Bankinn minn er búinn að taka upp nýtt nafn, kennimerki og dumbrauðan lit - heitir ekki lengur því gagnsæja nafni Íslandsbanki (þ.e. banki sem upprunnin er og starfar m.a. á Íslandi) heldur Glitnir. Nú ætlar gamli bankinn minn sameinaður fyrrum dótturfyrirtækjum í eina meiriháttar útrás til ... úha, haldið ykkur: Noregs. Starfsvettvangur Glitnisbanka er því Ísland og Norge og því ekki nema von að sveitastrákurinn Bjarni bankastjóri Ármanns hafi talið fulla þörf á nafnbreytingunni þar sem Norðmenn skilja að sjálfsögðu ekki bofs í því hvað framandorðið Íslandsbanki þýðir.
Hef ekki lengi heyrt lélegri rök fyrir að því er virðist ónauðsynlegri nafnabreytingu með öllum þeim tilkostnaði og ruglingi sem fylgir. Nema - og takið nú eftir - nema þetta sé einmitt úthugsuð leið til að losna við Íslandstenginguna sem hingað til hefur þótt flott en stefnir nú í að verða útrásarvíkingunum fjötur um fót.
... ... ...
„Bank, bank, halló, er einhver heima?: Það er allt að fara helvítis til!“ - Nei, nei, ekki mín skoðun og svo sannarlega ekki stjórnvalda sem kóa og kóa með Alcoa og bönkunum.
En, þetta segja bankar og fjármálagreiningarfyrirtæki á Norðurlöndum og víðar. Og svartsýnisspárnar stigmagnast; verða svartari og svartari, súlurnar í súluritunum hafa skotist langt niður úr kortunum og eru leið til ... þið vitið hvert.
Slæmu fréttirnar:Danski fjárfestingarbankinn Nykredit varar við íslenska hagkerfinu og ráðleggur fjárfestum að innleysa þegar skuldabréf sín í íslenskum bönkum. Áður en það verði of seint.
Yfirmaður greiningardeildar fjárfestingarbankans kveðst ekki geta ráðlagt neinum að lána peninga til KB Banka, hvorki til lengri né skemmri tíma.
Góðu fréttirnar:Yfirmaður greiningardeildar First Securities í Noregi telur ekki að hrun sé yfirvofandi, heldur að smám saman taki að halla á ógæfuhliðina á íslenska fjármálamarkaðnum á næstu mánuðum.
... ... ...
Fiskar prýða myntina okkar, enda var sjávaraflinn lengi vel helsta tekjulind þjóðarinnar. Nú er banka- og fjármálastarfsemi ýmisleg orðin æði umsvifamikil og allir að landa miklum gengishagnaði. Setjum við þá peninga á peningana okkar? Man einhver eftir álkrónunni litlu og léttu sem flaut? Nú er sko tími til að taka hana aftur í gagnið: Fljótandi álgengi krónunnar.