laugardagur, desember 30, 2006

Jesú og pabbarnir

Það er þetta með Jesú, hann á jú tvo pabba?

Maður hefur nú pælt í þessu en ekkert að ráði - frekar en í guðdóminum yfirleitt; þetta er allt saman eitthvað svo órætt og ósegjanlega en samt segjanlega ... fj. dj. helv. ruglingslegt.

Sonur minn var staddur í einu húsa Guðs núna rétt fyrir blessuð jólin að hlusta á systur sína syngja með stöllum sínum. Sem hann horfði upp yfir föngulegan stúlknahópinn upp í kórinn vitraðist honum sú pæling af hverju Jesú ætti tvo pabba. - Hvað áttu við?, hváði mamma hans honum við hlið. Jú, hélt sá stutti áfram, Guð er pabbi hans og Jósef. Já, þú meinar það, sagði mamman og reyndi nú hvað hún gat að sjóða niður eitt pottþétt svar svo strákur léti gott heita. - Jú, sjáðu til, þetta er eins og með hann Jósúa vin þinn, hann á einn pabba í Reykjavík og annan hér á Akranesi sem býr með honum og mömmu hans. Drengurinn kyngdi þessu og mamma hans þóttist góð með svar sitt. En áfram hélt hann að stara upp í kórinn. Loks: Mamma, hvað er þessi fugl að gera þarna ...?

Það er ekki nema von að börnin spyrji: Guð er einn en samt þríeinn; Jesú er guð en samt ekki Guð. Guð er guð en ekki Jesú. Og hvað er þessi dúfa að gera þarna? Jósef er maður mömmu Jesúsar en samt ekki pabbi hans. Hvað meina þeir eiginlega með þessu?

Via lestur bloggs míns góða vinar Jóns Knúts komst ég í tæri við þá bestu útleggingu á biflíunni sem ég hef lengi lesið og ég bara verð að fá að endurbirta hana hér, óstytta. Höfundur er austfirðingurinn Helgi Seljan. Þessi óþekki úr Kastflóðinu sem Brúnn Ingi segir að hafi fengið jobb sitt gegnum klíku. - Sá ætti nú að þekkja það. Jæja, hér kemur hún (fyrirsögnin mín, fengin úr greininni).

„Hefði betur haldið sig við smíðarnar“

- Höf.: Helgi Seljan: http://730.blog.is/blog/730

Asninn silaðist áfram og María stundi við hverja veltu. Asnar hafa ekki samhæfða fjörðun. Hún fann að litla lífið sem kveikt hafði verið innra með henni, þetta furðulega kvöld fyrir níu mánuðum, var orðið stórt. Of stórt fyrir móðurlíf Maríu að minnsta kosti. Samviskan nagaði hana líka, og það skyldi hún enn síður. Ekki bað hún um þessa heimsókn, ekki bað hún um þetta skæra ljós á rúmgaflinum og þennan sting í maganum. Ó, nei. Hún reyndi hvað hún gat að verjast ljósinu í litla herberginu í Nazaret. En hver getur sossum sagt nei við æðri mátt? Enn ein ókærða, órannsakaða og óútkljáða nauðgunin fyrir dómstólum í mannkynssögunni var staðreynd.

Jósef gekk við hlið hennar og asnans og hugsaði um kúluna framan á konunni sinni. Hugsaði þannig sem enginn maður í föstu sambandi við konu vill nokkru sinni hugsa. Átti hann barnið? Var ef til vill minni en engin möguleiki á því að hann ætti gen í þessari kúlu.

Ekki bara að Jósef hafði ekki enn sofið hjá Maríu - feimni var þar einn helsti orsakavaldurinn - heldur var tímasetning getnaðarins óhugsandi.

Jósef hafði unnið allt þetta ár enda uppgrip í smíðunum. Hann hafði ekki komið heim eitt einasta kvöld án þess að kona hans væri sofnuð á undan honum. Og jafnvel þó Jósef væri gagnkynhneigður maður með sama grunnáhugasvið og aðrir slíkir, svæðið milli háls og hnésbóta kvenmannslíkamans, þá gat hann ekki hugsað sér vekja Maríu eitt einasta kvöld. Jafnvel daganna þegar strákarnir í vinnunni höfðu klæmst allan daginn og rifjað upp eigin atvik í eigin rúmum, þá leyfði hann henni að sofa.

Þess vegna gat þetta bara ekki verið hans barn. Svo mikið vissi hann, smiðurinn.

Staðfestingu á þessu fékk hann svo í fjárhúsinu um kvöldið þegar andlegir frændur blóðföðurins heimsóttu strákinn og gáfu gjafir. Jósef fékk enga. Ekkert nema fyrirlitningaraugnarráð þessara uppskrúfuðu gaura með sínar stórskrýtnu gjafir.

Óþolandi mont í þessum blóðföður þarna fyrr um kvöldið, hefur Jósef hugsað. Þetta ljósasjó yfir fjárhúsinu. Rollurnar trylltar og hænurnar nærri búnar að gogga úr barninu augun. "Týpískt hann," hugsaði Jósef og hvítti hnúanna. Það er erfitt að reiðast yfir framhjáhaldi konu sem maður hefur aldrei sofið hjá.

En af því að Jósef var umburðarlyndur maður, ákvað hann að minnast aldrei á staðfestar efasemdir sínar um faðerni barnsins.

Hann einsetti sér þess í stað að kenna honum list sína; smíðarnar. Blóðfaðirinn hafði ekki afskipti af Jesú fyrr en löngu eftir að bleyjuskiptin, fermingu og útskrift úr smíðaskóla lauk. Ekki króna í meðlög. Ekki svo mikið sem stuttur stans í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Allt var þetta á herðum Jósefs. María sem enn var haldin þessari sérkennilegu sektarkennd fórnarlambs kynferðisofbeldis, gat þó huggað sig við að stoltið birgði ekki manni hennar sýn.

Biblíulæsir menn segja mér að sú bók sýni glögglega fram á hvernig Jósef gleymdist. Jesú uppgötvaði smám saman að hann var öðruvísi en hin börnin. Gat ekki farið í sund og fleira sem börn hafa svo gaman af. En af því að hann var alinn upp af fólki sem dæmdi ekki þá gat hann þroskað með sér diktúrurnar og nýtt seinna.

Afganginn þekkja svo flestir. Jesú varð heimsfrægur í Mið-austurlöndum fyrir predikanir sínar og kraftaverk. Umburðarlyndið var þó það sem lengst lifir af verkum hans, þó auðvitað hafi blindir fengið sýn og holdsveikir endurheimt löngu týnda limi.

Sagan um portkonuna óheppnu sem grýta átti fyrir greiðasemi sína er eflaust besta dæmið um hvernig uppeldið, en ekki genin, mótuðu persónuna Jesú. Hefði Jesú verið sami sjálfumglaði exhibitionistinn og blóðpabbinn hefði hann eflaust látið grýta stelpuna til dauða. Mátt sinn og megin hefði hann ekki sýnt fyrr en hann hefði lífgað hana við með miklum tilþrifum. Í staðinn fór hann að dæmi föður síns; fyrirgaf portstúlkunni yfirsjónir sínar og benti öðrum á að lítill munur væri á hóru og hórkarli eða vændiskaupanda eins og feministar kalla þá (orðrétt snerist þetta reyndar eitthvað um grjótkast og syndir).

Ég held að Jesú hafi snúið baki við Jósef þegar pabbi hans fór að láta svo lítið sem hafa samband við strákinn. Þess vegna grét Jesú á krossinum á Golgata. Hann hefði betur haldið sig við smíðarnar, þá væri kannski séns að klaufhamar hefði verið í beltinu hans. Það hefði komið sér vel.

Nútíma kristsmenn vilja aldrei ræða um krossferðir og galdrabrennur. Þeir benda þess í stað á kærleikann og umburðarlyndið - hér er rót þeirra og uppruni:

Hvort tveggja kemur frá Jósef.

Restin; hún er frá Guði. Í það minnsta hefur hann ekki sýnt vilja sinn í verki síðan í syndaflóðinu þarna um árið, blessaður.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Tiltekt

Það var svingað á setrinu í gær. Jólatiltekt. Ég tók búrið, Hildur rest. Það gerir ein vistarvera á móti tíu. Fimm fermetrar á móti tvöhundruð og tuttugu. Samt var hún ekki á undan mér. Við kláruðum á sama tíma. Ég ryksugaði, þurrkaði af, endurskipulagði, rak út rottur og raðmyglu, endurskipulagði og kramdi gamlar bjórdósir. Ein var síðan í gær. Kannski tvær.

Eftir allt erfiðið var pöntuð pízza að íslenskum jólasið. Hildur og börnin tóku eina sneið hvert. Ég tók restina. Ég er duglegur.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Stekkjarstaur

Börnin mín tvö eiga sér lifandi trú á jólasveinana þrettán og fjölskyldu þeirra; Grýlu og Leppalúða, Láp, Skráp, Leiðindaskjóðu og hvað sem þetta lið nú allt saman heitir - að ógleymdu skaðræðinu jólakettinum. Barnatrúin er fallegust af öllu; hrein og tær. Á barnaheimilinu þessu sem öðrum hefur ríkt mikil eftirvænting eftir komu þeirra bræðra til byggða. „Stekkjarstaur kom fyrstur, stinnur eins og tré, ...“

Það var tekið vel á móti Stekkjarstaur. Systkinin voru búin að safna saman skeljum og steinum sem þau hafa tínt úr fjörunni hér fyrir neðan og settu í poka út í glugga. Líka voru þau búin að skrifa kort til Jóla þar sem hann var boðinn velkominn til byggða. Og ekki bara þetta, heldur beið hans líka grautarsletta í skál og mjólkurglas. Sveinki kann nú gott að meta og þakkaði fyrir sig með því að skilja eftir jólapezkall og mandarínu í spariskóm barnanna.

Við foreldrarnir vorum hvattir til að setja okkar skó líka út í glugga þrátt fyrir að við reyndum að segja börnunum að fullorðnir fengju venjulega ekki neitt. Og sjá, mamma fékk mandarínu en pabbi ekki neitt því hann fór svo seint að sofa.

Anna mín trúir þrátt fyrir að vera orðin fullra sjö vetra. Kannski hún sé ómeðvitað búin að taka pragmatíska afstöðu til jólasveinanna, álíka þeirri sem William James tók til Guðs og hans fjölskyldu. Röksemdarfærslan er einhvern veginn svona: Ef ég trúi á jólasveininn og hann er ekki til þá fæ ég ekkert í skóinn, ekki frekar en ef ég trúi ekki á hann og hann er ekki til. En ef ég trúi ekki á jólasveininn og hann er til þá fæ ég ekkert heldur. Hins vegar, trúi ég á jólasveininn og hann er til þá fæ ég gott í skóinn. Því hef ég engu að tapa og allt að vinna. Ergo, ég trúi á jólasveininn.

(Sjálfur gekk ég hins vegar af trúnni fimm ára þegar pabbi minn reyndi að leika hlutverk jólasveins með nærbuxur á höfði sem jólahúfu og hlýrabol hangandi á eyrunum sem skegg. Held ég sé ekki enn búinn að ná mér eftir þennan performans og síðan þá lagt mikið upp úr gerfum leikara.)

sunnudagur, desember 10, 2006

Brenndu piparkökurnar hennar mömmu

Jólakökurnar mínar eru dökkar og stökkar piparkökur ættaðar frá Skáni í Svíþjóð - piparkökur sem hún móðir mín bakaði fyrir jólin en voru svo ekki bruddar fyrr en eftir jól. Þá var nú gott að koma inn úr janúarkuldanum eftir skóla og gæða sér á seigstökkum piparkökunum með kaldri mjólk. Og ég borðaði venjulega miklu meira en góðu hófi gengdi.

Móðir mín blessunin hefur aldrei verið mikil elhúsfreyja, en fyrir jólin tók hún sig til og bakaði þrjár sortir. Það var svona lágmarksskammtur ef kona ætlaði að halda lágamarksstandardi. Ein sortin var piparkökur eftir skánskri uppskrift, en margir úr fjölskyldunni höfðu sótt í nám til Svíþjóðar og snúið til baka með uppskriftir að síldarsalati, piparkökum - og hinni góðu glögg sem Íslendingar hafa aldrei lært að drekka og eiginlega gefist upp á.

Hún bakaði stóra uppskrift að piparkökum sem var miklu meir en nóg fyrir okkur tvö í heimilinu. Kökurnar voru settar á margar plötur og ein af annarri í ofninn litla í súðareldhúsinu okkar í Vesturbæ Reykjarvíkur. Fyrir kom að kökurnar bökuðust um of. Þá hlakkaði í mér, því þær brenndu fóru í sérstakan stamp mér ætluðum sem ég mátti borða úr að vild þótt jólin og guðsfriðurinn væru ekki gengin í garð.

Það var nefnilega þannig með jólasmákökurnar að þær átti maður að borða um jólin en ekki fyrir, en það vita allir að yfir jólin er maður pakksaddur af kjöti, kartöflum, rauðkáli og jólaöli og hefur enga lyst á piparkökum. En á jólaföstunni, þegar allir eru á hlaupum og súrmjólk í hádeginu og seríos á kvöldin, þá er nú ekki amalegt að gæða sér á brenndum piparkökum í eftirmiðdaginn.

Þetta voru eftirlætiskökurnar mínar; svo stökkar og bragðmiklar að maður gat bara ekki hætt að borða þær þegar maður var einu sinni byrjaður. Þannig voru þær fljótar að klárast þessar brenndu, en því var bjargað með því að fá að láni handfylli hér og þar úr stálstömpunum og setja undir þær fáu sem ég átti eftir af þeim brenndu. Ungir menn bjarga sér.

... ... ...

Skánskar piparkökur (stór uppskrift)
- bragðmiklar og seigstökkar piparkökur ættaðar Skáni frá í Svíþjóð.

500 gr eða 7 dl púðursykur
3 1/2 dl sýróp (ein lítil dós)
400 gr smjör
1 msk engifer
1/2 msk negull
1 msk kanill
3 msk kakó
1 msk natrón
1 3/4 lítri hveiti

Hita púðursykur og sýróp í potti. Bæta smjörinu við og láta bráðna. Láta kólna. Hræra kryddinu, natróninu, kakóinu og hveitinu saman við. Færa degið yfir á fjöl og hnoða vel. Skipta deginu upp í lófastórar kúlur, rúlla þær í jafnar rúllur og fletja aðeins. Láta rúllurnar kólna í kæli smá stund. Skera svo í þunnar (5 mm) sneiðar og setja á plötu. Baka í ofni við 175 gráðu hita í 8-10 mínútur og láta kökurnar kólna á plötunni til að fá þær stökkar.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Fabúla

Var að ljúka við gerð tónlistarvídjós fyrir hana Möggu Stínu vinkonu mína sem kallar sig Fabúlu þegar og hún syngur og spilar. Fabúla gaf út disk núna í lok september sl. sem inniheldur þessa líka fínu tónlist; lágstemmda og fallega.

Möggu Stínu er það gefið að geta samið fallegar melódíur og svo velur hún sér gott fólk til að vinna með. Söngur hennar er þessi viðkvæmnislegi skandinavíski, þó ekkert hálfhvísl. Enda sótti hún manninn sinn Noregs til og bjó með frændum okkar um skeið. Um þarsíðustu helgi héldu þau Magga Stína, Birkir Rafn gítarleikari og Jökull bassi stórfína útgáfutónleika sem ég myndaði. Þar sannaðist hversu fín söngkona stelpan er og ekki skemmdi að Sigtryggur Baldurs barði bumbur og bjöllur.

Plata Möggu Stínu heitir Dusk og er þægileg og falleg skammdegismúsíkk. Eini ljóðurinn á hennar list er sú að hún skuli syngja á ensku. Ég myndskreytti lagið Pink sky og krafðist þess að sjálfsögðu að liðið kæmi hingað upp á Skaga því hér vantar sko hvorki leikmynd né náttúrufegurð.

Tókum upp í og við gamla vitann hér úti á Breiðinni sem er syðsti oddi skagans og steinsnar frá setrinu. Á Breiðinni er líka að finna stóran komplex fiskvinnsluhúsa og þar mynduðum við í elsta húsinu á svæðinu, húsi sem Thor Jensen lét reisa seint á þarsíðustu öld. Þetta er nú skemma sem geymir veiðafæri og annað slíkt. Fannst þetta einhvern veginn viðeigandi og passa við hráleikann sem við vildum ná fram. Þegar ég svo sýndi einum unglingnum í fjölskyldunni vídjóið um helgina þá spurði hann mig hissa hvað ég hefði verið að pæla að taka upp á þessum asnalega lager!

Fabúlu og Co má sjá og heyra á GúrkuTV, en hlustið líka endilega á nokkur laga þeirra á www.myspace.com/fabulaband - sérstaklega á lagið Calm, en það fallega og mellankólíska lag langar mig að myndgera næst.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Nóvember

Ekkert blogg í nóvember. Hann bara leið. Nóbloggber. Nóvember var mánuður hvalveiða. Eða var það október. Eitt skiptið sem ég var um það bil að renna mér niður í göngin mætti ég skipi: Hvalur 9 á stími út Hvalfjörðinn á stefnumót við langreiðar, ég á niðurleið undir fjörðinn. Mér fannst þetta eitthvað svo flott. Beygði af leið út í kannt, hljóp niður í fjöru og veifaði. Stjórnborðsmegin stóð maður með staurfót, langan sjónauka við heila augað og glotti við tönn. Þá einu einustu.

Mér finnst það mikið andleysi hjá Speli, rekstraraðila Hvalfjarðargangnanna, að setja ekki upp eftirlíkingu hvalshöfuðs við annan enda gangnanna og sporð við hinn. Þá keyrði maður inn um hvalskjaft hérna norðanmegin, niður og í gegnum iður skepnunnar og út um rassgatið sunnan megin.

Fékk mér hrefnu í sumar. Sérstaklega meyrt og gott kjöt, minnir á naut. Eða eitthvað. Dauðsé eftir því að hafa ekki forðað mig upp af þessu góða og ódýra lagmeti. Hér uppi á Skaga, skammt frá setri mínu, bíða hins vegar nokkrar niðurbútaðar og kaldar langreiðar eftir því að fangarar þeirra finni út úr því af hverju þeim þótti nauðsynlegt að skjóta þær. Í sushi eða súginn.

Hvalskipin í Reykjavíkurhöfn. Hafa alltaf minnt mig á 19. öldina.