miðvikudagur, október 26, 2005

Kvennafrídagur, I. hluti: 1975

Ég tel sjálfan mig til femínista þótt sumir segi að ég sé orðinn karlrembulegur í seinni tíð. Jú, satt er að ég er farinn að leyfa mér ákveðna karlrembu á stundum. Kannski svona eins og kvenremburnar leyfa sér sína rembu.

Ég er alinn upp af þónokkurri kvenréttindakonu, móður minni það er að segja. Mamma söng með góðum hópi leikkvenna baráttusöngva inn á plötu og sama efni á Lækjartorgi í tilefni Kvennafrídagsins árið 1975 og svo aftur til að minnast þessa sama dags þrjátíu árum síðar nokkurn veginn á sama stað.

Plötuna Áfram stelpur kunni ég aftur á bak og áfram þegar ég var sex ára og trúlega líka þegar ég var átta, tíu og tólf. Marga textana man ég enn - enda lögin mörg góð og inntak textanna féll í góðan jarðveg ungrar sálar sem var að byrja sína skólagögnu í Austurbæjarskólanum og trúði á sanngirni og réttlæti.

Mamma söng semsé á plötunni Áfram stelpur og það er nú trúlega mest þess vegna sem hann karl faðir minn hefur nennt með mig niður í bæ að bera dýrðina augum þennan októberdag annó 1975. Gott ef pabbi fór ekki með mig á Hótel borg eftir fundinn í hnallþóru og kakó. Man þó minna eftir því, meira eftir kvennafundinum. Ég man að ég stóð uppi á handriðinu, nýorðinn sex ára, við Núllið í Bankastrætinu - og hef trúlega haldið um ljósastaur - og horfði þaðan eins og úr stúku niður á Lækjartorg þar sem fundurinn fór fram; ræðu- og söngkonur standandi í þessum hefðbundna litla fundarvagni sem um langt árabil var notaður til fundar- og hátíðarhalda út um allt land.

Og haldiði ekki að ég hafi séð mynd í Fréttablaðinu á Kvennafríðdaginn þennan síðasta, 24. okt., sem sýnir hnakkann á barni sem heldur utan um ljósastaur í Bankastrætinu og horfir niður á Lækjartorg. Og það er skilti á staurnum: KONUR - LADIES. Ég er svona 95% viss um að barnið er ég.

Kvennafrídagurinn anno 1975 markaði söguleg spor í vitund hins vestræna heims um stöðu og stöðuleysi hálfs mannkyns og að sama skapi markaði hann spor í huga og hjarta ótal karla og kvenna sem þennan merkisdag muna.

Á vef Kvennasögusafns Íslands er þetta m.a. að finna:

„ Lagið "Áfram stelpur" hljómaði í útvarpinu kl. 7 að morgni 24. október 1975. Platan „Áfram stelpur“ var ekki komin til landsins en aðstandendur höfðu fengið afrit í hendur og komið í útvarpið. Sönghópur Rauðsokka söng "Áfram stelpur" ásamt öðrum lögum á Lækjartorgi síðar um daginn og það hefur síðan verið táknrænn söngur þessa dags. [ Hér má hlusta: http://kona.bok.hi.is/Kvennasaga/Afram%20stelpur.mp3 ]

Áfram stelpur
Lag: Gunnar Edander
Texti: Dagný Kristjánsdóttir og Kristján Jónsson

Í augsýn er nú frelsi,
og fyrr það mátti vera,
ný fylkja konur liði
og frelsismerki bera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil. “

Kvennafrídagur, II. hluti: 2005

Ég er femínisti, eins og áður segir, og ég hefði svo gjarnan viljað vera niðri í Reykjavíkurbæ þann 24. október s.l. þegar íslenskar konur og nokkrir karlmenn slógu enn í gegn og hvorki meira né minna en doppluðu fyrra met - sem þótti fréttnæmt út um heimsbyggð alla á sínum tíma. Í þetta skiptið var þetta útifundur upp á hvorki fleiri né færri en fimmtíuþúsund manns og mest konur. Sagt og skrifað. Ábekingar lögreglan í Reykjavík.

En, ég var ekki einu sinni í Akranesbæ. Ég var á ferðinni allan daginn í mínum jeppabíl með allt mitt stóð frá u.þ.b. austasta tanga landsins til þess vestasta. Og sem ég hlustaði á dagskrána í útvarpinu þegar sendingin gaf þá hugsaði ég með mér hvernig ég hefði útskýrt fyrir dóttur minni sex ára - sem er nota bene jafngömul og ég var anno '75 - þenna dag og baráttumál hans hefði ég ekki haft neina löglega afsökun til þess að fara ekki með henni á fund: Jú, dóttir góð, uh, þessi heimur er nebblega þannig að, uh, margar konur, svona stelpur, fá ekki eins marga peninga í vinnunni sinni og strákar ... Og hvað myndi svo dóttir mín segja, sex ára annó 2005; En, pabbi, af hverju? - Er til eitthvert rökrænt svar?

þriðjudagur, október 18, 2005

Já, herra Anderson

Fór á tónleika í Háskólabíói síðastliðið sunnudagskvöld með Jon nokkrum Anderson, þekktum sem söngvara bresku progrokksveitarinnar Yes og síðar í teymi með gríska tónlistarmanninum Vangelis.

Ég hef svo sem lítið hlustað á Yes og heldur ekki mikið á Jon og Vangelis. Af hverju fór ég þá - og var gaman? Æi, mér bara fannst ég ekki mega missa af kallinum - og nei, það var ekkert spes. Samt ekki þannig að ég sjái mikið eftir peningnum. Suma kalla vill maður bara sjá. En, af hverju fór ég þá ekki að sjá Bowie og Bob (Dylan) þegar þeir létu sjá sig í Höllinni á sínum tíma? - Veit ekki.

Þetta voru svona la, la tónleikar eins og kannske vænta mátti miðað við það að hann var einn á ferð. En, það var ekki það. Frekar þessi s.k. Midi gítar sem hann spilaði á og þetta nýjaldartónlistarsánd sem úr honum kom. Anderson spilaði líka á kassagítar og svo pínu á hljómborð og það var fínt. Hefði mátt gera meira af því. Svo spjallaði kallinn inn á milli laga og það var notó. Kannski þess vegna sem ég fór, að ég vissi að þetta væru svolítið intím tónleikar og tækifæri til að kynnast Jóni Andréssyni.

Í spjalli á vef Egils Helgasonar á Vísir.is hefur Jakob Frímann einu og öðru að miðla í poppfræðunum eins og oft áður (hverja hefur hann ekki hitt og spilað með?):

„Trubrotstrymbillinn Gunnar Jokull starfadi med Jon Anderson og Yes-monnum, en reyndar i hljomsveitinn SYN sem var undanfari YES. Undirritadur kynntist hins vegar adurnefndum Jon, Chris Squire YES - bassaleikara og lek svo inn a plotu, ekki tho med YES, heldur Pete Best fyrrum gitarleikara baedi YES og SYN. YES-trymbillinn Bill Bruford, arftaki Jokulsins lek svo skommu sidar a Syrlandsplotu Studmanna. Tonleikar Jon Anderson a Islandi sl. sunnudag voru afar skemmtilegir, enda einstakur raddmadur a ferd, og trur sinum hippiska og kosmiska grunni.

London 17.oktober 2005
Jobbi Maggadon
a.k.a. Jakob Frimann Magnusson “

Jon Anderson í Háskólabíói sunnudaginn 16. október 2005:
3 gúrkur af 5.

föstudagur, október 14, 2005

Davíð

Það er orðið satt að segja átakanlegt að fylgjast með vitsmunalegri hnignun Davíðs Oddssonar, fyrrum (ó, hvað er ljúft að segja þetta) forsætisráðherra og alvaldi Íhaldsins.

Hann er búinn að gera svo oft í buxurnar maðurinn síðustu misserin að það hálfa væri hellingur. Eftir að hann veiktist (þ.e. líkamlega), þetta upp úr fjölmiðlafrumvarpsruglinu, þá er hann eins og tveir menn, eins og Jekylll og Hyde; hinn bljúgi Davíð og svo hinn gamli Davíð með allt sitt „skítlega eðli“, sem sá maður eitt sinn eignaði honum sem hinn niðurstigni leiðtogi og sjálfskipaði Seðlabankastjóri nú kallar aðfararmann að þingræði okkar unga lýðveldis.

Gera í buxurnar, já og enn og aftur að toppa sjálfan sig í hinu skítlega eðli. Þetta allra síðasta er náttúrlega þær skítabombur sem hann sendir Samfylkingunni af landsfundi Sjálfstæðisflokkins og svo það að hans náð skuli ekki mæta í viðtal í Kastljósþátt Ríkissjónvarpsins eins og ráð var fyrir gert, af þeirri ástæðu, eins og ritstjóri þáttarins skýrði frá, að bankastjóranum nýslegna hafi ekki líkað umræðan í þættinum kvöldið áður um hans eigin ræðu á landsfundinum daginn þann.

Maðurinn er andlega vanheill, á því leikur vart vafi. En, öryrkjaníðingurinn þarf ekki að örvænta um það að hann þurfi að deila kjörum með þeim lýð. Hans andlegu vanheilsu hafði ekki hrakað svo áður en hann lét af embætti forsætisráðherra að hann hafi ekki séð til þess að setja þau nýju lög sem tryggðu kóngi sæmandi kjör í eftirlífinu. Eða hvað, voru þau lög kannski fyrstu teikn þess að Davíð væri endanlega genginn af göflunum?

Davíð og Baugur. Kannski uplifir Davíð sig raunverulega sem hinn litla Davíð versus hinum stóra, vonda og svifaseina Golíat (Lesist: Gaumur, Baugur, og hvað sem fyrirtæki Bónusfeðga heita)? Maðurinn er kolgeggjaður og ég held að margir séu á þeirri skoðun með mér.

fimmtudagur, október 13, 2005

Lífið er kabarett

Það er margt í boði í leikhúsunum núna. Margt girnilegt og því mikil samkeppni um rassana í sætin. Kabarett fer augljóslega ekki varhluta af samkeppninni. Það eru alltént skilaboðin sem ég fæ úr varpinu. Leikhópurinn (á senunni) sá ástæðu til að opinbera flott atriði úr verkinu í Kastljósi í gær og nú er augljóslega komin ordra á Rás tvö um að spila tónlist úr uppfærslunni. Í mínum eyrum og augum þýðir þetta bara eitt: Aðsóknin er dottin niður. Ótrúlegt hvað sumir hafa góðan aðgang að sumum fjölmiðlum.

Ég er nú svo sigldur að ég sá Cabarett með hinum eina og sanna Joel Gray á hinum eina og sanna Broadway um páska 1988 á 20 eða 25 eða 50 ára afmæli uppsetningarinnar. Og var því töluvert spenntur fyrir uppsetningu Felixar og Kollu Halldórs.

Ég var semsagt á leiðinni að sjá verkið, en stór hluti af spenningnum við að sjá það var að sjá hvernig Kolla útlegði Money makes ... Nú er ég búinn að sjá það í Kastljósinu. Þarf ég að borga mig í leikhúsið? Held ekki. Á trúlega eftir að sjá hin atriðin í kosningasjónvarpinu í vor og svo í nýjum þætti Gísla Smarteins í haust ...

Lesbókin

Lesbókin er áttræð. Þrennt tengir mig við Lesbókina. Ég hef lesið Lesbókina svo lengi sem ég man eftir mér. Og ég man eftir mér langt aftur til þeirra tíma þegar það voru hálfgerð svik við Hugsjónirnar (sic!) að kaupa Moggann. Og ég man jafnlangt aftur til þeirra tíma þegar ég mátti ekki heldur hafa hátt um það að pabbi keypti Þjóðviljann.

Hitt sem tengir mig við Lesbókina er að ég er einn af þeim þúsundum sem eiga birt efni í Lesbókinni. Nei, það var ekki ljóð. Hið þriðja sem tengir mig við Lebókina er hús hérna á Akranesi. Moggahöllin varð snemma þekkt kennileiti í Reykjavík og fyrir suma kennileiti hins ljóta í módernismanum. Við Akratorg var á sjöunda áratugnum reist stórt hús sem þótti svipa til Moggahallarinnar í henni Reykjavík. Húsið var þó aðeins minna í sniðum og fékk því snemma á sig nafnið Lesbókin. Makalaus er húmor dreifbýlinga.

miðvikudagur, október 12, 2005

Þá er að blogga

Ég á afmæli í dag, er 36 vetra, og í tilefni þess kem ég því í verk sem ég hef lengi hugsað um; nefnilega að setja upp bloggsíðu.

Nafnið er „GÚRKA“, gömul hugmynd að n.k. vefriti og/eða umræðuvettvangi fyrir þau mál sem sem alla jafna eru ekki í fréttum en eiga það þó sannarlega skilið. Þessi gúrka verður þó meira bloggeðlis, en við sjáum til.

Nú er það Cogito, ergo blog.