fimmtudagur, september 28, 2006

Tilfinningaskyldan kallar

Hádegi á Íslandi, fimmtudaginn 28. september 2006.

Í þessum skrifuðum orðum er nýbyrjað að safna vatni á landi því sem mun með tímanum mynda hið umdeilda Hálslón. Líklegast verður ekki aftur snúið, en miðað við umræður síðustu mánaða og missera virðist mér að þorri almennings hefði kosið að aldrei hefði verið ráðist í þessa hálendisvirkjun sem sumir kalla spellvirkjun. Verður aftur snúið?

Lýsingar á því núna í útvarpi hvernig byrjað er að hleypa vatni á gróið land og furðuverk náttúrunnar minnir mig á aftöku; eins og um bandaríska aftöku sé að ræða þar sem eitri er dælt í manneskju til að deyða hana. Og hjartað sem sló slær ei meir. Óhjákvæmileg hugrenningartengsl. Fyrirgefið tilfinningasemina.

þriðjudagur, september 26, 2006

Buxur, vesti, brók og skór

Í fatnaði hef ég átt mín tímabil. Gráa, svarta og brúna. Er á því brúna núna. Ég hef og átt mín raffíneruðu tímabil, hippísku og pönkuðu. Klæðasmekkur minn hefur eiginlega þróast öfugt eins og viskídrykkjan; fimmtán ára komst ég upp á lagið með að drekka skosk viskí jafngömul sjálfum mér en hef síðan þá verið að þróa með mér smekk fyrir hrárri og ófínni börbónum. Fyrsta árið í Menntaskólanum í Reykjavík gekk ég með bindi upp á hvern dag og í þykkum ullarfrakka. Svo losaði ég um aftur.

Upp úr tvítugu fór ég að klæðast skyrtum og vestum af afa mínum með vasaúr í keðju í stíl. Alltaf í jakka við. Gallabuxur hafa ekki verið mín deild, en átti þó mitt gallaskeið í gallajakka og allt. Thor hefur jú verið mikill gallakarl og alltaf flottur. Stundum hefur maður því verið að reyna, apa, orðið fyrir áhrifum. Þannig er þetta bara.

Brúna tímabilið hefur varað í u.þ.b. tíu ár. Sennilega þó fimmtán. Öll mín föt eru brúnlit, skór og yfirhafnir líka. Konunni minni finnst þetta allt saman sama drullan og sérlega ósexý. Samt eigum við tvö börn. Dóttirin er á sínu bleika og strákurinn kominn á sitt brúna. Konan oft í svörtu.

Einn er sá litur sem ég held mest upp á en klæðist eiginlega aldrei. Þetta er dökk-appelsínugulur litur, eiginlega karrígulur. Uppgötvaði litinn þegar ég sá Evu Marie Saint klæðast ullardragt í þessum lit í einu atriði í kvikmynd Hitchcocks, North by Northwest. Ég kiknaði í hnjáliðunum og slefaði, svo allrar háttsemi sé gætt. Sá einu sinni nákvæmlega eins dragt í búð einni í Róm og sé eftir því enn þann dag í dag að hafa ekki keypt hana handa konu minni. En, hún hefði aldrei farið í hana. Þolir ekki karríið frekar en kúkabrúna litinn. Ég slefa samt.

Jónas Hallgrímsson taldi einu sinni fram fötin sín, en lét ógetið um lit þeirra:

Buxur, vesti, brók og skó,
bætta sokka, nýta,
húfutetur, hálsklút þó,
háleistana hvíta.

miðvikudagur, september 20, 2006

Vefblöð

Fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur nú um nokkurt skeið boðið vefgestum á móðurvef fyrirtækisins, Vísi.is, upp á þá fínu þjónustu að geta lesið fríblöð þeirra á netinu. Fyrir skömmu bættust svo sölublöðin við sem hægt er að kíkja í ókeypis þetta viku eftir útgáfu.

Nú hafa vefumsjónarmenn Vísis bætt um betur og tekið í gagnið nýtt viðmót fyrir vefblaðalesturinn (á bara við um Fbl. fyrst í stað sýnist mér). Þetta nýja vefviðmót getur bara ekki verið betra því svona á þetta að vera: skýrt, einfalt og læsilegt og næstum því eins og okkur finnst flestum best, þ.e. að lesa blað sem opnu en ekki stakar síður.

Annars merkilegt hvað vefurinn, sem glænýr og ómótaður miðill, tekur mikið mið af prentinu. En svona hefur þetta verið í þróun tölvuviðmóta: Apple byrjaði með gluggakerfið og skjáborð sem er hugsað sem skrifborð (desktop), o.s.frv. Allt miðað við gamla heiminn.

Nú þarf Mbl.is að taka sig saman í andlitinu, en fyrir löngu er orðið tímabært að sá vefur uppfæri viðmót sitt og virkni. Það er ekki nóg að bjóða upp á fréttamyndskeið og blogg og ég veit ekki hvað. Viðmótið skiptir mjög miklu máli og það er bara ekki í lagi á Mbl.is. Changes?

... ... ...

Verð svo að nýta mér afritunarmöguleikann í þessu nýja viðmóti (var ekki alltaf hægt í Adobe) og birta hér ögn úr grein Björgu Evu Erlendsdóttur fréttakonu á RÚV, eða öllu heldur brot úr opnu bréfi hennar til Róberts Marskálks á Nánast Feigu Stöðinni:

Fjölmiðlar framtíðarinnar verða vonandi ekki eins og NFS. Það er ekki frjáls fjölmiðill sem á allt sitt undir Kæra Jóni og þarf að biðja hann um náðun ef dauðadómur er kveðinn upp. Frjáls fjölmiðill hefur trygga afkomu, óháða fréttamenn, gagnsæi í launum. Tilvera hans byggir á því að almenningur í landinu á rétt á hlutlægri, óháðri umfjöllun um hvaðeina sem máli skiptir í samfélaginu.

En viðburðir síðustu ára í fjölmiðlaheiminum sýna okkur fyrst og fremst að fjölmiðlar verða sífellt tannlausari og lélegri í þeim ólgusjó óvissu, fjárhagserfiðleika og afskipta fjármála- og stjórnmálamanna sem þeir hafa siglt að undanförnu. Það sem þarf til að fjölmiðill geti verið góður er staðfesta í rekstri, góðir stjórnendur, þekking, reynsla, viðunandi vinnuumhverfi og síðast en ekki síst fagleg samstaða fjölmiðlafólks.

Heyr, heyr. Fólk á að standa saman, standa vörð um réttindi sín og heilbrigt starfsumhverfi. Og launin maður. Björg Eva nefnir í greininni að fréttamenn hafi á bilinu 260-300 þús. á mánuði fyrir fullt starf. Þetta eru fótgönguliðarnir í fjölmiðlun á Íslandi, fólkið sem aflar fréttanna sem skipta máli. Á meðan NFS og Kastljós keppast um að bjóða í stjörnuandlit hvors annars.

föstudagur, september 15, 2006

Spjall / Spjöll

Nú les ég aftur og aftur ranga notkun á orðinu „ártíð“. Hingað til hef ég staðið í þeirri meiningu að ártíð sé n.k. dánarafmæli manns. Dæmi: Jón dó árið 2000 og árið 2005 minntust ættingjar hans fimm ára ártíðar hans. Nú bregður svo við í skrifum blaðamanna og fleiri að ártíð er notað um afmæli manna og atburða. Dæmi: „Boðið verður upp á leiðsögn um grafhvelfingarnar í tilefni af 500 ára ártíð safna Vatíkansins.“ (Fbl., 15. sept. 2006) Hér er ekki bara að orðið ártíð sé í röngu falli heldur ætti hér að standa „afmælis“. Ekki var það betra þegar Gallerí Fold auglýsti um daginn sýningu í tilefni „árstíðar“ tiltekins listamanns (sic!). Hvar er fólk þegar það er að skrifa?

Ég er að fara að sjá dansleikhús Pinu Bausch á sunnudagskvöldið og hlakka ógeðslega til. Ég er það ignorant í þessum geira að hafa ekki heyrt um þessa merku konu og leikhús hennar fyrr en núna í vikunni að þeir fjölmiðlar sem ég „neyti“ hafa verið uppfullir af lofi og mæringu á hennar miklu list. Ég tek mark á málsmetandi fólki og ætla ekki að láta hana Pínu fara fram hjá mér. Ekki pínu og ekki pons.

Já, við erum víst neytendur í öllu. Fjölmiðlaneytendur og menntunarneytendur og ég veit ekki hvað. En, ég bara neita þessu, neyti míns neytandaréttar til að neita því að vera neyddur til þess að vera fjölmiðlaneytandi. Hvað er ég þá? Tuðari?

Hvað er maður án orðabókar? Í orðabókinni minni er borgin Accra í Gana (sögð í Sýrlandi) nefnd Akursborg. Það finnst mér gott nafn og legg hér með til að Akranesbær fari þess á leit við bæjarstjórann þar að komið verði á vinarbæjartengslum. Áður en Akureyringar hlaupa til. Annars merkilegt hvað hugsandi menn voru hér áður fyrr ófeimnir við að íslenska heiti erlendra borga og bæja. Þótti sjálfsagt. Er og sjálfsagt og miklu skemmtilegra. Síena á Ítalíu var t.d. kölluð Langa-Sín. Þetta er gott.

Ég man, munið þið?



Ammæli með Sykurmolunum. Eitt af þeim lögum sem ég myndi setja í sæti með fimm helstu gæsahúðarlögum sem ég hef heyrt um ævina. Með níundu Beethovens og serenöðu Mozarts í Bé.

Á YouTube.com er hægt að sjá nokkrar útgáfur af laginu og ólíkar myndskreytingar. Athyglisvert er að skoða upprunalega mynd við lagið sem Óskar Jónasar gerði. Þar er, svona eftir á að hyggja, eins og reynt sé að sætta eða samþætta Kuklið og Sykurmolana, með hinu klassíska ívafi eldgosa og hvera: Meira að segja frumlegustu popparar Íslands hafa notast við þá ofnotuðu klisju.

miðvikudagur, september 13, 2006

Steypibað

Kvennafar í Þingholtunum

Ég hóf skólagönguna í Austurbæjarskóla og gekk í þann skóla frá sex til tíu ára aldurs. Fimm ár. Gekk ýmist úr Hlíðunum eða Þingholtunum, að austan eða vestan, frá mömmu eða pabba. Og þetta gekk bara vel, takk fyrir. Ég á góðar minningar úr Austurbæjarskóla.

Margar minningar tengjast bralli ýmislegu með honum Benna. Hann átti heima á Laufásveginum og ég í Þingholtsstrætinu (þegar ég var vestanmegin). Þegar hugsað er til baka þetta langt aftur kemur það manni á óvart hversu snemma litlir strákar byrjuðu að pæla í stelpum.

Hún var með hvítt sítt hár, engilfríð og ekkert minna en Agnetha Fältskog Austurbæjarskóla. Og hefði örugglega farið langt á sínum fagurgala í Ídoli og Stjörnuleit hefði því verið að dreifa á þeim tíma. En, nei, þarna nægði það átta-níu ára drengjum að draumadísin léki Maríu mey í jólaleikritinu. Hún var María Agneta og við dáleiddir. Fjárhirðar úti í haga og opinberunin í nánd.

Hún Agneta okkar átti heima í litlu hvítu húsi í Þingholtunum. Í risinu átti hún sér herbergi og bjó með hvítum og bleikum böngsum - ímyndaði ég mér því aldrei komst ég þangað inn og þráði það samt svo mjög. Við Benni vorum komnir með svona sirka hvolpavit eða vissum í það minnsta hvað við vildum. Og það sem við vildum var ein stelpa úr bekknum okkar, sama stelpan; Agneta. Við vorum báðir ástfangnir af sömu stelpunni og sáttir við að takast á um hana saman. Fengum kvöldgönguleyfi frá foreldrum og komum okkur upp merkjakerfi: Þegar við fórum út og vitjuðum húss Agnetu þá var það að „fara á KF“.

KF stóð sem sagt fyrir kvennafar en þýddi samt það að við vildum fara á fjörurnar við eina stelpu sem var ekki einu sinni að finna í fjöru og við algjörlega í kafflóði. Fórum samt á „KF“ og breimuðum fyrir utan litla hvíta húsið hennar Agnetu. Kvöld eftir kvöld snigluðumst við utan við húsið hennar, gengum fram hjá því og aftur. Ekki minnist ég þó þess að sú yndisfríða hafi látið svo lítið sem bæra eitt gluggatjald, veifa til okkar hangandi hendi, látið svo lítið sem að veifa til okkar einum bleikum bangsa frá kvistglugga sínum.

Við gripum til okkar ráða. Við þurftum að komast í færi við hana Agnetu okkar og hvað var heppilegri vettvangur til þess arna en bekkjarpartí, diskótónlist og orkumiklir gosdrykkir. Þetta gæti ekki klikkað. Benni bjó í stóru húsi með víðum og loftmiklum sölum sem voru tilvaldir til veisluhalda. Fengum skemmtanaleyfi af mömmu Benna gegn því að við tækjum til í öllu húsinu fyrir og eftir. Man eftir okkur Benna fægja hurðarhúna og safna ryki í fjaðrakúst.

Við skipulögðum partíið. Skipulögðum hvernig við ætluðum að bera okkur að í því kossaflensi og fangbrögðum sem við áttum í vændum. Af einhverjum ástæðum man ég ágætlega eftir undirbúningi þessa mikla bekkjarpartís en eiginlega ekkert eftir partíinu sjálfu. Það gerðist líka ekkert. Ekkert. Við vorum þá bara litlir strákar með alltof stóra drauma. Kærustur og kossar komu seinna. Einbeittum okkur þar eftirleiðis að hljómsveitarstússi uppi á háalofti hjá Benna og njósnum um vafasama kalla í Þingholtunum. Kannski meira um það seinna.

þriðjudagur, september 12, 2006

Hól

Öllum finnst okkur gott að fá klapp á axlirnar frá vinum og félögum; smá hól sem felur í sér viðurkenningu og virðingu gagnvart gjörðum manns - og manni sjálfum.

Mér finnst gott að fá hól, en hef þó lengi átt í mesta basli með að kunna að taka því, njóta þess. Þoli ekki skjall og á það eflaust til að rugla þessu saman; hóli og skjalli. Meðvitaður um það að hófstillt hól geri öllum gott (jafnt þeim sem gefur og þyggur) hef ég sjálfur reynt að vera örlátur á það.

Nema hvað, ég held úti hinum og þessum vefsetrum sem eru nokkurs konar útrásarstöðvar mínar fyrir sköpunarþörf. Og sýndarþörf. Ég hef t.d. fengið nokkra pósta tengdum Rómarvefnum þar sem mér er þakkað fyrir framtakið og hinu og þessu hælt. Ekki er verra þegar ókunnugir hæla manni.

Vænt þótti mér líka um það í gær þegar mér barst póstur lengra að en nokkurn tíman áður. Maður að nafni Jerry Gordon sendi mér þá póst frá Osaka í Japan til að þakka mér fyrir stuttmyndirnar sem ég hef til sýnis fyrir gesti og gangandi í netheimum. Leyfi mér að birta bréf hans hér:


Dear Kristinn Petursson,

I just wanted to write to you to tell you that your short films are wonderful. I particularly enjoyed BÍÓDAGUR, 1918, KLIPPING, GANGBRAUT and FLUGDREKI.

The way that each of them combines technique with the subjects to tell intimate little stories is both poetic and delightful. The tail of the kite in FLUGDREKI works so fluidly with the Alice Coltrane music, like pure choreography. And, the reshaped version of Walk on the Wild Side makes GANGBRAUT very funny.

I look forward to seeing more of your films.

Sincerely,

Jerry Gordon
Osaka, Japan

sunnudagur, september 10, 2006

Rokland

Árið fór vel af stað. Ég las Rokland Hallgríms Helgasonar fyrstu dagana í janúar og hafði gaman af. Hef síðan ætlað að blogga um þá góðu bók. Nú er það loksins komið fram sem öllum ætti að vera ljóst við lestur hennar; nefnilega það að bókina á að kvikmynda.

Rokland er vissulega vel fallin til kvikmyndatöku. Svo vel að það er eiginlega ekkert handrit að skrifa. Bara að laga hinn endasleppa endi og bókin er tilbúin í töku. Bara eftir að kasta í hlutverk þeirra litríku persóna sem bókin hefur að geyma - jú, stundum eilítið einlita, en samt safa-ríkar. Hér þarf að vanda valið.

Bókin er mjög visúal, enda skrifuð af myndlistarmanni af bíókynslóð Tarantínós o.fl. Það á eiginlega ekki að vera hægt að klúðra þessari mynd. Bara spurning hvort bloggið verði ekki orðið svolítið lastyear þegar myndin kemur út. Nú myndbloggar fólk, en það er ekki Bödda. Hann er maður hins ritaða orðs. En samt, kannski er það soldið Böddalegt að sitja framan við tölvuna og vefkameruna og láta vaða á súðum.

Var ekki alveg sáttur við lúkkið á Bödda í sögunni; taglið og það. Passaði einhvern veginn ekki við 19. öldina í honum. Sé hann frekar fyrir mér eins og Daníel Ágúst er þessa dagana. Já, þannig er Böddi einhvern veginn; forn án þessa þó að vera kúl. Böddi er nefnilega lúði. (Nei, Danni er ekki lúði. Tilgerðarlegur já, en ekki lúði).

Sé það fyrir mér að auðvelt verði að sækja þýskt fjármagn í myndina. Fyrir það fyrsta hefur Hallgrímur selst þó nokkuð vel í Þýskalandi, held ég, og svo er Böddi náttúrlega maður þýsku 18. og 19. aldar meistaranna. Vona að handritshöfundar fari ekki að breyta honum í enskumann eða eitthvað þaðanaf verra og útþynntara. Rokland getur nefnilega orðið helvíti góð mynd og sérstaklega ef sagan fær að halda sínum þjóðlegu einkennum. Þannig hefur hún alþjóðlega skírskotun.

(E.s. Ég get verið hræðilegur lygari. Ég var allan janúarmánuð að lesa Rokland. Ég er seinlæs með afbrigðum, en líka vegna þess að ég smjatta á góðum texta.)