föstudagur, desember 30, 2005

Fjöllottóamargmilljóner

Ég er svo ótrúlega heppinn maður. Núna í desember bárust mér alls þrjár tilkynningar um að ég hefði unnið margar, margar milljónir bandaríkjadala í svona netlottóum sem ég tók ekki einu sinni þátt í; ég var bara valinn af handahófi af því að ég er svo ótrúlega heppinn. Og vann ekki bara í einu lottói heldur þremur. Ótrúlegt! En satt.

Það eina sem ég þurfti að gera var að senda lóttóunum erlendu afrit af vegabréfinu mínu og upplýsingar um bankanúmer og þess háttar til að þau geti sannreint að ég er ég, þessi ótrúlega heppni maður. Auðvitað sagði ég ekki lottófólkinu frá því að ég hefði líka unnið í öðrum lóttóum. Og nú bíð ég bara sallarólegur eftir því að bankareikningarnir mínir fyllist af dollurum og mínus verði að stórum plús. Verst hvað gengið er lágt. Get að vísu geymt þá grænu þangað til að dalurinn hækkar úr sinni djúpu lægð. Það ætla ég að gera, en samt eyða smá til að byrja með. Og ég er búinn að segja upp í vinnunni; get nú loksins helgað mig blogginu og öðrum skrifum því að lesendur mínir og ég eiga það svo sannarlega skilið.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Stakir sokkar

Stakir sokkar hafa nú lagt undir sig heila skúffu í kommóðu minni. Hvar eru makar þeirra: Hvað verður um hina sokkana?

Ég er nú svo klikkaður að þegar ég þvæ þvott þá passa ég upp á það að sokkapörin fari saman í vélina. Það er örugglega svo miklu meira stuð hjá þeim að vera saman í vatni og vindu. Þessu er kona mín ekki sammála og nær undantekningarlaust fara sokkarnir stakir í þvottavélina. Gott og vel. En koma þá ekki eftirlegusokkarnir fast á hæla hinna í næstu vel? Nei, það er nú vandamálið, þeir bara ... hverfa, gufa upp eins kötturinn hennar Olgu Guðrúnar. Þetta er vandamál, verulegt vandamál.

Guðni landbúnaðarráðherra sagði einu sinni að staða konunnar væri á bak við eldavélina. Ég gæti lagt út af þessari lífsspeki ráðherrans og sagt að staða konu minnar ætti að vera á bak við þvottavélina - að leita að stökum sokkum.

Þetta er dularfullt mál þetta með stöku sokkana. Böslurum (sbr. e. bachelors) ráðlegg ég frá því að deila þvotti sínum með þeirri konu sem þeir kunna að falla fyrir eða gera skriflegan samning um að sokkapar skuli alltaf fara saman í þvott. Annars fyllist kærleiksheimilið af einmana stökum sokkum og kærleikurinn; hann víkur fyrir rifrildi um staka sokka.

mánudagur, desember 12, 2005

Alfreð afi

Móðurafi minn Alfreð Gíslason hefði orðið 100 ára í dag, 12. desember, hefði hann lifað. Afi dó hins vegar 13. október árið 1990 rétt tæplega 85 ára.

Afi var um margt merkilegur maður og sérstaklega vegna þess að hann var það sem í dag er kallað self made man. Við fæðingu hans voru uppi þær aðstæður að ekki mátti fréttast um hver væri faðir hans og móðir hans Sigríður gat ekki annast hann. Árið var 1905. Litla stráknum var því komið í fóstur. Það var gæfa hans að það fólk reyndist honum afskaplega vel, en að öðru leyti varð hann sinnar eigin gæfu smiður.

Afi gekk menntaveginn alla leið upp í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á læknisfræði, en sótti svo sérfræðimenntun í tauga- og geðlækningum til Danmerkur. Starfaði sem læknir í Reykjavík frá 1936, en fór svo að láta taka til sín í þjóðmálaumræðu. Kosinn í bæjar- og síðar borgarstjórn Reykjavíkur frá 1954 til 1966. Á þing var hann svo kosinn fyrir Alþýðubandalagið 1956 og sat þar þangað til 1967 þegar hann hætti og sagði skilið við bandalagið.

Afi gekk að eiga ömmu mína Sigríði Þorsteinsdóttur árið 1932 í Kaupmannahöfn, en henni kynntist ég aldrei þar sem hún dó skömmu áður en ég fæddist eins og raunar föðuramma mín líka. Aflreð og Sigríður eignuðust þrjú börn og bjuggu þeim fallegt heimili í Barmahlíðinni í Reykjavík. Þar bjó ég í kjallaranum sem barn og gekk í Austurbæjarskóla eins og mamma hafði gert. Vorum við afi mikið í samvistum og af því getur einn lítill drengur ekki haft nema mjög gott.

Á vef Alþingis má lesa meira um afa.

AÐ GEFNU TILEFNI er það sjálfur ég sem skrýðist pípuhatti afa míns í forgrunni myndarinnar, en hatt þennan notaði afi á frímúrarafundum. Ég á ekki hattinn núna en kjólfötin hinsvegar sem honum tilheyrðu.

föstudagur, desember 09, 2005

Foreldrar

Foreldrar eru vandamál. Fyrst koma þeir manni í heiminn manni gjörsamlega forspurðum. Svo er eins og maður hafi þröngvað sér upp á þá. Og þannig er það svona fram að tvítugu. Maður settur á hinar ýmsu geymslustaði: Dagmamma, leikskóli, skóli, sumarnámskeið, gagnfræðaskóli, menntaskóli, háskóli. Maður er vandamál og á hátíðum: Unglingavandamál.

Svo verður maður fullorðinn og áttar sig á því að þetta fullorðna fólk er svo fjarri því að vera fullkomið. Og maðurinn ég, forsniðinn af foreldrunum; fullkomlega ófullkominn og alltaf barn foreldra minna.

Svo um síðir verður þetta fólk gamalt. Og eldgamalt og getur ekki einu sinni drepist nógu snemma til að langplöguð börnin njóti nú einhvers í arfi. Nei, nei, arfurinn kemur náttúrlega þegar maður þarf EKKI á honum að halda. Kemur nákvæmlega þegar maður er sjálfur orðinnn gamall og fyrir löngu orðinn foreldravandamál.

AÐ GEFNU TILEFNI er það tekið fram að maðurinn á myndinni hefur ekki gert mér neitt, enda alls óskyldur mér og á ekki neitt heldur. Hann býr á Filipseyjum og hefur það víst skítsæmilegt. Blessaður maðurinn.

La musica

Sat í stofu minni morgunn dags. Kaffí bolla, glatt í geði. Úti fyrir fyssandi öldurnar uppi á Breiðinni. Akranes. Rás tvö sér um kammertónlistina. Hlusta á popplag sungið af stúlku á ensku. Útlensk eða amrísk? - veit ekki, en eitthvað við lagið og fluttninginn fær mig til að hugsa um Ragnheiði Gröndal. Hún er tignuð á heimili hér. „Ragnheiður myndi syngja þetta lag svo mikið betur með sinni góðu fraseringu og innlifun“ hugsaði ég. Svo er lagið afkynnt: Regína Ósk söng lag eftir Ragnheiði Gröndal.

... ... ...

Er að hlusta á Takk Sigur Rósar í fyrsta skipti hér heima á fullu blasti. Morgunn. Þarf ekkert að fjölyrða um seiðandi tónlist hljómsveitarinnar: Hún er seiðandi! Svo virðist sem sveitin Amina eigi alveg helling í plötu Sigurrósar - og þar liggur líka snilldin, að hafa með sér góða listamenn og helst ekki á móti.

... ... ...

Það er eitthvað alveg furðulegt með margar upptökur frá því snemma á sjöunda áratugnum. Það er eins og tónlistarmennirnir séu bara í næsta herbergi við mann; hérna hinum megin við þilið að taka upp, suss, þögn, upptaka: Freddie Freeloader! Þannig er stemmningin við það að hlusta á til dæmis Kind of Blue Miles Davis; þessir snillingar eru bara í næsta herbergi að blása í tenórinn, toga í streng, hræra í snerli, nudda nótur hvítar og svartar. Enginn getur betur.

... ... ...

Robbie Williams hinn breski er umfram allt performer. Getur sungið, getur dansað, getur leikið, getur hermt eftir. Frábær performer. Ekki endilega tónlistarmaður. Það sannast í nýju lagi kauða þar sem hann stælir Lou Reed. Gerist Lou Reed. Heyrði þetta lag og dró mína ályktun. Las svo dauðadóm yfir mínum í Fréttablaðinu og ekki verð ég til að vaka yfir yfir því líki. En, eflaust margr breskir. Hann er vinsæll og veit af því .

... ... ...

Ég er áhrifagjarn. Á það til að kaupa tónlistina sem er í spilun í plötubúðinni þar sem ég er staddur. Ef það hljómar vel þá kaupi ég það. Las dóm í Fréttó fyrir nokkru um disk með frönskum músiköntum sem taka valin lög úr nýbylgjunni bresku a la stæl franses. Hljómaði vel og ég keypti diskinn um daginn. Er að hlusta á hann og hann hljómar vel. Heitir Nouvelle Vague.

AÐ GEFNU TILEFNI skal það tekið fram að hún Ragnheiður mín Gröndal er ekki að horfa upp til mín hér á myndinni; hún er meira svona dreymandi.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Jesús minn Lennon

Dag þennan fyrir 25 árum var John Lennon skotinn til bana á götu úti í New York. Og dag þennan fyrir um það bil 2060 árum var María móðir Jesúsar getin af heilögum anda. Segir sagan.

Tölum fyrst um púllann Lennon. Hann var víst ólíkindatól, vondur við eldri son sinn, elskaði konuna sína (þegar hann var ekki að dunda við aðrar), en umfram allt og það sem okkur skiptir mestu: Frábær tónlistarmaður og leiðtogi. Þennan dag fyrir 25 árum var ég nýfluttur á Brávallagötuna í Vesturbæ Reykjavíkur. Ellefu ára. Eins og minningin vill hafa það var ég bara inni í stofu og mamma þar líka og opið fyrir útvarpið. Og þá kom fréttin. Mamma var og er Lennonisti og því var þetta henni sjokk eins og ótal fleirum. Þarna á stofugólfinu á Brávallagötunni man ég fyrst eftir Lennon.

Á sama tíma í sjálfri morðborginni átti mín heittelskaða heima og ekki nema níu ára. 1980. Hildur man þetta vel: Allir grétu og mamma og pabbi. Enda mikil sensjasjón í borginni þá. Hvort það var nokkrum dögum áður eða eftir, þá kom Dobble Fantasy út og sú plata fékk engar smá viðtökur. Og sem betur fer ekki bara vegna þess að kallinn var drepinn, heldur vegna þess að platan er og verður eitt stórkostlegt meistaraverk í lagasmíð, útsetningum og upptökustjórn. Mér hefur allltaf fundist þessi plata vera ákveðið tribjút Lennons til sjötta áratugarins; einfaldar útsetningar og tærleiki. Til dæmis finnst mér trommuleikurinn alveg með eindæmum sparsamur og flottur.

... ... ...

Og nú að Mæju. Á Ítalíu markar 8. desember upphaf jólanna. Þennan dag árið 1998 var ég staddur á torgi í Róm þar sem stendur súla ein ílöng upp og þar efst líkneski Maríu guðsmóður. Páll páfi mætti og vottaði hinni óspjölluðu móður virðingu sína. Voru þar auk okkar mættir mætir menn eins og klæðskerinn Valentínó og leynilögregla Vatíkansins.

Maður getur kannski unað Guði það að stinga undan smiðnum Jósefi, en að leggjast líka með móður Maríu og eiga hana með henni, það hlýtur að teljast til fjöllyndis. Og er þá Guð ekki að geta dóttur sinni Maríu barn þegar hann fyllir hana af heilögum anda sínum og gerir henni barn. Sifjaspell? Oh, nei, auðvitað, hann er þríeinn, eða hún, eða þau, eða ... Er þetta ekki bara rugl?

Mér var ungum mjög uppsigað við trúna; man eftir mér yngri en tíu ára einsetjandi mér það að afsanna þessa vitleysu fyrir fólki þegar ég yrði stór. En, ég hef fyrir löngu komst að því að það er ekkert við trúna að sakast heldur kenninguna og kredduna sem stundum er eitt og hið sama.

Kristur og Lennon. Í margra augum einn og sami maðurinn. Þurftu alltént báðir að þola erfiða barnæsku, voru baldnir, foreldrar þeirra héldu framhjá, voru byltingarmenn, o.s.frv. Og hvorugur hafði bílpróf. Ég veit ekki hvað ég er alltaf að daðra við katólskuna; hún er fáránlega opinberandi um fordild sína þegar maður nennir að pæla í því. Lennon var gallaður, en fjandi góður tónlistarmaður. Og tónlistin lifir.

AÐ GEFNU TILEFNI tók Hildur ekki þessa mynd af Jóni. En, hún er góð samt. Johnny boy í NY-bolnum sínum. Svona var hann. Þeim sem vilja lesa meira um Maríu og Jósef og jólin á Ítalíu er bent á Rómarvefinn, Romarvefurinn.is