þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Bankahelgi


Vorum á menningarvaktinni um helgina og tókum stöðuna á Menningarnótt. Renndum í bæinn og ætluðum að byrja á Latabæjarhlaupinu. Bjuggumst að sjálfsögðu við örtröð frá göngum og niður í bæ, en göngin voru tóm og holhljóma og greiðfært vestur í Háskóla þar sem börnin elstu ætluðu að hlaupa kílómetra hring sér til heilsubótar og Únicef til fjár. Börnin runnu og höfðu mikið gaman af og foreldrarnr stoltir af upprennandi langhlaupurum.

Hef ekki ennþá minnst á veðrið, en það var dýrðlegt og gerði alveg þennan dag. Fyrir mér má alltaf rigna á Sautjánda ef það tryggir sól og logn á Menningarvökunni; þjóðhátíðardagurinn skiptir ekki lengur máli ekki frekar en verslunarmannahelgin; við höfum þróast, þroskast og nýjar hátíðir teknar við; vökur menningar- og kynvillinga, o.s.frv. (má semikomma svona oft?).

Svo röltum við niður að Tjörn. Þar voru lánuð út fley og fagrar árar. Við siglum. „Börnin góð, þetta er Reykjavíkurtjörn og eyjan þarna litla er kölluð Hólmi.“ Skrýtið að vera uppalandi utanbæjarfólks. Á fallegum degi sem þessum liggur við að ég vorkenni börnunum mínum að fara á mis við þau gæði að alast upp í Reykjavík.

Svo pylsur og ís og skautað í gegnum bæinn. Uppákomur á hverju horni. Á gatnamótum Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis mættum við svo áströlskum og klúrum trúði sem var þó fjandi skemmtilegur. Svo endað hjá frænku í Bergstaðastrætinu, í einu af þeim húsum sem við höfum búið í um ævina. Þarna í Þingholtunum var og frumlegasta atriðiðið að finna: tónleikar ekta bílskúrsrokkbands haldnir í (auðvitað) litlum rauðum bílskúr í Ingólfsstrætinu rétt við hús spíritista. Bandið tróð upp inni í skúrnum en áheyrendur hlýddu á úti á götu. Svona á þetta að vera um Bankahelgina.