fimmtudagur, júlí 20, 2006

Þetta gula

Þið ykkar sem búið á Íslandi, nánar tiltekið á suðvesturhorninu, vitið hvað ég á við þegar ég segi að í dag höfum við himininn höndum tekið, höndlað hamingjuna, vitrast hið góða, upplifað fegurðina, hlotnast hlutdeild í suðrinu, sólinni, hitanum og allri þeirri göfugu menningu sem þessu fylgir. Við erum betri fyrir vikið; betri í bakinu, skapinu, gigtinni. Betri foreldrar og bara betri manneskjur almennt.

Þegar sólin skín - þegar fjandans sólinni þóknast á skína á þetta helvítis norðursker sem þetta volaða land er, plagað af framsókn og íhaldi hægri vinstri, tollum og gjöldum júneimit, ógnarháu bensínverði, niðurskurði ... Æi, hver nennir að pæla í þessu leiðinda fólki sem vanvitar landsins allir sameinaðir hafa kosið yfir okkur aftur og aftur og aftur og aftur - Þegar sólin skín, þá er sól. Kommon!

Eftir langan, langan vetur sem varði langt fram í júlí má ég til með að birta veðurkort afmælisdags konu minnar, nebblilega í dag; daginn sem Skaginn breyttist í Sólarskaga og allt varð bjart og skuggarnir jafnvel eftirsóttir.

laugardagur, júlí 15, 2006

Össur

Hvað svosem sagt er og verður um Össur Skarphéðinsson þá er hann skemmtilegur penni og flugbeittur á köflum. Var að lesa pistil hans frá því í gær um Guðna varaformann Ágústsson sem verður sennilega von bráðar var-varaformaður Framsóknarflokksins. Megi sá flokkur líka leggjast af sem fyrst.

Á sama tíma og Össur var að pára inn pistilinn sinn - sem verður að teljast skyldulesning fyrir alla sem á annað borð hafa áhuga á blóðugri valdabaráttu í íslenskum stjórnmálum og nota bene skrifaður af innanbúðarmanni sem sjálfur mátti þola að vera kosinn úr embætti formanns - stóð hann í skeytasendingum við þann sem hér skrifar og var á miklu flugi.

Ég sendi honum nefnilega póst og falaði eldri pistil sem inniheldur ferðasögu um Kapríferð þeirra Einars Odds til birtingar í Rómarvefnum. Hann hélt nú já að það væri í lagi og sagði: „Hófstillt frásögn af gleðiferð okkar Einars Odds verðskuldar að fara sem víðast.“

Svo fór ég eitthvað að tala um þokkabombuna Anítu Ekberg sem lék í La dolce vita Fellinis, en Össur minnist á myndina í pistlinum. Þá þetta: „Haltu lostafullum hugsunum frá þér þegar sænska kynbomban fer í brunninn [Fontana di Trevi]. Það kom miklu róti á unglingshuga minn - enda var ég þá á aðventistaskóla og bað Guð á hverjum degi að forða mér frá syndum. Það fór einsog það fór. Ég lenti í pólitík.“

En aftur að Guðna og viðtalinu við hann í Kastljósi sem varð Össuri efni í hreint makalausan pistil. Ég sá þetta sama viðtal og tók eftir því - annað ekki hægt - hversu sneyptur og beygður maðurinn var; hann horfði meira á borðið sem var á milli hans og spyrilsins en spyrilinn sjálfan. En, sem sagt, skora á alla að lesa Össur, pistillinn er hér og svo um Kapríferðina á Rómarvefnum. Þið sem nennið að sökkva ykkur í þetta þá er hér grein í Rómarvefnum sem ég skrifaði um Trveví(gos)brunninn. Góðar stundir.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

TRAMPÓLÍN - smásaga - II. hluti

„Nei, það kemur ekki til mála! Og við ræðum þetta ekki meira!“

Hún snarhætti að velta matarleyfum af diski yfir í ruslapoka, skipti litum og snaraði sér upp í snaggaralega flugvélina. Kom sér fyrir í sætinu, ræsti hreyflana og keyrði af stað upp, upp í loftin blá. Innan skamms var skotmarkið í sigtinu. „Ég leyfi honum að koma glasinu fyrir í skápnum, svo læt ég til skarar skríða.“ Hún var eina konan sem hafði fengið inngöngu í Kamikaze sjálfsmorðssveit Japana. Og hér var hún komin á sinni fljúgandi sprengju að eyða hernaðarlega mikilvægu mann-virki. Gaf allt í botn og spling, splang, splong.

Hakkið flaug í fallegri parabólu yfir eldhúsið þvert og endilangt og endaði á elhússkápnum sem maður hennar var nýbúinn að loka - fyrir stundu, því hann var farinn úr eldhúsinu. Illt að treysta á japanskar seinnastríðssjálfsmorðsvélar til gagnárása. Hún lagði frá sér disk og gaffal og úrklæddist japanska gírinu. Og elti hann fram í stofu. Hér duga ekki heldur japanskar hækjur.

Strunsaði á eftir honum en hægði á sér á miðri leið, andaði djúpt og einsetti sér að láta ekki helvítis kallinn koma sér úr jafnvægi. Lágflug þaðan af inn í stofu.

Hún var búin að endurheimta sinn rétta litaraft en hann virtist bara verða rauðari og rauðari. Nei, þetta var teppið sem hún var að horfa á. „Líttu upp kona, réttu úr þér,“ hugsaði hún. Hann var sestur í sófann, fætur uppi á sófaborði, blað í kjöltu og augun á sjónvarpinu. Þóttist ekki taka eftir aðflugi eiginkonu sinnar.

Mjúk lending í hinu horni sófans. Á skjánum grannvaxinn karlmaður milli fertugs og fimmtugs í teinóttum jakkafötum með græna þverslaufu. Flugturninn kallaði: „Tækla þetta nú, frú!“ En áður en hún kom upp orði tók hann það sama af henni.

„Þessi er hoppari,“ sagði hann. Hún hváði. „Þau segja í ráðuneytinu að hann sé með risatrampólín í garðinum og hoppi úr sér streituna. Svo borðar hann víst ekki heitan mat. Ekki einu sinni kaldan eldaðan mat. Bara hráan mat .“ Þetta sagði hann án þess að horfa á hana frá hinum enda sófans, eins og hann væri að tala við sjálfan sig eða slaufumanninn sem var í viðtali í sjónvarpsfréttum. Og já, henni fannst hann svolítið fölur. Rautt bindi myndi gera meira fyrir hann.

Hún tók á sig rögg en passaði hafa ekki augun af sjónvarpinu. „Talandi um trampólín, ég ætla að fara í Bykó á morgun og kaupa trampólín handa krökkunum.“ Engin viðbrögð úr hinu horninu. „Fínt,“ hugsaði hún, „þá er þetta útrætt.“

Slaufumaðurinn úr ráðuneytinu og undirtyllan hans voru nú báðir staðnir upp og farnir að hoppa ofsakátir og í miklu stuði. Annar á trampólíni, hinn á stofusófanum.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Instrú - mental

Vinur minn liggur lasinn heima hjá sér og svarar ekki í síma. Timburmenn eða berklar, skiptir ekki máli; hann er ekki í spjallhæfu ástandi. Sendi honum SMS gegnum netið (sem er einstaklega þægilegt fyrir mann eins og mig sem var seinn til í GSM væðingunni og hefur hreinlega ekki nennt að koma sér upp SMS-þumli).

Nema hvað, nokkur skeyti fara á milli okkar um tónlist. Ég segi honum að ég sé að hlusta á Blood on the tracks með Dylan, disk sem sjálfur hann gaf mér, en vinur minn þessi hefur fyrir sið að eiga á lager nokkur eintök af sinni eftirlætis tónlist að gefa þurfandi og illa upplýstu fólki.

Ég segi honum, á skeytamáli, að ég sé ekki alveg að ná þessari plötu Dylans og á þá við að mér finnist ekkert lag sérstaklega grípandi. Hann segir mig hafa steinhjarta og spyr hvort mér virkilega finnist ekki eftirsjáin í Simple twist of fate vera einstök. Hum, hugsa ég og hætti öllum skeytasendingum: „Ég var bara að hlusta á tónlistina“. Er þá búinn að gleyma því að þetta Dylan, Bob Dylan: Textinn og allt það.

Eins og ég hef nú gaman af góðum texta þá hefur það aldrei verið alveg librettóið sem ég fíla í tónlist, heldur tónlistin sjálf. Dæmi. Ég er gamall Pink Floyd aðdándi og þótt Waters liggi venjulega mikið á hjarta þá kann ég ekki að fara með nema einstaka viðlag úr tónverkum Floydsins. Gæti hins vegar sungið sumar gítarlínur Gilmours frá upphafi til enda.

Hef lengi öfundað fólk af því að yfirleitt heyra, skilja og kunna lagatexta. Ég heyri bara eitthvað allt annað. Ég hlýt því að vera svona instrú - mental.

Hvað sagði Materazzi?

Framlag Halldórs Baldurssonar teiknara til Blaðsins er að mínu viti það albesta í blaðinu og það sem gerir Blaðið hreinlega þess virði að opna það. Breytingar nýs ritstjóra eru þó allar í áttina að því að skapa Blaðinu sérstöðu, gefa því þá rödd sem það hefur sárlega vantað; erindið við lesendur. Hér er nýjasta snilldarverk Halldórs, þótt teikningin sjálf sé ekki nema miðlungs á hans mælikvarða. Smella á mynd til að stækka.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Tár, bros, takkaskór og eitt stang frá signore Zidane

Þekktur er ég fyrir margt annað en áhuga á tuðrusparki. En, þegar heimsmeistaramót í fótbolta er annars vegar, hvað þá að Ítalir leiki til úrslita, þá er nú komið tilefni til að gefa því gaum.

Ég veit svona nokkurn veginn út á hvað fótbolti gengur. Það eru ellefu leikmenn í hvoru liði og skipta með sér gríðarstórum grasivöxnum leikvelli. Hvort lið á síðan að sækja yfir á vallarhelming hins og helst að koma boltanum í þar til gerðan ramma; þá er mark. Það má sparka í boltann, skall'ann en alls ekki taka hann höndum nema þegar hann lendir utanvallar; þá má tvíhenda honum inná völlinn og svo má sá sem vörð stendur um rammann eftirsótta, svo nefndur markmaður, bera hendur fyrir höfuð sér og rammans og fara öllum sínum höndum um knöttinn eins og hann vill. Helst má ekki toga í aðra leikmenn og alls ekki hrinda þeim, hvað þá kýla þá eins og tíðkast í annarri svokallaðri íþrótt. Það má heldur ekki skalla fólk og trúlega ekki stanga heldur. Til þess að allt fari vel fram og samkvæmt reglum þessum er til staðar alvaldur dómari.

Suður Spáni á er sparkið giska vinsælt, en þar stundar alþýðan það líka að hópast í kringum svo kallaðan matador sem búinn er rauðu klæði og vel ydduðum spjótum. Inn á hringleikvang er síðan hleypt blásaklausum bola sem samkvæmt náttúrunnar skikkan tekur að stíga dans við matadorinn. Dansinn er einhvern veginn svona: Matadorinn viðrar teppið sitt rauða og bolinn verður alveg snar og æðir mót teppamanninum að stanga hann, en sá veit betur, hefur teppið á loft og boli þýtur fram hjá og hlýtur að launum spjót í síðu. Olé.

Ítalir og Fransmenn léku til úrslita í heimsmeistarakeppninni; tvær sjóðblóðheitar Evrópuþjóðir. Leikurinn gekk nú svo og svona, en þegar hann var búinn var hvort lið búið að skora sitt markið og taldist jafntefli. Það þykir ekki nóg í úrslitakeppni og því var keppninni framhaldið. Þá fór ekki betur en svo að forystusauði Frakka fannst að sér vegið af einum leikmanni Ítala, setti undir sig höfuðið og stangaði manninn sem mannýgt naut eða hundfúlll hrútur. Dómaranum fannst þetta ekki gott og dæmdi manninn útaf. Að framlengingu lokinni var staðan óbreytt og þá tekið til við að keppa í vítasparki; fimm tilraunir á hvort lið. Þeim bláu, Ítölum það er, tókst að skila af sér fullu húsi en Fransmenn brenndu af einu sparkinu. Og þá lágu úrslitin fyrir.

Margir eiga eftir að sýt'ann Zidane nú þegar hann lætur af öllu tuðrusparki eins og hann var áður búinn að lofa. Og sennilega á Zidane eftir að sýta þetta stang sitt, þetta frumhlaup tuddans í sér sem bara varð að setja undir sig höfuðið og brýna hornin á ítalska varaliðanum Materazzi. En svona fór það. Zidane stangaði, kannski sá hann rautt, en það hefur trúlega ekki verið neitt á við spjaldið rauða sem dómarinn dró úr rassvasanum og hóf upp hátt mót himni og reiði guðanna.

Annars merkilegt þetta með Materazzi. Kom inn á sem varamaður, fékk svo dæmt á sig vítaspark sem Zidane skoraði úr. Skoraði síðan sjálfur jöfnunarmarkið. Varð svo sundurorða við Zidane sem varð til þess að sá síðarnefndi stangaði hann í bringuna og var fyrir það vikið af velli. Skoraði svo eitt af mörkunum fimm í vítasparkinu. Materazzi var þá matador eftir allt saman og Zidane tuddinn. Og ólympíuleikvangurinn í Berlín eitt stórt nautaat.

föstudagur, júlí 07, 2006

Er ekki netið magnað?

Ég hef verið að endurhanna vefvarpið mitt, gurkaTV, og nú bara orðinn harla sáttur við útlitið og fúnksjónina. Það er því miður svo að þeir mörgu sem eru fastir í viðjum Windows hafa ekki Quick Time spilarann í tölvum sínum. Við þessu hef ég brugðist með því að setja nokkrar kvikmyndanna inn á Google Video, en þar spilast myndirnar á því sniði sem flestar PC-tölvur skilja. Ég hef þá bara sett tengil við viðkomandi kvikmynd sem beinir gestum beint inn á vef Google þar sem sömu mynd er að finna.

Ég vek athygli á því að myndirnar eru teknar á litla stafræna myndavél, ekki eiginlega vídeóupptökuvél, og því eru gæði myndanna bara svona la,la, En, þannig vil ég hafa þetta. Það er nefnilega miklu auðveldara að ferðast um og taka upp efni á vél sem enginn tekur fyrir kvikmyndavél. Þessar myndir eru enda eingöngu ætlaðar fyrir þann merka og magnaða miðil sem vefurinn er.

Hér er slóðin á gúrkaTV

þriðjudagur, júlí 04, 2006

TRAMPÓLÍN - smásaga - I. hluti

„Nei, það kemur ekki til mála! Og við ræðum þetta ekki meira!“

Úthverfi í Reykjavík. Raðhús. Fjögur í fjölskyldu: pabbi, mamma, sonur og dóttir; systkyn, feðgin, mæðgin, feðgar, mæðgur, hjón. Þakið þarfnast viðgerðar, sólpallurinn nýmálaður, fyrir utan lítinn blett á honum miðjum sem varð eftir þegar fór að rigna og stytti ekki upp fyrr en málarinn var ekki einasta kominn úr málaragallanum heldur úrklæddur málarastuðinu, hættur puðinu og fastur í helvítisskítaverðurstuðinu.

„Og til hvers í ósköpunum að kaupa fokdýrt trampólín þegar veðrið í þessari helvítis borg býður ekki upp á annað en rigningu dag eftir dag eftir dag.“

Honum varð litið út um eldhúsgluggann. Handan runnans sem skildi að þeirra garð og nágrannans þarna megin hússins sá hann tvo krakkakolla skjótast upp í takföstum ritma. Hljóðrásin gæti hljómað einhvern veginn svona: Boing, kvakk, boing, kvakk - og svo framvegis.

Stóð fyrir framan eldhúsvaskinn væddur viskastykki og hamaðist við að tæma úr uppþvottavélinni. „Og helvítis uppþvottadraslið getur ekki einu sinni skilað af sér þurru,“ sagði hann og tók til við að þurrka innan úr enn einu glasinu og setja á sinn stað upp í skáp. Stærri glösin í einni röð, minni í annarri.

Kvöldmatnum nýlokið, börnin þotin út að hoppa á trampólíni nágrannans og þau tvö eftir í elhúsverkunum.

En, hvað með Hana, það er ekki eins og Hún hafi ekki neitt til málanna að leggja. Svona byrjaði þessi eftirkvöldverðarsena. Hún: „Eigum við ekki að kaupa handa þeim þetta trampólín? Það eru allir komnir með trampólín og þau langar svo í. Þau hafa nú verið dugleg að hjálpa til og ég var búin að lofa þeim þessu.“

Matarafgöngum skafið af diskum í poka - merkilegt nokk - í þann sama poka og kvöldmaturinn hafði borist inn á heimilið í. Í Bónuspoka inn, í Bónuspoka út. Bónushakk, bíb, Bónuskartöflur, bíb, Bónusmjólk, bíb, Bónusbíbíogblaka, bíb. Uppþvottavélin tæmd og hreinu diskarnir frá því í gær raða sér skítugur inn á sama stað. „Þetta er allt ein helvítis hringavitleysishringekja,“ hugsar hann: „Upp og niður í hjónarúminu, úps, babb í báti, barn í maga, barn niður úr maga. Matur upp í munn, niður í maga og svo framvegis. Barni hossað upp og niður. Barn á trampolíni, upp, niður, upp, niður.“

[Framhaldssmásagan TRAMPÓLÍN mun birtast hér á Gúrkunni á næstu dögum, vikum eða misserum. Tillögum að framhaldi má koma á framfæri með pósti til kristinn[hjá]romarvefurinn.is.

Í næsta þætti fær Hún að segja sína sögu - ég veit, þetta er hingað til soldið mikið Hann.]

Hjálpi mér


Andinn
kemur
og
fer
úr
þröngu
í
þrengra.

Held
eg
hafi
þetta
ekki
lengra.

Kristinn Reyr, úr ljóðabókinni Vegferð til vors, 1979.