miðvikudagur, júní 28, 2006

Dæmalaus saga

Hljóp einu sinni með góðum hópi fólks undir merkjum Langhlauparafélagsins. Hlaupið var frá Vesturbæjarlauginni 2-3 í viku. Eitt skiptið hljóp ég með konu einni. Á góðum spjallhraða. Og það var spjallað. Hún sagði: „Ég æfi og æfi en samt er ég ekki að bæta mig neitt.“ Við vorum komin á Ægisíðuna austan úr Nauthólsvíkinni. Veður gott, sumar og augu mín höfðu fest sig við gömlu grásleppuhjallana í fjöruborðinu (hún var sennilega í íþróttabrjóstahaldara svo barmur hennar bauð ekki upp á að ég festi augu mín þar). Nú?, sagði ég, og skipti um fókus. „Já, það er bara eins og ég standi í stað, það er engin bæting í tíma.“ Við hlupum áfram og ég melti þetta smá stund, tók inn svipbrigðin í andliti samferðarkonu minnar. Hún virtist ekkert hafa fyrir þessu skokki og ekki voru aukakílóin að íþyngja henni, bara áhyggjur: hún var búin að æfa vel og það sást.

Við vorum komin fram hjá hjöllunum og ég sagði, sí svona: „Þarftu ekki bara að hlaupa hraðar?“ Smá hik, örfá skref til viðbótar en svo lét árangurshefta vinkona mín frá sér einlægan hlátur: „Þú segir það!“ Og það var eins og íþróttabrjóstahaldarinn léti undan því barmur vinkonu minnar var nú allur meiri. Eða ég var kominn með fókus, hættur að pæla í grásleppu, brimi og grjóti.

Ég veit, þetta var fáránlegt svar, asnalegt, en samt gefið í fullri einlægni. Það er nefnilega þannig - og það vitum við öll - að annmarkar okkar og takmörk eru oft hugarfarsleg. Svarið virtist spontant en var það ekki. Og það leiðir okkur að næstu sögu. Suður til Napolí.

(Hættu svo að hugsa um brjóstin, lesandi góður, þetta var bara svona til þess að lífga upp á annars hversdagslega samræðu. Ég man í alvöru ekkert eftir því hvort hún var í íþróttabrjóstahaldara eða ekki eða hvort það var nokkuð þar undir sem orð eru á gerandi. Í alvöru.)

... ... ...

Hálfmaraþon í Napolí vorið 1998 og ég mættur. Ekki í miklu hlaupformi en mig langaði að taka þátt í þessu fyrsta nýendurvakta Napolímaraþoni. Nema hvað, ég var á síðustu kílómetrunum og brekka í sjónmáli. „Jesús minn“, hugsaði ég, „búinn að hlaupa í gegnum sótmengaðan miðbæinn þar sem napólskir bílstjórar sýndu okkur sólbökuðum hlaupurunum enga miskunn og nú brekka sem engan endi virðist taka!“ Og ég samdi við sjálfan mig um að ganga bara brekkuna og skokka síðan spölkornið sem eftir var í markið þegar brekkunni sleppti.

Lét af skokkinu og lagði gangandi á brattann. Hlaupararnir sem ég hafði eytt orku minni og heiðri í að hlaupa uppi tíndust nú einn af öðrum fram úr mér þarna í brekkunni. „Fokk“ hugsaði ég og lagaði buxnastrenginn en hefði þó þurft að hysja upp um mig buxurnar allar. Og það kom að því. Hópur ítalskra karla mér nokkuð eldri þusti fram hjá. Ég leit undan í skömm, en í stað þess að hæða mig þarna í suðursólinni og napólskri bæjarbrekku kölluðu þeir til mín hvatningarorð: „Svona nú, áfram, ekki nema þessi brekka og við erum komnir í mark. Þú getur þetta!“ „Friður á jörðu og allir menn vinir“ hugsaði ég; „Fokkit, ég á nóg eftir - Já, og þeir sögðu „við““ Og ég tók á rás og fram úr körlunum vinum mínum, spændi upp brekkuna eins og hún væri þúfa á leið minni. Og rétt handan þúfunnar var markið langþráða.

Svona var þessi saga, asnaleg dæmisaga sem hljómar eins og saga af brjóstum og gömlum körlum en er í reynd saga um ... ég veit ekki hvað ... - Hvað var eiginlega pointið með þessu? - Jú, ég vildi koma að mynd af mér frá Napólí. Það var það. Eða var það: Ef maður hleypur ekki nógu hratt þá er bara að hlaupa hraðar?

mánudagur, júní 19, 2006

Skiptimiði

Almenningsvagnar eru þarfaþing. Fyrir 250kall kemst ég alla leið norðan frá Akranesi suður til Reykjavíkur og langt vestur í bæ - og þarf bara að skipta einu sinni um vagn á leiðinni. Fæ skiptimiða og framvísa honum í næsta vagni sem fer frá Mosó. Laggó. Klukkutími liðinn og ég búinn að lúslesa blaðið og minningargreinarnar líka.

Skiptimiðar eru merkilegir, eru ávísun á framhald. Ef við líkjum lífinu við ferðalag, eins og Reykjavíkurskáldið Tómas vildi hafa það, vilja sumir meina að lífið sé eins og ferðalag ofan af Skaga og langt suður í Vesturbæ Reykjavíkur. Með skiptimiða og öllu. Þessir sumir skiptast hins vegar svona gróft séð í tvo hópa; einn vill meina að við ferðalangarnir fáum skiptimiðann við upphaf ferðarinnar eins og gengur og gerist í strætó, en hinn vill hins vegar hafa þetta þannig að við fáum hann ekki fyrr en við ferðarlok og þá aðeins að því tilskyldu að við höfum hagað okkur vel á leiðinni; ekki hent rusli á gólfið, að við höfum staðið upp fyrir gömlum konum og alls ekki reynt að fara með ís um borð í vagninn. (Það sem hins vegar má í þessum vagni, ólíkt gulu strætóunum, er að það má spjalla við vagnstjórann á meðan á akstri stendur, það er beinlínis skylda.)

En þetta er náttúrlega bull og vitleysa. Eins og biskupinn sagði. Lífið er jú sannarlega ferðalag en bara með einum vagni og enginn skiptimiði í boði. Svo það er eins gott að maður njóti ferðarinnar. En, hver láir svosem þessum sumum þegar ferðalagið liggur um djúp og dimm göng og endar í Mosfellsbæ!

þriðjudagur, júní 13, 2006

Myrkursmegin mánans

Stefnumót við Gilmour, Mason og Right, Lexington, Kentucky, vorið 1988

Does anybody here remember Vera Lynn? Ég er skiptinemi í Cincinnatiborg í Ohioríki. Átján ára. Búinn að hlusta á Pink Floyd síðan ég var þrettán; Final Cut, síðasta platan sem þeir gerðu allir saman, hafði farið vel í mitt gelgjaða þunglyndi, margspiluð í Marantz fermingargræjunum mínum (sem ég, nota bene, á ennþá og nota). Pink Floyd eru löngu hættir og útséð með það að maður fái að sjá þá á tónleikum. En hvað gerist. Þeir Gilmour, Mason og Right koma saman í einu stundarbrjálæði og gera plötuna Momentary Lapse of Reason. Og túra.

Ég trúi ekki mínum eigin skynfærum þegar ég frétti að sveitin ætli að halda tónleika á stórum íþróttaleikvangi handan Ohio árinnar. Samt kaupi ég miða og fæ þá Francesco og Rafa, vini mína og skólafélaga frá Ítalíu og Spáni, til að slást í för með mér. Er þetta draumur eða bara one of these days? Þeir jafnspenntir og ég. Og nú vantar bara farið. Redda því með amerískri vinkonu minni, kærasta hennar og vini í japönskum smábíl. Pink Floyd er internasjónal. Talar til þeirra sem vilja heyra. Læt mig hafa það að kúldrast aftur í skotti í hálftíma akstri í það minnsta.

Spenningurinn er svakalegur. Liðsmenn Floyds hins bleika eru frægir fyrir að vera myndfælnir. Myndatökur bannaðar: Leitað við innganginn. Kameran samt meðferðis því ég ÆTLA að ná góðum myndum. Tek myndavélina í sundur og kem aðdráttarlinsunni fyrir í nærbuxunum þannig að ég lít út eins og vel vaxinn pornóleikari, en Francesco sér um að smygla boddíinu inn. Og allt gengur eftir. Það er þreifað og þuklað við innganginn en ekki á hinum allra heilögustu stöðum.

Salurinn risastór, sá stærsti sem ég hef komið í. Okkar sæti efst og aftast. Útsýn samt góð, og sándið, maður lifandi: Búmmm. Og sjóvið eftir því. Smelli af tveimur, þremur filmum 400 asa (stækkaði eina og rammaði inn eftir tónleikana). Við erum eins og litlir strákar að hitta Íþróttaálfinn í eigin persónu. Við föðmumst þarna á pöllunum og gott ef við grátum ekki líka. Við erum að horfa á goðin okkar og hlusta á tónlist sem við héldum að við fengjum aldrei að upplifa læf. Ég hugsa til Kalla vinar míns heima. Wish you were here. Við Kalli áttum Pink Floyd saman.

Stefnumót við Roger Waters
Reykjavík, sumarið 2006


Nú var komið að því að ég sæi og heyrði það sem uppá vantaði af Pink Floyd: Nú var það höfuðpaurinn, sjálfur yfirséffinn, sækadelinn og æðstiprestur hins grúfaða þunglyndis, herra Waters. Og hann hafði með sér gamlan félaga, trymbilinn og múrarann Mason.

Keyrði á mínum Skódabíl ofan af Skaga. Nú sjálfur við stýrið og einn á ferð. Átján ár liðin frá síðustu fundum við Floydsins fríðu hljóma. Satt að segja ekki sama eftirvæntingin, en samt spenntur. Nú yrði bleik brugðið ef Rogerinn rokkaði ekki. Ég var séður og lagði bílnum undir Úlfarsfelli og gekk yfir golfvöllinn stuttan spöl að Egilshöll. Þannig ætlaði ég að losna við það að verða innlyksa með bílinn eins og raunin varð með þá sem lögðu of nærri höllinni.

Var kominn klukkan átta þegar tónleikarnir áttu að byrja. Löng röð við innganginn. Gekk aftur með henni til að finna upptökin. Virti fyrir mér fólkið í röðinn og fór að reikna út svona sirka meðalaldurinn. Niðurstaða: plús mínus 40 ár. Gekk áfram þangað til maður einn, um sirka fertugt, benti mér á að ég væri í raun að ganga í kolranga átt; að röðin byrjaði nefnilega handan við hæðina sem skildi að bílastæðið framan við höllina og veginn hinumeginn. „Ertu að segja það satt“, sagði ég. Hann kinkaði kolli og ég vatt mér yfir hæðina. Og sjá, þar var önnur röð og lengri. „Allt í góðu lagi“, hugsaði ég, „þeir fara ekki að byrja tónleikana fyrr en flestir eru komnir í hús“.

Röðin var löng og sagt er að hún hafi spannað tvö póstnúmer. Eftir tuttugu mínútur var ég búinn að fá ósýnilegan stimpil á handarbakið og kominn inn á svæði A. Tímasetningin gat ekki verið betri; Rogerinn plöggaði í bassann og taldi í, á íslensku: Upp með Múrinn. Þetta var ekki leiðinlegt og ekki heldur það sem á eftir kom. Tók mér stöðu aftast á A svæðinu og íklæddist gæsahúðinni:

How I wish, how I wish you were here.
We're just two lost souls
Swimming in a fish bowl,
Year after year,
Running over the same old ground.
What have we found?
The same old fears.
Wish you were here.

Minnispunktar fyrir næstu tónleikaferð:
- Taka með mér vatnsbrúsa.
- Fara í ofurháu glamrokkskónum mínum eða á stultunum hennar mömmu (til að sjá betur).
- Hafa með Íbúfen (hálsrígurinn sko).

> Ekki nóg. HLUSTAÐU þá á 5.30 mín af ferðasögunni.

mánudagur, júní 12, 2006

Trúverðugleiki Fréttablaðsins

Man einhver eftir Auðunni Georg Ólafssyni? Trúlega fáir. En Markúsi Erni? - Jú, bíddu við, var hann ekki útvarpsstjóri ... en festist í lyftu ... og?

Jóhann Hauksson fréttamaður hefur átt erfitt á fjölmiðlum síðustu misserin. Hann var dagskrárstjóri á Rás 2 með starfsstöð á Akureyri þangað til honum ofbauð (eins og mörgum, mörgum fleirum) ráðning fyrrnefnds Auðuns Georgs í starf fréttastjóra RÚV og sagði upp.

Fékk þá inni á Fréttablaðinu og hefur verið með bestu og mest áberandi blaðamönnum þess blaðs sem þó hefur ekki farið batnandi á síðustu mánuðum. Er bara satt að segja orðið hundleiðinlegt aflestrar.

Jóhann Hauksson er greinilega maður með skoðanir og prinsippin í lagi. Hann lét ekki bjóða sér ruglið á RÚV og gekk út. Nú var hann, að eigin sögn, lækkaður í tign á Fréttablaðinu, þ.e.a.s. færður úr þingfréttum yfir í erlendar fréttaþýðingar, og hann ekki sáttur við það: Gekk út.

Jóhann hefur nefnilega verið óragur við að tjá sig um menn og málefni í tilþessgerðum dálkum í Fréttablaðinu og í systurmiðlinum NFS. Hann hefur verið gagnrýninn á ríkisstjórnina og fáránleg mál úr fortíðinni eins og nýuppkomið hlerunarmál. En, ég held að maðurinn sé nú bara fyrst og fremst gagnrýnin, punktur. Og það er nákvæmlega það sem lesendur Fréttablaðsins þurfa á að halda, hafandi önnur blöð sem leynt og ljóst ganga erinda ákveðinna afla í þjóðfélaginu.

Jóhann virðist semsagt hafa haft fullmiklar skoðanir samkvæmt ráðamönnum á Fréttablaðinu. Og Jóhann lætur greinilega ekki troða á sér og fer. Það er ekki auðvelt að vera prinsippmaður á Íslandi í dag.

Í þessu samhengi er kannski fróðlegt að lesa eldri pistil hér í Gúrkunni um Þorstein Pálsson og Fréttablaðið

Niðurlag Hallgríms Helga í pistli í Fréttablaðinu í dag er svona:

„Eina afleiðing uppljóstrunar um samráð olíufélaganna var afsögn borgarstjóra R-listans. Enn á ný þræðir íslenskt réttlæti sína krákustíga. Fyrsta fórnarlamb símhlerunarmálsins er blaðamaður á Fréttablaðinu ...“

Lesa Hallgrím

laugardagur, júní 10, 2006

HórMang 2006

Heimsmeistaramótið í fótbolta (HM) er nú hafið í Þýskalandi og stendur víst næstu vikur. Ef einhvern tímann er þess virði að horfa á fótbolta þá eru það viðureignir þessa móts. Ég býst þó ekki við því að sjá nokkurn leik því þeir eru sýndir í læstum útsendingum. Hélt að það væru einhver lög um fótboltann hér í Evrópu sem kvæðu á um að leikir sem þessir yrðu að vera sýndir í opnum útsendingum. Kannski á það bara við um úrslitaleikina.

En, það er stór SVARTUR BLETTUR á þessari keppni. Svo virðist sem töluverður fjöldi þeirra karlmanna sem sækja Þýskaland heim til berja tuðrusparkið augum geri líka kröfu um að geta keypt sér kynlífsþjónustu. Við skulum ekki fara út í þá umræðu hér hvort sú meinta þjónusta eigi rétt á sér eður ei, en svo er málum háttað í Evrópu að margsannað er að stór hluti þeirra kvenna og stúlkubarna sem þessir karlmenn kaupa til lags við sig stundar EKKI þá „þjónustu“ af fúsum og frjálsum vilja. Þvert á móti: eru þrælar glæpaflokka sem neyða þær í þessi ógeðfeldu viðskipti að viðlögðu ofbeldi og jafnvel dauða. Yfirvöld þeirra borga og landa sem halda keppni af þessu tagi ættu að sjá sóma sinn í því að uppræta þessa starfsemi í stað þess, eins og rætt hefur verið um í fjölmiðlum, að vera á bandi þeirra sem vilja anna eftirspurninni. Hórmang er ekki samboðið sönnum íþróttaanda. FIFA ætti kannski að víkka „Fair play“ konseptið sitt út til þjóðfélagsins alls.

Það er annars merkilegt að orðið „knattspyrna“ hafi fest sig í sessi í málinu okkar. Hefur þótt fínna að nota það orð heldur en „fótbolti“, þótt við notum orð af sama meiði um aðrar boltaíþróttir eins og handbolta og körfubolta. En, þetta orð, „knattspyrna“ er eiginlega bara vitleysa því ekki spyrnir maður við boltanum heldur sparkar maður í hann. Samt stöglumst við á þessu að leikmaður taki vítaspyrnu þegar hann augljóslega sparkar boltanum að markinu en spyrnir ekki við honum. Ef riddarar græna vallarins ferðuðust hins vegar um á rassinum mætti vel hugsa sér að þeir spyrndu við boltanum þegar þeir kæmust í færi við hann. Málfarsráðunautur á RÚV benti á þetta.

fimmtudagur, júní 08, 2006

RÓMARVEFURINN - ertu með?

mánudagur, júní 05, 2006

Uppstilling

Vigga og Bassi. Bassi og Vigga. Vigga spilar ekki á bassa en Bassi spilar stundum á Viggu. Vigga er samt bassa og Bassi alto. Samt er Vigga soprano og Bassi basso. Þegar Vigga segir laggó segir Bassi basta. Vigga vill ekki súpur frá Viggo og Bassi kann ekkert á bassa. Svona eru Vigga og Bassi. Þau geta bara ekkert að þessu gert og ég ekki heldur og þetta er alveg klikkað.

Þaðerbaraeinsogþaðer

Eins og fram hefur komið hér í Gúrkunni á Rómarvefurinn 5 ára afmæli. Af því tilefni sendi ég út fréttatilkynningu til fjölmiðla og það í fyrsta skipti frá því vefnum var hleypt af stokkunum. Ég er að sjálsögðu afskaplega innvolveraður í vefinn; einn daginn finnst mér hann algjört drasl, hinn bara nokkuð góður. En, ef ég reyni að vera nokkuð ærlegur við sjálfan mig og kannski pínu góður þá má kannski segja sem svo að þetta sé ágætur vefur, a.m.k., eins og enskurinn segir, „a work in progress“.

Fimm ár á netinu er alveg hellingur. Skoðum þetta aðeins. Þegar ég lagði drögin að Rómarvefnum sá ég fram á verulegan fjárhagslegan ávinning; allar þessar þúsundir Íslendinga sem ferðast til Ítalíu ár hvert myndu náttúrlega sækja vefinn heim og það myndu auglýsendur ferða og annars sem tengist Ítalíu hér heima svo sannarlega kunna að meta. Ég sá hins vegar fljótt að þetta væri eiginlega ekki svona. Kommon, þetta var árið 2001: það voru allir í e.k. drauma - vef - ehf - geimgöngu til sigurs fyrir mannkyn allt. Spútnikfyrirtæki í netbransanum sátu um bólugrafna fyrsta árs tölvunarfræðinema í háskólanum og buðu þeim milljónir fyrir að í guðanna bænum að hætta námi og byrja að vinna hjá sér. Svona var tíðarandinn. Og ég dansaði með eins og margir aðrir. Á netinu var hægt að græða skrilljarða.

Fimm ár á netinu er nefnilega alveg hellingur. Netbólan sprakk en Rómarvefurinn hélt sínu striki, hangir enn uppi og sækir enn í sig veðrið. En, verðið. Bullandi mínus. Ég gerði máttlausar tilraunir til að fá auglýsendur. En, hver auglýsir á vef sem fær 3-400 gesti á viku? Ég er löngu hættur að reyna að fá auglýsendur og er bara nokkuð stoltur yfir því að halda úti vef fyrir eiginn reikning sem mörgum finnst vera gagnlegur og er algerlega án auglýsinga. Fyrir utan mömmu; hún fær að auglýsa gratis sína frábæru skó sem hún flytur inn frá Danmörku eru bara mjög góðir.

Það er bara nokkuð sáttur lénsherra sem hér skrifar, herrann á léninu romarvefurinn.is sem hugsar sem svo að hann eigi þó allavegana nokkra þræði í vefnaðinum á fyrsta áratugi netaldar. Og pæliði í því hvað sumir sækja í söguna; einn af þeim vefjum á árdögum netaldar sem eru hvað langlífastir er vefur um gömlu Róm sem einn armur Íslendingur heldur úti.

föstudagur, júní 02, 2006

Kólosseum bíður dags

Dagur Kári er listamaður að mínu skapi. Svona innhverfur og blússandi telenteraður. Sá Nóa í Háskólabíói á sínum tíma og fannst myndin frábær. Sá samt bara helminginn af henni; var með einhvern fjandann í augunum og þurfti því að hafa þau meira lokuð en opin og var þar að auki gleraugnalaus. En samt ... snilldin er augljós blindum manni. Sá ekki Fullorðna fólkið. Gott að búa á Akranesi, vera utanbæjarmaður og geta borið fyrir sig fásinnið hér og bíóleysið. Afsökun.

Dagur er listamaður með innistæðu. Ekkert kredit, bara debet. Og nú hefur annar öndvegis listamaður samþykkt að vinna með Degi. Vel að því kominn að hlotnast sá heiður að fá slíkan töframann í lið með sér sem Waits er.

Ég hef verið að endurnýja kynni mín við Tom Waits. Það er merkilegt að nokkrir hrjúfustu og rámustu tónlistarmenn rokktónlistarinnar eru líka einstakir ballöðusmiðir. Þetta eru meistari Waits, Nick Cave og svo auðvitað Lou Reed. Búinn að sjá og heyra tvo þeirra á tónleikum, en Tomminn er eftir. Hann hlýtur að drífa í einu stykki tónleikum fyrst hann er að koma hingað og leika.

This one's for the balcony
And this one's for the floor
As the senators decapitate
The presidential whore
The bald headed senators
Are splashing in the blood
The dogs are having someone
Who is screaming in the mud
In the colosseum tonight

Meira að segja Tomminn á eitt lag um Kólosseum í Róm.

E.s. Tom Waits telst varla til rokktónlistarmanna, en hverning í fjandanum á maður eiginlega að flokka kallinn? Í iTunes er tónlist hans flokkuð undir „Alternative and punk“! Hvað er þá Bubbi; Allt og ekkert runk? (Ekki að þeir séu sambærilegir; þetta bara rímaði.)

Myndin af Tomma er úr myndinni Kaffi og sígarettur eftir annan góðan leikstjóra, Jim Jarmusch.

> Um Kólosseum má fræðast í Rómarvefnum.