er allskonar fólk að gera allskonar hluti. Mest yngra fólk, en samt er einn vinsælasti Youtubarinn enskur afi á áttræðisaldri. Fólk talar beint í vélina, birtir stuttmyndir, ferðamyndir, sketsa, töfrabrögð. Bara allt. Og vefurinn er að sjálfsögðu kominn með sína eigin óháðu fréttastofu (og fleiri held ég) þar sem sagt er frá vinsælustu og áhugaverðustu vefbloggurunum. Fólk tekur upp myndirnar sínar á vídeóvélar, venjulegar myndavélar og jafnvel farsíma. Hef ekki tíma fyrir meira blogg, þarf að taka stöðuna á YouTube ...

Jú, eitt að lokum. Það sem gerir YouTube líka að þessari snilld sem hann er, er að stuttur kóði hvers myndbands birtist með og sem auðvelt er að afrita og líma t.d. inn á bloggið sitt og ... volla, maður er kominn með sjónvarp í bloggið!

Góðar ostrurnar, er þa'kki?

MYNDSKÝRING
París, 1972. Europasonor hjóðverið við Avenue des ternes.


Waters og Gilmour sitja að kræsingum. Það er ostruveisla hjá þeim félögum. Á kantinum trommarinn Mason að borða samloku. Ekki ostrumaður. Þeir sitja við lítið borð, fyrir framan þá fullur pappabakki af ostrum á fisksalapappír og tvær bjórflöskur. Þeir eru í mynd.

Félagarnir handleika ostrurnar af kunnáttu; kreista sítrónu yfir kjötið, losa það frá skelinni með sjálfskeiðungi. Gilmour skellir upp í sig ostru, Waters hellir sinni upp í sig. Sleikir fingur á eftir: Þumalfingur fyrst, svo vísifingur, næst löngutöng og baugfingur. Litli fingur tekur ekki þátt í veislunni.

Ostrurnar eru góðar, er það ekki?, segir Waters við Gilmour sem situr honum á vinstri hönd við borðið, - þær eru góðar ostrurnar hérna er þa'kki? Gilmour jánkar og jánkar, enda upptekinn við að borða ostrur. Já, segir Waters, - já, góðar ostrur já, segir Gilmour.

Virðist vera rétta árstíðin!, segir Gilmour. - Ostrurnar eru fínar, undirtekur Mason á kantinum, og fær sér bita af samlokunni. Ostrurnar eru mjög góðar, segir Waters. Já, segir Gilmour, á þessum árstíma.

Eru þetta franskar ostrur?, spyr dokumentarinn hinumegin við myndavélina. -Ja, ég veit ekki af hvaða þjóðerni þær eru, segir Gilmour. Ég held að ostrur séu handan þjóðlegra landamæra, segir Waters.

Ostruunnendur eru listrænir snillingar. Segi ég. Hinir borða samlokur.

(Smelltu HÉR og þér er boðið í ostruveislu Gilmours og Waters.)

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Súpuveður

Gærdagurinn byrjaði bara ágætlega og lofaði góðu. En svo omventi Kári og setti í suðvestan. Og þá var komið rok. Tilvalið veður til að fara út að hlaupa og hlaupa meðfram sjónum með særokið í andlitið. Að því búnu heim í svuntuna, enda komið langt fram yfir kvöldmat á vísitöluheimilinu og því löngu orðið tímabært að karlinn gerði nú eitthvert gagn á meðan Hildur mín situr sveitt og þreytt yfir bókum og fartölvu. Er nefnilega byrjuð í meistaranámi með fullri vinnu.

Nema hvað, ekkert til í kotinu. Hvað var þá til bragðs að taka svo bragð yrði að og mettun í maga? Jú, í skál úti í horni lúrðu fimm laukar. Nú var komið að því að laga lauksúpuna sem ég hef lengi ætlað mér að gera. Það var einmitt lauksúpa sem hrakinn hlauparinn og fjölskylda hans þurftu á að halda þetta kvöldið í þessu sannkallaða súpuveðri.

Ég man ekki hvar og hvenær ég fékk síðast lauksúpu. En, í þau allt of fáu skipti sem ég hef fengið lauksúpu um ævina hefur mér þótt hún góð. En þessi súpa mín í gær var ekkert lík því lauksúpubragði sem ég geymi í minningunni. Hef trúlega verið full örlátur á timjanið ... veit ekki. En, ég er staðráðinn í útskrifast úr lauksúpuskólanum með láði og hef allan veturinn til æfinga.

Súpan gerði okkur nú samt gott og saðsöm er hún. Að uppvaski loknu og kvöldlestri sótti að mér löngun í ís; mig langar nefnilega aldrei meira í ís en akkúrat þegar úti er kalt og veður vont. Svo ég skokkaði út í Ol-ís.

En, hér er sem sagt uppskriftin að þessari lauksúpu minni sem ég hef frá matargúrunni Nönnu Rögnvaldar og er víst ekki alveg akkúrat hin fræga Les Halles lauksúpa. Hér má lesa lauksúpuspjall Nönnu.


Lauksúpa (tómatbætt)

4-5 laukar
3 msk ólífuolía
1 hvítlauksgeiri, pressaður
1 tsk timjan, þurrkað
2 lárviðarlauf
nýmalaður pipar
salt
1,5 l vatn
2 msk tómatþykkni
4 brauðsneiðar (og meira, fyrir þá sem vilja aftur á diskinn)
50 g ostur, rifinn eða skorinn í bita (t.d. sterkur gouda)

Laukarnir afhýddir, skornir í helminga og síðan í þunnar sneiðar. Olían hituð í potti og laukurinn settur út í. Látinn krauma við hægan hita í 10 mínútur án þess að brúnast; hrært öðru hverju. Hvítlauk, timjani og lárviðarlaufum bætt út í og kryddað vel með pipar og salti. Hrært og látið krauma í 5 mínútur í viðbót. Vatninu hellt út í, hitað að suðu, tómatþykkni hrært saman við og síðan er lok sett á pottinn og súpan látin krauma við hægan hita í 20-30 mínútur. Smökkuð til með pipar og salti og lárviðarlaufin veidd upp úr. Grillið í ofninum hitað. Súpu ausið í hitaþolnar skálar. Brauðsneið lögð ofan á hverja þeirra og osti stráð yfir. Sett á grind sem höfð er í miðjum ofni og grillað þar til osturinn er bráðinn og brauðið farið að dökkna á brúnum. Skálarnar teknar út (varlega!) og bornar fram.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Hann segir dojojojojong

Sem betur fer eru fjölmiðlar heimsins stundum vakandi, spyrja þeirra spurninga sem þarf, meira segja hérna heima. Einstaka sinnum. Um daginn komst Bandaríkjaforseti svo skemmtilega að orði um vondu kallana fyrir austan að þeir væru íslamskir fasistar sem ætluðu sér að hafa lýðræðið af okkur friðelskandi fólkinu.

Ég varð hugsi þegar ég heyrði þetta haft eftir Gogga. Hugsaði semsagt: Hvað ætli Bússi viti um Fasisma? Óskaði þess að einhver skarpur snápurinn hefði stoppað forseta og spurt: Heyrðu, herra forseti, skilgreindu Fasisma! Las svo og heyrði í fjölmiðlum daginn eftir (guði sé lof) að einn og annar vildi að hann skildi GWB betur. Að sjálfsögðu höfum við Fasismann á Ítalíu og svo það sem við köllum einu nafni fasisma og meinum einræði, alræði, gerræði. En, að heyra Bush líkja Allahböllunum óvinum sínum við Fasista hjómaði eins og illa nykruð líking.

Á Vísindavefnum er stutt skilgreining á fasisma með litlu f-i.


... fasistar boða öfgafulla þjóðernishyggju og lofsama rétt ríkisins til þess að stjórna nánast öllum þáttum mannlegs samfélags. Ríkisvaldið hefur í þeirra augum algjört vald yfir þegnunum en takmarkast hvorki af lögum né mannréttindum. Þeir líta á þjóðríkið sem eina órofa heild sem hverjum einstaklingi beri að beygja sig undir og þjóna. Mannréttindi eru fyrir borð borin, sé það talið til hagsbóta fyrir ríkisheildina.

Fasistar höfða til einingar þjóðarinnar sem þeir vilja sameina gegn meintum óvinum ríkisins. Með öðrum orðum verður ríkið sjálft æðsta takmark mannlegs samfélags.

Í upphafi 20. aldar skírskotuðu fasistar mjög til ótta fólks við byltingar og óstöðugleika. Þeir álitu sig vera brjóstvörn laga og reglu, kristilegs siðgæðis og einkaeignarréttar. Jafnframt höfðuðu þeir til þjóðerniskenndar og fordóma gegn ýmsum hópum manna, svo sem gyðingum.


Þessi lýsing hljómar eitthvað svo kunnuglega. Ætli við áttum okkur á því hvað það er ef við skiptum út nokkrum orðum?


Stjórn Bush boðar öfgafulla þjóðernishyggju og rétt ríkisins til þess að stjórna nánast öllum þáttum mannlegs samfélags. Mannréttindi eru fyrir borð borin, sé það talið til hagsbóta fyrir ríkisheildina.

Bushstjórnin höfðar til einingar þjóðarinnar sem hún vill sameina gegn meintum óvinum ríkisins. Með öðrum orðum verður ríkið sjálft æðsta takmark mannlegs samfélags.

Í upphafi 21. aldar skírskotar Bushstjórnin mjög til ótta fólks við hryðjuverk og óstöðugleika. Hún álítur sig vera brjóstvörn laga og reglu, kristilegs siðgæðis og einkaeignarréttar. Jafnframt höfðar hún til þjóðerniskenndar og fordóma gegn ýmsum hópum manna, svo sem aröbum.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Hagsýnir hlaupa heilt!

Ertu á leið í Reykjavíkurmaraþon, en veist ekki alveg hvaða vegalengd þú átt að hlaupa? GÚRKAN gerir verðkönnun hlauparans og reiknar dæmið til enda.

Reykjavíkurmaraþon er á næsta leiti. Þennan hátíðardag íslenskra hlaupara er boðið upp á nokkrar mismunandi vegalengdir í hlaupum; allt frá eins og hálfs og 3ja km skemmtiskokki upp í heilt maraþon - 42 km og nokkuð rúmlega það.

Þátttaka í hlaupunum kostar sitt, enda fær hver hlaupari stuttermabol og þátttökupening til eignar, auk svaladrykkja á leiðinni. En gjaldið er mismunandi eftir vegalengd og þá er kannski ekki úr vegi að reikna út kílómetragjald hverrar vegalengdar og finna þar með út hagstæðasta hlaupið - bestu kaupin í hlaupinu.

Við byrjum á skammhlaupunum. Lætabæjar- og 3ja km skemmtiskokkin kosta kr. 800 annars vegar og 1.700 hins vegar. Tíu km kosta 2.500 kall og hálfmaraþonið 3.500 kr. Maraþon kostar svo 4.500 kr. Þetta gerir:

1,5 km: 533 kr. á km
3 km: 567 kr. á km
10 km: 250 kr. á km
21 km: 167 kr. á km
42 km: 107 kr. á km

Það er þá morgunljóst í hvaða hlaupi maður gerir bestu kaupin; maður getur hlaupið maraþon fyrir þetta rétt rúmlega hundraðkall á kílómetrann á móti allt að sexhundruð krónum í 3ja km skemmtiskokkinu! En svo má nú líka snúa þessu við og spyrja: Í hvaða hlaupi kemst ég af með hvað fæsta km fyrir bol og þátttökupening? Nei, við skulum ekki hlaupa á okkur: Hagsýnir hlaupa heilt maraþon!

Og svona í lokin. Það kemur kannski ekki á óvart að stystu leiðirnar séu dýrastar, því þær eru jú nefndar skemmtiskokk og bera því trúlega skemmtanaskatt og útheimta sérstkaka löggæslu og nærveru sýslumanns - og björgunarsveita í viðbragðsstöðu. Það ber því augljóslega að varast þau hlaupin. Þeim sem ætla í Laugaveginn á næsta ári er hins vegar hollast að fara að leggja fyrir, því það hlaup kostar litlar 15.000 kr. Sagt og skrifað.

Að gefnu tilefni er það svo áréttað að langhlauparar fá ekki langermaboli heldur stutterma.

laugardagur, ágúst 05, 2006

Kombakk

Síðustu misserin, árin, jafnvel áratugina - ég man ekki eða vil ekki muna hversu langt aftur þetta nær - hefur það tíðkast í voru vestræna samfélagi að vekja upp gamla krafta í þeirri von að þeir verki á þreyttar sálir.

Við lifum á tímum drauga og afturganga. Ef það gengur og gengur vel er von til þess að það gangi aftur og jafnvel betur en vel. (Og ef afturgangan er sökksess má kannski draga draug upp úr þessum og kalla'ann kombakk).

Einar nælonsokkur er ekki bara hjartarknúsari heldur líka hjartahnoðari, endurlífgari; sá sem ræður um líf og dauða poppara, segir „popp“ eða „flopp“. Hann er álfadís í nælonsokkum vædd einum gildum töfrasprota sem hún bregður á löngu steindauða poppara og vúpps!, Sumargleðin endurvakin. Hemmi í ham. Það var lagið!

Afturgöngurnar eru misintresant. Stuðmenn koma aftur og aftur og hafa verið að koma aftur og aftur sjötíuogeitthvað, áttatíuogietthvað, nítíuogeitthvað og tvöþúsundogeitthvað. Afturgöngur í stanslausu stuði. Man eftir stróra kombakki Stuðmanna. Ég var sirka nýorðinn unglingur að skilgreiningu. Þeir voru svona um það bil að byrja á eða ljúka tökum á meistaraverkinu Með allt á hreinu. Enginn hafði heyrt lögin en boðað var til tónleika í porti Austurbæjarskólans. Óli vinur minn sagði mér að þetta væru tónleikar sem við mættum ekki missa af. Og þarna tókum við til við að tvista í fyrsta skipti og stóðum þétt saman að íslenskra karlmanna sið. Þetta var á öðru ári níunda áratugar liðinnar aldar og hafði hvorki heyrst né frést til Stuðmanna síðan um miðjan áratuginn þar á unda. Ekki nema von að afturganga Stuðmanna hafi verið sensasjón. Ísland þurfti á Stuðmönnum að halda. Frelsuðu andans menn úr síðpönki og nýgamallri bylgju. Síðan þá hafa Stuðmenn verið að koma og bakka.

Ég er kominn aftur eftir allt of langt sumarfrí. Það er kombakk. Börnin fara að snúa aftur í skóla einu sumrinu ríkari. Á vorin kemur lóan. Kombakk.