föstudagur, janúar 27, 2006

Amadeus

Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart fæddist þennan dag í borginni Salzburg í Austurríki fyrir réttum 250 árum.

Fæðingardagur Mozarts er n.t.t. 27. janúar 1756, en hann lést í Vínarborg 5. desember 1791 tæplega 36 ára að aldri.


Ég má til með að minnast 250 ára afmælis Wolfgangs Amadeusar Mozarts hér á Gúrkunni. Sem betur fer er ég alinn upp við að hlusta á klassíska tónlist og í því uppeldi var Mozart skipað í sérstakt öndvegi. Þarf ekki að fjölyrða um fegurðina í verkum Mozarts en þau eru líka svo aðgengileg öllum kynslóðum; börnin syngja um hann Tuma sem fer snemma á fætur að sitja yfir skjátum og þylja svo upp stafina með hjálp melódíunnar hans Mozarts. Mozart er líka með okkur alla daga: Sem undirspil í sjónvarpi, sem hringitónn í símum, sem súkkulaðikúlur, sem hugbúnaður, sem ... ímynd ómengaðrar snilligáfu.

Mozart er minn maður og ekki þótti mér það leðinlegt þegar myndin góða Amadeus eftir Mílos Forman kom út og fólk fór að segja við mig hvað ég líktist mikið leikaranum Tom Hulce í aðalhlutverkinu. Ég sá myndina úti í Bournemouth áður en hún kom hingað (þetta var á þeim tíma þegar það tók minnst eitt ár fyrir myndir að skila sér upp á Klakann) og það verður að segjast eins og er að mér brá nokkuð þegar ég nánast sá sjálfan mig í sumum atriðum myndarinnar. Það ber þó að taka fram að þarna var ég með nokkuð sítt og aflitað hár(!). Mikil synd hvað lítið hefur sést til þessa fína leikara Tom Hulce; hann er kannski ekki nógu jollyhollywoodvænn.

Kvikmyndin Amadeus er gerð eftir leikriti Peters Shaffer sem Þjóðleikhúsið setti upp á sínum tíma með Sigga Sigurjóns í hlutverki snillingsins barnalega sem trúlega var með e.k. tourette sem gerði það að verkum að hann gat verið ansi orðljótur. En líka fyndinn og því sönnunar eru sendibréf hans sem varðveist hafa. Ég sá leikritið á sínum tíma og hafði mikið gaman af. Ætli einhverju leikhúsanna hafi dottið í hug að setja verkið upp á árinu í tilefni afmælisins? Til hamingju með afmælið Mósí.

AÐ GEFNU TILEFNI er það tekið fram að myndin er ekki af undirrituðum heldur leikaranum Tom Hulce frá Detroit í hlutverki ótuktarinnar Amadeusar frá Salzburg.

föstudagur, janúar 20, 2006

Þorri

Þorri er mættur, bankaði upp á í morgun á bóndadegi og dvelur með okkur framundir konudag rétt eftir miðjan febrúar þegar blessuð góa tekur við. Hann er sterklegur að sjá, skeggið hrýmað og augnabrúnirnar líkastar breiðu bíslagi yfir bláköldum augunum.

Um það bil sem landinn er að kyngja síðasta jólabitanum tekur þorrinn við og hákarlsbitar elta lamb, rjúpu og svín niður í maga þar sem þau hitta fyrir jólaölið og ... splass, brennivínið brunar á eftir. Hrútspungar og kindakjálkar fylla nú þau borð sem rétt áður svignuðu undan kalkún, rauðu káli, kartöflum, laufuðu brauði og ég veit ekki hverju og ekki endilega þessu öllu saman.

Er ekki tími til kominn að við persónugerum hann Þorra, klæðum hann upp og látum hann færa fullvöxnum kvæntum karlmönnum eitthvað þjóðlegt og gott í skóinn eða aðra skálmina aðfararnótt bóndadags, t.d. Brennivín og bjór, hrútspunga og magála. Þetta ætti að vera eitthvað fyrir verslunarmenn að taka upp og prómótera. Engin helvítis blóm fyrir karlmenn, enda hávetur og hreinlega fáránlegt að vera gefa sumarblóm þegar eini gróðurinn sem karlmanni kemur í hug er frostrósir á rúðunum eða góð tóbakstugga í pípu. Heill þér Þorri.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

DV

Ég man eftir Dagblaðinu þegar það byrjaði; var einn af guttunum sem bar það um bæinn í plastpokum og hrópaði: Daag-blað'ið, Daag-blað'ið. Svo var Vísir reyndar líka tekinn með og þá hrópað: Dagblaðið Vísir. Sem varð svo nafnið á sameinuðu blaði nokkru seinna og svo stytt í DV. Lyktin af nýprentuðum dagblöðunum er mér ógleymanleg og enn þann dag í dag grúfi ég mig stundum oní opinn Mogga eða Fréttablað til að svelgja í mig lyktina.

Man ekki hvort ég las Dagblaðið mikið á þessum árum; hef trúlega kíkt á myndasögurnar. Samt aldrei verið mikill myndasögumaður. En svo gerist eitthvað í þróun Dagblaðsins að farið er að líta á það sem sorprit á mínu uppeldisheimili. Lengi vel las ég það aldrei og tók það ekki einu sinni upp til að fletta því fyrir kurteisissakir yrði það á vegi mínum. Þetta var á mektardögum Jónasar á Dagblaðinu. Jú, ég ýki nú eitthvað. Ég held ég hafi reyndar flett því nokkrum sinnum og þótt það lítið til þess koma að ég var ekki mikið að bera mig eftir því.

Þetta var álit mitt á Dagblaðinu og DV lengi vel. Leit jafnvel niður á fólk sem keypti það og las eða undraðist um þá sem voru áskrifendur og ég hélt að vissu betur. Þar til að Illugi tók við hinu endurreista DV. Þá fór ég að hafa áhuga á blaðinu sem einn af mínum eftirlætis pennum átti að fara ritstýra. Þá fór ég að fylgjast með. Og jú, margt var gott gert í blaðinu en líka mörg vitleysan sem fyrr. Svo hættir Illugi og hver kemur í staðinn? Jú, auðvitað Jónas sannleikans.

Það sem er með mann eins og Jónas er að hann mun aldrei skilja hvað við hin eigum við með aðgát, tillitsemi og hófsemi í fréttafluttningi nema hann finni það á eigin skinni hvað það er að vera slegið upp á forsíðu fyrir litlar, hæpnar eða engar sakir.

Setjum sem svo að til væri annað blað sem svipaði til DV og berðist við það um lesendur. Setjum sem svo að Jónas væri eitthvert kvöldið staddur á veitingastað og fengi sér nokkrum glösum of mikið þannig að hann missti stjórn á sér og lemdi eitthvað til þjóns sem væri að reyna að koma honum út. Margt fólk er á staðnum og margir til frásagnar. Mánudaginn eftir er ritstjóranum alræmda slegið upp á forsíðu Kvöldblaðsins með flennimynd og stríðsfyrirsögn: Ritstjóri sannlekans sífullur - Jónas lemur þjón á veitingastað. Þetta er allt í anda Jónasar; hann er opinber persóna sem hefur auk þess gefið sig út fyrir að vera boðberi sannleikans og því væri Kvöldblaðið í fullum rétti til að birta slíka „frétt“. En, okkur hinum finnst þetta ekki vera frétt heldur frekar leiðinlegt atvik sem við erum viss um að Jónas sjái eftir og láti ekki endurtaka sig og við teljum að honum eigi að hlífa við svona umfjöllun þótt honum hafi orðið á alvarleg mistök; því hann er jú maður eins og við og okkur verður á að gera mistök.

Nú veit ég ekki hvort maðurinn fyrir vestan er sekur um það sem hann er sakaður um. Hitt veit ég þó að aldrei hef ég séð annan eins uppslátt á ódæmdum manni og er maður þó að verða ansi sjóaður af skeytingarleysi Jónasar og hirðar hans á DV gagnvart sálum þessa lands. Ekki þótti þeim nægja að birta flennistóra mynd af einhentum manninum sem náði yfir alla síðuna, heldur varð og að klifa á því í stríðsfyrirsögninni að maðurinn væri svo sannarlega einhentur þannig að lesendur myndu örugglega og ósjálfrátt stimpla hvern þann einhenta mann sem þeir mættu næstu misserin sem barnaníðing.

Það er svo sorglegt hvernig Jónas hefur hagað sér undanfarið (hefur kannski alltaf verið svona?) kallandi blaðamenn hórur og farísea og ég veit ekki hvað, því það er svo margt satt í því sem hann hefur fram að færa um blaðamennsku á Íslandi. Málið er bara það að hann er öfgamaður, þekkir ekki mörkin, veit ekki hvar skilin liggja milli þess sem segja á og ÞARF í nafni sannleikans og upplýsinga til almennings og þess sem MÁ kjurrt liggja í nafni tillitsemi og samúðar, a.m.k. þangað til nægar sannanir hafa fengist fyrir viðkomandi máli og það er sett fram á svona þokkalega smekklegan hátt.

Það er eins og það vanti mennskuna í Jónas - blaðamaður er hann samt af lífi og sál, það sjá allir - vanti blaða-mennskuna í hann. Þegar talað var við hann á Morgunvaktinni á Rás 1 stuttu eftir að viðfangsefni hans svipti sig lífi var ekki að heyra að honum væri minnsta brugðið. Og í Kastjósinu um kvöldið var ekki neina iðrun að sjá. Menn sem ekki finna til með öðrum, eða leyfa sér það ekki, láta svona.

Ef börnin mín væru komin á blaðasölualdur myndi ég fagna því frumkvæði ef þau vildu vinna sér inn pening með því að selja blöð. En, ég myndi ráða þeim frá því að sverta hendur sínar á DV. Að minnsta kosti á meðan þessi er blaðamennskan.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Back to School

Ég er sestur á skólabekk. Enn og aftur. Saga náms míns er ein brunasaga út í gegn þar sem ég hef farið úr öskunni í eldinn í námsvali. Fyrst var það heimspeki. Úr heimspeki fór ég í kvikmyndagerð og beit síðan höfuðið af skömminni með því að eyða heilu ári í margmiðlunarskóla.

Come on! Margmiðlun árið 2001! Ha, ha, ha, ha, ha! (Eru þau ekki annars fimm ha-in í hahahahaha, ha?). Og hvað nú. Jú, jú, hann er kominn á kunnugar slóðir, sestur í gömlu grænu stólana úr byggingu húsameistara ríkisins ... Bambarambabamb: Háskóli Íslands er það og námið er kvikmyndafræði.

Námið legst vel í mig og mikið er gamli skólinn minn góður að setja mig í stofur sem ég þekki, það er í Aðalbyggingu, Árnagarði og Lögbergi. Áratugur hefur liðið síðan ég var þarna síðast og það skondna er að eitt af síðustu námskeiðunum sem ég tók þá, ef ekki bara það síðasta áður en ég stakk af úr öskunni í eldinn á Ítalíu, var kvikmyndarýni hjá Sigurði Pálssyni skáldi. Það hefur alltaf verið meiningin að klára þetta BA og skrifa þá um kvikmyndaheimspeki. Og nú er semsagt verið að spíta í lófa, bretta upp ermar, fletta bókum og upp í sjálfum sér. Þetta legst vel í mig, segi ég; námið nokkurs konar syntesa eða samþætting á því sem ég hef lært í minn koll hingað til. Og núna þegar maður er að læra með fullu starfi þá er skólabekkurinn bara hreinn sælustaður að sitja á.

mánudagur, janúar 09, 2006

Ást í Nýju Jórvík

Starfsmenn jarðlesta, strætisvagna og annarra almenningssamgöngutækja í Nýju Jórvík gerðu þriggja daga verkfall síðustu dagana fyrir jólin. Hafði þetta ekki gerst í áratugi í borginni sem aldrei sefur, enda starfsfólki þessa geira einfaldlega bannað að stræka. En, því hefur trúlega verið meira en nóg boðið fólkinu af bágum kjörum. Og hvað gerðist? Jú, allt varð víst stopp, borgarbúar voru marga klukktíma að koma sér í og úr vinnu og leigubílar borgarinnar voru um- og ásetnir sem aldrei fyrr. Settar voru reglur um að ekki skyldi hleypa færri en tveggja farþega bílum inn á Manhattaneyju og leigubílstjórum var heimilað að taka marga óskylda farþega uppí á sömu leið.

Af hverju er ég að tala um þetta? Verkföll hafa ekki þótt neitt tiltökumál hér í Evrópu, þótt við Íslendingar séum orðnir ansi latir við þau. Á Ítalíu þykir það t.d. hluti af jólunum að komast illa leiðar sinnar dagana fyrir jól þar sem lesta- og strætisvagnastarfsmenn eiga það gjarnan til að drýgja jólafríið með skyndiverkföllum. Já, þykir bara notalegt. En, af hverju er ég að tala um verkfall lestarstjóra og miðasala í jólaös New York borgar?

Jú, þegar ég hlustaði á lýsingu fréttaritara Ríkisútvarpsins á því þegar hann tók leigubíl inn á Manhattan og þurfti að deila honum með nokkrum öðrum Jórvíkingum og jafnvel tala við þá þá bara gat ég ekki annað en séð þetta fallega og ljóðræna sem stundum felst í óvelkomnu en tiltölulega saklausu raski á daglegu lífi fólks. Sjáiði til, þarna er fólk neytt til að sitja saman í þröngum leigubíl á stuttri leið um stræti stórborgarinnar sem getur verið svo askoti köld í desember. Og haldiði ekki að fólkið fari að tala saman, a.m.k. um verkfallið, kuldann, jólastressið og þetta allt hitt, t.d. hvort Bin Laden standi nú ekki barrasta á bak við þetta allt. En, semsé, fegurðin felst í því að í hinni köldu borg New York þar sem flestir eru að flýta sér og maður á helst ekki horfa of mikið á náungann skuli ókunnugt fólk neyðast til að sitja nokkur saman í leigubíl og taka upp á því að tala saman, deila sameiginlegri reynslu. Og sem ég hlustaði á sögu fréttaritara sá ég fyrir mér ótal atriði og sögur sem munu fæðast af þessu þriggja daga stoppi á almenningssamgöngum í New York og birtast okkur í amerískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum næstu misserin. Ef þetta er ekki efni í rómantískar myndir þá þekki ég ekki amerískar kvikmyndir. Svona verður í stuttu máli t.d. efni einnar myndarinnar:

Strákur og stelpa hittast í leigubíl ásamt tveimur öðrum farþegum. Strákur og stelpa taka tal saman. Allir fara svo út á sínum stað á Manhattan. Strákurinn fer til vinnu sinnar en getur ekki hætt að hugsa um stelpuna. Vill hitta hana en veit ekkert um hana. Man þá að einn farþeginn virtist vera kunningi stelpunnar og sá vann á ákveðnu kaffihúsi. Stráksi fer á hans fund og grefur upp nafn stelpunnar og hefur uppi á henni. Þau fella hugi saman, þakka verkfallinu fyrir að hafa leitt þau saman og að sjálfsögðu endar brúðkaupið með því að þau gifta sig, samfarþegarnir tveir eru svaramenn og leigubílstjórinn veislustjóri. Myndin mun heita Love on Strike.

mánudagur, janúar 02, 2006

Fratkettir

Áramótin eru tími flugeldanna sem skera upp himininn svo honum blæðir rauðu, gulu, grænu og bláu. Flugelda kalla sumir rakettur og aðrir fratketti. Ég hef eins og margir aðrir ánægju af því sjónarspili sem ljósasýningar og sprengingar flugeldanna skapa. Man alltaf eftir flugeldasýningunni á Menningarnótt í Reykjavík árið 2000, en þá náðu flugeldar nýjum hæðum; litadýrðin var stórkostleg og það var eins og nýr fídus hefði bæst við sýninguna, nefnilega tempó og hrynjandi.

En, flugeldaáhugi minn nær ekki lengra því ekki nenni ég að skjóta þessu og aldrei hefur mér dottið í hug að kaupa fratkettina fokdýru. Til hvers í ósköpunum ætti ég að kaupa flugelda fyrir þúsundir króna þegar úr görðunum og af götunum kringum mig skótast upp tugir og hundruð þúsunda króna í formi flugelda, eldterta, sprengjukínverja og ég veit ekki hvað. Það eina sem ég þarf að gera er að sveigja höfuð mitt aftur á bak, sem ég geri hvort eð er til að súpa af freyðivínsglasinu mínu, og horfa til himins ... og vollá; fyrir augu mín ber mikil litadýrð. Ég hef aldrei gert betri ekkikaup en einmitt öll þau áramót sem ég hef lifað og ekki haft nokkurn áhuga á því að kaupa rakettur. Allt ókeypis og ekki bara það heldur líka fyrirhöfnin við kaupin og skotin á eldunum.

Kærar þakkir til allra þeirra sem sponsuðu hreint ágætis flugeldasýningu hér á Akranesi. Gleðilegt ár 2006 óskar og skrifari á Gúrkunni dyggum lesendum sínum, þ.e. Jóni Knúti og mömmu sinni.